Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í júlí 2010
Jarðskjálftar á Íslandi í júlí 2010

Jarðskjálftar í júlí 2010

23.8.2010

Um 1500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL mælakerfi Veðurstofunnar í júlí. Stærsti atburður mánaðarins var skjálftahrina norðan við Grímsey, en hún hófst 22. júlí.

Skjálftavirkni á Reykjaneshrygg var lítil og dreifð. Helst má nefna sex skjálfta í smáhrinu norðvestur af Geirfugladrangi, um 35 kílómetra frá landi, hinn 3. júlí. Stærð skjálftanna var á bilinu 1,2 til 2,1. Á Reykjanesskaga var nokkur smáskjálftavirkni í kringum Krýsuvík. Síðustu daga mánaðarins mældust einnig um 20 skjálftar við Bláfjöll, sá stærsti var 2,9 stig.

Viðvarandi smáskjálftavirkni var við Raufarhólshelli og á suðurhluta Krosssprungunnar, þar sem mældust nokkrir tugir smáskjálfta. Á Suðurlandsundirlendinu mældust einnig nokkrir tugir smáskjálfta á víð og dreif. Í vestara gosbeltinu mældust nokkrir skjálftar undir Þórisjökli og Geitlandsjökli. Á annan tug smáskjálfta dreifðust suður af Langjökli. Einn skjálfti, 2,3 að stærð, mældist undir Hofsjökli.

Um 30 smáskjálftar mældust undir Eyjafjallajökli í júlí. Flestir voru innan við einn að stærð, grunnir og áttu upptök undir eða sunnan við toppgíg eldstöðvarinnar eins og í júní. Fjöldi skjálfta varð  í vestanverðum Mýrdalsjökli, allir innan við tvö stig. Nokkrir mældust innan Mýrdalsjökulsöskjunnar, stærstu rúmlega tvö stig. Nokkur smáskjálftavirkni var á Torfajökulssvæðinu. Einn skjálfti varð norður af Surtsey og einn norðvestan við Vestmannaeyjar, báðir innan við tveir að stærð.

Ísskjálftar mældust í Brúarjökli, Skeiðarárjökli og víðar í Vatnajökli. Flestir jarðskjálftar undir jöklinum, eins og undanfarna mánuði, voru við Bárðarbungu, eða hátt í 60. Stærsti skjálftinn var tæplega þrjú stig. Nokkur virkni var einnig undir Grímsvötnum og Lokahrygg.

Á Herðubreiðar- og Öskjusvæðinu var mesta virknin undir Herðubreiðartöglum. Þar voru staðsettir hátt í 100 skjálftar, sá stærsti 2,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust norðan við Hlaupfell.

Úti fyrir Norðurlandi voru staðsettir um 600 skjálftar, en þar kvað mest að hrinu, sem varð um 10-12 kílómetrum fyrir norðan Grímsey. Hrinan hófst síðdegis 22. júlí og mældust alls um 300 skjálftar. Stærsti skjálftinn varð að morgni 23. júlí, 4,0 stig. Virkni var á svæðinu út mánuðinn og fram í ágúst. Annars staðar á Tjörnesbrotabeltinu voru minni hrinur smáskjálfta, svo sem suðaustan við Grímsey, í Öxarfirði og við Flatey. Þá var nokkuð af smáskjálftum við Þeistareyki og Kröflu.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica