Fréttir
Gufumökkur yfir Eyjafjallajökli
Gufumökkur yfir gosstöðvunum í Eyjafjallajökli kl. 8 í morgun, 9. júlí 2010.

Gufumökkur frá Eyjafjallajökli

9.7.2010

Allt að þriggja km (8000-9000 feta) gufumökkur sást upp af eldstöðvunum í Eyjafjallajökli í morgun og varð vart þegar í gærkvöldi. Almannavarnir tilkynntu Veðurstofunni um gufubólstra um kl. 04.

Enginn gosórói hefur sést á mælakerfi Veðurstofunnar og lítil skjálftavirkni er í jöklinum. Skjálftarnir sem hafa mælst undanfarið eru grunnir og litlir.

Mökkurinn er hvítur og enga ösku að sjá í honum. Veður á staðnum er kyrrt og bjart og því sést vel til makkarins. Undanfarið hefur hins vegar verið nokkuð skýjað og öskufjúk þannig að ekki hefur sést vel til gosstöðvanna.

Tilkynning barst einnig í morgun um tvo stróka en ekkert slíkt hefur verið staðfest. Líklega er um að ræða gufu sem leggur upp af heitu hrauni.

Jarðvísindamenn hafa verið við störf á jöklinum og flogið var yfir í morgun. Aska hefur hrunið úr gígbarminum vestanverðum og ofan í gíginn og myndar þar aurkeilu.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica