Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í október 2010
Jarðskjálftar á Íslandi í október 2010

Jarðskjálftar á Íslandi í október 2010

25.11.2010

Ríflega 1100 jarðskjálftar mældust á SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í október. Stærsti skjálfti mánaðarins varð á Reykjaneshrygg, Ml 4,7. Við Blöndulón varð skjálfti Ml 3,8 í lok mánaðar og var hann stærsti skjálfti á landi.

Á annað hundrað skjálftar mældust í Mýrdalsjökli þennan mánuðinn, flesir í vestanverðum jöklinum. Stærsti skjálftinn (Ml 2,9) varð innan öskjunnar 5. október um kl. 14:30, honum fylgdi annar minni skjáflti (um 0,9 að stærð) sex mínútum síðar. Um tugur smáskjálfta mældust í Eyjafjallajökli og álíka margir á Torfajökulssvæðinu.

Rúmlega 200 skjálftar mældust í Vatnajökli, flestir undir Bárðarbungu og Esjufjöllum. Skjálftahrina hófst í Esjufjöllum í Vatnajökli að kvöldi 19. október. Yfir 70 jarðskjálftar mældust út vikuna, stærstu rétt innan við þrjú stig. Jarðskjálftar hafa áður mælst af og til á svæðinu, en síðasta hrinan var í október 2002. Þá mældust um 90 skjálftar, stærstu um 3,5 stig. Stærsti skjálftinn sem mældist í jöklinum varð laust fyrir miðnætti 4. október , Ml 3,3, um 3,5 kílómetrum norðaustur af Hamrinum. Sjö skjálftar urðu við Grímsvötn, flestir síðari hluta mánaðarins og var sá stærsti Ml 2,6. Á svæðinu norðan Vatnajökuls mældust um 60 skjálftar, allir um og innan við tvö stig.

Á Kröflu- og Þeistareykjasvæðum mældust smáskjálftar af og til allan mánuðinn.

Að morgni þriðjudagsins 26. október hófst skjálftahrina við suðurenda Blöndulóns og hélst skjálftavirknin þar áfram út mánuðinn. Um 90 skjálftar mældust og voru nokkrir þeirra stærri en þrjú stig. Stærsti skjálftinn var Ml 3,8 og varð aðfaranótt sunnudagsins 31. október. Nokkrir skjálftanna fundust í byggð.

Nokkrir smáskjálftar mældust undir Geitlandsjökli sem er í suðvestanverðum Langjökli og við Þórisjökul.

Liðlega 220 jarðskjálftar mældust á og útifyrir Norðurlandi og dreifðist virknin nokkuð um svæðið. Smáhrina hófst við Grímsey að morgni 13. október og stóð fram eftir degi. Stærsti skjálftinn í hrinunni var tæp þrjú stig og var það jafnframt stærsti skjálftinn við Grímsey í mánuðinum. Um klukkan 04:30 þann 26. október hófst smáskjálftahrina í Öxarfirði og stóð hún í einn og hálfan klukkutíma. Stakur skjálfti að stærð 3,1 mældist kl 11:41 fimmtudaginn 7. október, 39 kílómetrum norðvestur af Siglufirði, á svipuðum slóðum og Skagafjarðarskjálftinn varð árið 1963.

Á níunda tug jarðskjálfta mældist úti á Reykjaneshrygg. Flestir þeirra urðu í hrinu sem varð um 20 kílómetrum suðvestur eða suðsuðvestur af Eldeyjarboða 23.-24. október. Í þessari hrinu urðu 11 skjálftar af stærð þrír eða stærri, þeir stærstu urðu 23. október og voru 4,0, 4,3 og 4,7 að stærð. Fyrri hluta mánaðarins urðu einnig allnokkrir skjálftar 4-5 kílómetrum suðvestur af Geirfugladrangi.

Á Reykjanesskaga bar mest á skjálftavirkni nærri syðri enda Kleifarvatns en þar urðu 83 skjálftar, sá stærsti 2,7 að stærð varð upp úr miðnætti 22. október.

Á Hengilssvæði urðu 20 skjálftar og í Suðurlandsbrotabeltinu urðu skjálftar aðallega í Hjallahverfi (frá Þrengslum austur að Þorlákshafnarvegi), og á nýlegum Suðurlandsskjálftasprungum: á Ingólfsfjallsprungu og syðri hluta Kross-sprungu (frá maí 2008), og á Hestvatns- og Holtasprungum (frá júní 2000). Einnig voru staðsettir fáeinir skjálftar suður af Skarðsfjalli (sunnan Þjórsár) nærri sprungu sem skalf árið 1896 og suður af meginbrotabeltinu, milli Hellu og Þjórsár en þar mælast skjáfltar öðru hverju, t.a.m. árið 2000 í kjölfar Suðurlandsskjálftanna.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica