Fréttir
græn strá í svartri ösku
Grænn gróður gægist upp úr öskulagi.

Tíðarfar í júlí 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

3.8.2010

Hlýtt var í júlí, suðvestanlands var hann einn af hlýjustu mánuðum sem vitað er um en í öðrum landshlutum var heldur svalara að tiltölu. Hiti var þó alls staðar vel yfir meðallagi. Mjög þurrt var sums staðar um landið norðvestanvert en fremur úrkomusamt á Austurlandi. Langmest úrkoma féll þar í fyrri hluta mánaðarins, síðari hlutinn varð mun þurrari. Sunnanlands gerði talsverð þrumuveður í kringum þann 20.

Hiti

Meðalhitinn í Reykjavík varð 13,0 stig. Þetta er jafnhár mánaðarmeðalhiti og hefur þar mælst mestur áður. Það var í júlí 1991, en reyndar var meðalhiti í júlí 1936 og 1944 ekki marktækt lægri en nú. Flutningar stöðvarinnar innan bæjarins valda óvissu þegar svo litlu munar.

Á Akureyri mældist meðalhiti 11,1 stig og er 0,5 stigum yfir meðallagi. Fremur kalt var á Akureyri fram eftir mánuðinum og var hiti þar þá talsvert undir meðallagi, en mikið hlýnaði síðari hluta mánaðarins. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 11,5 stig eða 1,1 stigi yfir meðallagi. Júlímánuður hefur ekki verið jafnhlýr í Hornafirði síðan 1991. Meðalhiti á Hveravöllum var 9,1 stig.

Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu:

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 13,0 2,4 1 til 2 140
Stykkishólmur 11,9 2,0 5 165
Bolungarvík 10,6 1,6 23 til 25 113
Akureyri 11,1 0,6 51 til 52 128
Egilsstaðir 10,8 0,5 25 61
Dalatangi 8,6 0,7 29 72
Teigarhorn 9,6 0,9 20 137
Höfn í Hornaf. 11,5 1,1
Stórhöfði 11,8 2,1 2 133
Hveravellir 9,1 2,1 7 45

Hæsti meðalhiti mánaðarins á landinu var 13,2 stig á Þyrli í Hvalfirði, en lægstur var meðalhitinn á Brúarjökli, 3,3 stig. Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Bjarnarflagi í Mývatnssveit þann 25., 24,6 stig. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist á Hæli í Gnúpverjahreppi þann 18., 23,3 stig. Hiti fór í 20 stig eða meira á einhverri sjálfvirkri stöð á landinu í 17 daga í röð, 16. júlí til 1. ágúst, báðir dagar meðtaldir. Er það lengsta 20 stiga syrpa sem vitað er um á sjálfvirku stöðvunum.

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Gagnheiði þann 21., -1,0 stig. Lægstur hiti í byggð mældist á Þingvöllum -0,1 stig, bæði aðfaranótt þess 12. og aðfaranótt þ.13. Lægstur hiti á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum, 0,7 stig, það var aðfaranótt hins 19.

Úrkoma

Óvenju þurrt var um landið norðvestanvert og þurrt var einnig víðast hvar vestanlands og sunnan. Þurrkanna gætti í ám og vatnsbólum þannig að til vandræða varð á stöku stað. Á Norðaustur- og Austurlandi rigndi mikið framan af mánuðinum þannig að úrkoma var yfir meðallagi á þeim slóðum, jafnvel þótt síðari hluti mánaðarins hafi verið mun þurrari. Til dæmis var úrkoma á Akureyri aðeins 1,1 mm frá og með þeim 14. til mánaðamóta.

Úrkoman í Reykjavík mældist 42,1 mm og er það 18 prósentum undir meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 47 mm og er það 42 prósentum yfir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 174,6 mm.

Á svæðinu frá Breiðafirði norður um Vestfirði og inn Strandasýslu mældist úrkoman sumstaðar minni en mælst hefur í júlí áður. Flestar stöðvarnar þar sem met voru sett hafa þó athugað skemur en 15 ár. Helstu tíðindin eru þau að úrkoma á Lambavatni á Rauðasandi mældist aðeins 6,3 mm í júlí í ár og hefur aldrei verið svo lítil síðan úrkomumælingar byrjuðu þar 1938. Næst minnst var júlíúrkoman 1939, 10,6 mm. Mánuðurinn var einnig sá þurrasti sem mælst hefur á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi en mælingar hófust þar 1971.

Á nokkrum stöðvum austanlands var úrkoma í júlí meiri en áður hefur mælst í þeim mánuði, en stöðvarnar hafa allar athugað í minna en 15 ár. Úrkoman austanlands var langmest dagana 1. til 8. Endanlegt uppgjör úrkomumælinga í júlí liggur ekki fyrir þannig að metahjal er með fyrirvara fram til þess að uppgjöri lýkur.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir mældust 216,7 í Reykjavík og er það 46 stundum umfram meðallag, en nokkru færri en í júlí í fyrra. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 138, 20 færri en að meðallagi.

Loftþrýstingur og vindhraði

Loftþýstingur í júlí var lágur, 5 hPa undir meðallagi í Reykjavík. Þetta er lægsti meðalþrýstingur í júlí síðan 1994.

Vindhraði var í meðallagi. Fyrri hluta mánaðarins voru óvenju djúpar lægðir á ferð skammt suður undan landinu og ollu hvassviðrum sem reyndust tengivögnum á ferð erfið í skauti, sérstaklega þann 1. og aftur 6. til 8.

Júní og júlí

Í Reykjavík er meðalhiti mánaðanna júní og júlí saman sá hæsti sem vitað er um frá upphafi samfelldra mælinga 1871, eða 12,2 stig. Sú óvissa, sem flutningar stöðvarinnar milli staða í bænum er, er minni en svo að hún raski þessari niðurstöðu. Sama á við í Stykkishólmi en þar eru mælingar samfelldar frá því haustið 1845. Meðalhitinn í júní og júlí í Stykkishólmi nú er 11,4 stig. Júní og júlí samanlagðir eru einnig þeir hlýjustu sem mælst hafa í Vestmannaeyjum, 10,7 stig. Þar hefur verið mælt samfellt frá 1877. Sama á við um Hveravelli en þar hefur verið mælt samfellt frá 1965.

Fyrstu 7 mánuðir ársins

Fyrstu sjö mánuðir ársins hafa aðeins þrisvar orðið marktækt hlýrri í Reykjavík heldur en nú. Það var 1929 (vetrarhlýindi), 1964 (vetrarhlýindi) og 2003 (allir mánuðir hlýir nema maí). Sama á við um í Stykkishólmi nema hvað þar skýst 1847 einnig upp fyrir fyrstu sjö mánuði ársins nú. Mælingar benda til þess að fyrstu sjö mánuðir ársins 1847 hafi einnig verið með allra hlýjasta móti í Reykjavík en óvenjuleg vetrarhlýindi ríktu á landinu það ár, hin mestu á allri 19. öld.

Fyrstu sjö mánuðir ársins hafa verið óvenju þurrir um vestan- og norðvestanvert landið. Þessi tími hefur ekki verið jafnþurr í Reykjavík síðan 1979. Í Stykkishólmi eru til samfelldar úrkomumælingar frá hausti 1857 og hafa fyrstu sjö mánuðir ársins aðeins sjö sinnum verið þurrari.

Bólstraský
ský gægist yfir hraunbrún
Bólstraský í Mývatnssveit 12. júlí 2010. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica