Fréttir
Jarðskjálftar í ágúst 2010
Jarðskjálftar í ágúst 2010

Jarðskjálftar á Íslandi í ágúst 2010

8.9.2010

Rúmlega 1200 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofunnar í ágúst. Stærsti skjálfti mánaðarins átti upptök við Bárðarbungu í vestanverðum Vatnajökli, Ml 3,4 að stærð. Einnig mældust skjálftar stærri en þrír við Grímsey og á Reykjaneshrygg.

Nokkur virkni var á Reykjaneshrygg í mánuðinum. Smáhrina varð u.þ.b. 200 kílómetrum suðvestur af Reykjanestá að kvöldi laugardagsins 7. ágúst og var stærsti skjálftinn Ml 3,1 stig. Þrjátíu skjálftar urðu við Kleifarvatn, stærsti um tvö stig. Um tugur smáskjálfta mældist við Krýsuvík. Nokkrir smáskjálftar mældust auk þess annars staðar á Reykjanesskaganum.

Rúmlega 50 smáskjálftar urðu á Hengilssvæðinu. Mesta virknin var við Húsmúla, vestur af Hellisheiðarvikjun, en þar mældust um 40 skjálftar, flestir í smáskjálftahrinu þann 9. ágúst. Um 40 smáskjálftar mældust í Hjallahverfi og við Raufarhólshelli og álíka margir á Kross-sprungunni. Ríflega 60 skjálftar mældust víðsvegar á Suðurlandsundirlendinu, allir um og innan við tvö stig. Rúmlega tugur smáskjálfta varð á Hestvatnssprungunni, flestir síðari hluta mánaðarins.

Í vestara gosbeltinu mældust á annan tug jarðskjálfta, flestir undir Geitlandsjökli. Þeir voru um einn að stærð.

Undir Eyjafjallajökli mældust 15 skjálftar, allir grunnir og innan við eitt stig að stærð. Flestir áttu upptök sín sunnan við toppgíg eldstöðvarinnar. Á annað hundrað skjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli, flestir í vesturjöklinum og voru þeir stærstu rúmlega tvö stig. Á Torfajökulssvæðinu mældust nokkrir jarðskjálftar, flestir vestast á svæðinu, norðan Laufafells. Stærsti skjálftinn var 2,6 stig.

Viðvarandi skjálftavirkni var undir vestanverðum Vatnajökli í mánuðinum, alls yfir 200, langmest norðaustan í Bárðarbungu. Þar varð skjálfti Ml 3,4 að stærð 19. ágúst en þann dag mældust flestir skjálftar á svæðinu eða tæplega 40. Nokkrir skjálftar mældust við Grímsvötn, Kverkfjöll og á Lokahrygg. Þann 12. ágúst mældust 11 skjálftar á Lokahrygg, sá stærsti Ml 2,6 stig.

Nokkur skjálftavirkni var við Öskju og Herðubreið. Viðvarandi virkni var við Hlaupfell og varð smáskjálftahrina á svæðinu þann 29. ágúst. Um 40 skjálftar mældust, flestir innan við einn að stærð. Á Kröflu- og Þeistareykjasvæðum mældust smáskjálftar af og til allan mánuðinn.

Yfir 300 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu, mest við Grímsey. Tvær litlar skjálftahrinur urðu við Grímsey, í fyrstu viku mánaðarins og seinustu. Í fyrri hrinunni mældust skjálftar Ml 3,3 og 3,0 að stærð. Annars var skjálftavirkni norðan við land nokkuð dreifð í tíma og rúmi.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica