Fréttir
ský

Rannsóknarverkefnið Loftslag og orkukerfi (CES): lokaráðstefna

Loftslagsbreytingar hafa þegar haft veruleg áhrif á orkukerfi Norðurlanda

31.8.2010

Alþjóðleg lokaráðstefna norræna rannsóknarverkefnisins Loftslag og orkukerfi (Climate and Energy Systems, CES) var haldin í Osló 31. maí til 2. júní síðastliðinn. Vísindamenn frá veðurstofum og vatnamælingastofnunum og starfsmenn orkufyrirtækja á Norðurlöndum og í baltnesku löndunum kynntu rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á orkuframleiðslu og orkukerfi landanna. Verkefnið er það þriðja í röðinni frá 2001 og hafa þau öll verið undir stjórn Veðurstofu Íslands/Vatnamælinga.

Umtalsverðar breytingar urðu í hitafari á Norðurlöndum á síðustu 20-30 árum og er sambærilegra breytinga að vænta til viðbótar á tímabilinu til miðrar aldarinnar. Á ráðstefnunni kom fram að mörg orkufyrirtæki hafa þegar tekið tillit til fram kominna breytinga í veður- og vatnafari í rekstri sínum. Þau vænta frekari breytinga í náinni framtíð og hafa þær í huga við hönnun nýrra orkumannvirkja. Hér á landi stafa mestu breytingarnar í vatnafari af völdum loftslagsbreytinga af aukinni jöklaleysingu. Verulegra breytinga í rekstrarumhverfi orkufyrirtækja er einnig að vænta vegna margs konar óbeinna áhrifa veðurfarsbreytinga, svo sem alþjóðlegra samninga um minni losun gróðurhúsalofttegunda og breytta forsendna fyrir rekstri vatnsaflsvirkjana þegar vægi vindafls og annarra nýrra orkugjafa vex í orkukerfunum. Samtals voru flutt 31 erindi og kynnt 21 veggspjald með niðurstöðum rannsókna, þar af voru 8 erindi og veggspjöld með niðurstöðum íslenskra verkefna. Hefti með ágripum erinda sem flutt voru á ráðstefnunni (pdf 5,15 Mb, á ensku) er aðgengilegt fyrir þá sem vilja kynna sér umræddar niðurstöður nánar.

Markmið CES-verkefnisins var að greina líklegar breytingar í veðurfari fram undir miðja 21. öldina og draga fram mikilvægustu áhrif fyrir orkuframleiðslu og orkukerfi. Verkefnið var styrkt af Nordic Energy Research sem er rannsóknasjóður fjármagnaður af norrænu ráðherranefndinni, svo og af norrænum orkufyrirtækjum, og hefur Landsvirkjun verið íslenskur styrktaraðili og þátttakandi. Jafnframt hafa Orkustofnun, Vegagerðin og iðnaðarráðuneytið styrkt verkefnið.

Norræna ráðherranefndin ákvað undir lok síðasta árs að efla rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi og samfélag og veitti um 10 milljörðum íslenskra króna til rannsóknarverkefna á þessu sviði og eiga þau að fara fram á næstu fimm árum. Á grunni CES- verkefnisins var sótt um stuðning til þriggja verkefna með leiðandi þátttöku Íslendinga. Fyrstu ákvarðanir um styrkveitingar til rannsókna á vindorku annars vegar og til jöklarannsókna hins vegar voru tilkynntar fyrir skömmu, samtals að upphæð um tveir milljarðar króna til jöklarannsókna og um 600 milljónir króna til rannsókna á hagnýtingu vindorku.

Veðurstofa Íslands, Háskóli Íslands og Jarðvísindastofnun Háskólans, ásamt Landsvirkjun og Landsneti, taka þátt í tveimur þeirra verkefna sem fengu styrki. Umfang rannsóknanna hér á landi er um 40-50 milljónir króna árlega og þær munu gera viðkomandi stofnunum kleift að efla mjög rannsóknir sínar á þessum sviðum á næstu árum. Skapast munu sóknarfæri meðal annars með ráðningu doktorsstúdenta og nýdoktora, en einnig sérfræðinga til leiðandi hlutverks á sviði loftslagsrannsókna og nýtingar endurnýjanlegrar orku.

Ljósmynd til kynningar á fyrri ráðstefnu CES

CES-konferanse



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica