Fréttir
Sólarupprás
Sólarupprás séð frá Reykjavík 24. október 2010.

Tíðarfar í október 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.11.2010

Hlýtt var í október og hiti á landinu 1 til 2 stigum yfir meðallagi áranna 1961-1990. Hlýindin voru óvenjuleg framan af mánuðinum, en síðan kólnaði og var hiti síðari hlutann nærri meðallagi og suma daga undir því. Úrkoma var víðast hvar minni en í meðalári nema sums staðar á Norðaustur- og Austurlandi.

Hiti

Meðalhitinn í Reykjavík var 6,3 stig og er það 1,9 stigi ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 4,3 stig en það er 1,3 stigi ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 6,0 stig og 0,6 stig á Hveravöllum. Meðaltöl fleiri stöðva má sjá í töflu. Í Reykjavík var mánuðurinn sá hlýjasti frá 1985, en ámóta hlýtt var í október 2001. Á Akureyri var hlýrra í október 2007 heldur en nú.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 6,3 1,9 14 140
Stykkishólmur 5,8 1,9 15 165
Bolungarvík 5,0 1,8 11 113
Akureyri 4,3 1,3 27 128
Egilsstaðir 4,5 1,4 13 61
Dalatangi 5,6 1,1 19 72
Höfn í Hornaf. 6,0 1,5
Stórhöfði 7,1 2,1 9 134
Hveravellir 0,6 1,8 7 45


Hæsti hiti á landinu mældist á Sauðárkróksflugvelli þann 2., 17,4 stig. Á mönnuðu stöðvunum varð hiti hæstur á Reykjum í Hrútafirði þann 2. og í Stafholtsey í Borgarfirði þann 3., 15,4 stig. Milli kl. 10 og 19 þann 10. mældist 18 til 19,5 stiga hiti á stöðvum Veðurstofunnar í snjóflóðahlíðum og við varnarvirki. Geislunaraðstæður á þessum stöðvum eru með þeim hætti að hámarksmælingar þeirra eru varla sambærilegar við mælingar á öðrum stöðvum. Ljóst er þó að óvenjulega hlýtt var þennan dag. Á sama tíma mældist hámarkshiti á stöð vegagerðarinnar á Gemlufallsheiði 17,2 stig og 17,4 stig á Biskupshálsi eystra.

Lægsti hiti í mánuðinum mældist á nýrri veðurstöð í Gæsafjöllum norður af Mývatni, -18,5 stig þann 25. Í byggð varð hiti lægstur í Svartárkoti sama dag, -16,3 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist sama dag á Staðarhóli, -15,0 stig.

Meðalhiti í október var hæstur í Surtsey, 8,1 stig, en lægstur á Brúarjökli og í Sandbúðum, -0,7 stig.

Úrkoma

Þurrt var um landið vestanvert. Í Reykjavík mældist úrkoman 41,3 mm og er það tæpur helmingur meðalúrkomu. Úrkoma var síðast svona lítil í Reykjavík í október 2003. Á Akureyri mældist úrkoman 58,3 mm og er það í meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 146,5 mm og er það í tæpu meðallagi. Óvenjulítil úrkoma mældist á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 61,4 mm. Ámóta lítil úrkoma mældist þar í október 1981, en úrkoma hefur aðeins einu sinni mælst minni í október, það var 1966 þegar hún mældist 50,6 mm.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 104 og er það 21 stund umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 44 og er það 7 stundum undir meðallagi.

Vindhraði og loftþrýstingur

Mánuðurinn var hægviðrasamur og hefur meðalvindhraði í október ekki verið jafnlágur síðan 2003. Loftþrýstingur var lítillega yfir meðallagi.

Snjólag

Jörð varð aldrei alhvít í mánuðinum í Reykjavík, en þrjá daga á Akureyri. Þetta er hvoru tveggja undir meðallagi áranna 1961-1990, en þá voru að meðaltali 6 alhvítir dagar í október á Akureyri, en 1 í Reykjavík.

Fyrstu 10 mánuðir ársins

Í Reykjavík eru fyrstu 10 mánuðir ársins jafnhlýir og sama tímabil hefur orðið hlýjast áður en það var á árinu 2003. Munur á þessum árum tveimur og fyrstu 10 mánuðum ársins árið 1939 er ekki marktækur. Árið á enn möguleika á að verða það hlýjasta í Reykjavík frá upphafi mælinga.

Í Stykkishólmi er það sem liðið af árinu jafnhlýtt og á sama tíma 2003, ívið hærra en 1939. Röð hlýjustu 10-mánaða tímabilanna er í töflu:

2010 6,28°C
2003 6,26°C
1939 6,05°C
2004 5,85°C
1964 5,70°C
1946 5,64°C
1847 5,63°C
1941 5,61°C

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík fyrstu 10 mánuði ársins hefur ekki verið jafnhár síðan á sama tímabili 1941.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica