Fréttir
Gígjukvísl 31. okt.-1. nóv. 2010
Frá vatnshæðarmæli í Gígjukvísl 31. okt.-1. nóv. 2010

Hlaup úr Grímsvötnum

1.11.2010

Staðfest var í gær, 31. október, að hlaup var hafið í Gígjukvísl. Rennslið í kvíslinni hefur aukist stöðugt. Milli kl. 14:00 og 15:00 í gær mældist rennslið 143 m3/s og rann þá undir einu brúarhafi. Milli kl. 09:00 og 10:00 í morgun, 1. nóvember, rann undir 4-5 brúarhöfum og rennslið var 455 m3/s.

Vatnsmælir við Gígjukvísl sýnir að vatnsborð árinnar hefur hækkað rétt um metra frá því kl. 14:00 í gærdag. Vatnshæðin segir ekki allt því vatnið dreifir úr sér og skiptir um farvegi.

Rafleiðni hefur aukist töluvert. Það bendir til þess að jarðhitavatn sé í ánni. Vatnshitinn sveiflast ekki meir en venjulegt er. Hitinn á vatninu, þegar það kemur undan jöklinum, er við frostmark.

Aðfaranótt sunnudags varð jarðskjálfti, 3,0 að stærð undir Grímsfjalli í Vatnajökli. Engir stórir jarðskjálftar hafa mælst á svæðinu í nótt og morgun.

Hlaup úr Grímsvötnum eru algeng. Gos varð í Grímsvötnum árið 2004 og var ítarleg umfjöllun um framvinduna birt á vef Veðurstofunnar, einnig á ensku. Á vefsetri Veðurstofunnar er líka að finna almennari umfjöllun um eldgos.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica