Fréttir
línurit - línur halla niður til hægri

Óvenjulítill hafís

Óvenjulítill hafís á norðurhveli sumarið 2010

2.7.2010

Þróun hafísbreiðunnar á norðurhveli næstu vikurnar verður áhugaverð. Hlutfall þykks, margra ára gamals íss hefur farið minnkandi en það gerir hafísbreiðuna viðkvæmari fyrir hitasveiflum. Nú stefnir í að útbreiðsla hafíss síðsumars 2010 nálgist lágmarkið frá sumrinu 2007. Útbreiðsla hafíssins segir heldur ekki alla söguna um ísmagnið á norðurheimskautssvæðinu því að ísinn er þynnri en áður og því er heildarrúmmál íssins minna að vetri til, jafnvel þegar flatarmál hafísbreiðunnar er nærri meðalári.

Forsendur

Hafís á norðurhveli er mestur síðla vetrar og þekur þá 14 - 15 milljón ferkílómetra en á sumrin dregst hafísbreiðan verulega saman og fer niður í 5 - 6 milljón ferkílómetra.

Undanfarna áratugi hefur útbreiðsla hafíss minnkað um 2,7% á áratug en að sumarlagi er samdrátturinn meiri, eða 7,4% á áratug. Mestur samdráttur varð árið 2007 en þá varð flatarmál hafísbreiðunnar minnst rúmlega 4 milljón ferkílómetrar. Á þeim árum sem síðan eru liðin hefur hlutfall þykks, margra ára gamals íss farið minnkandi: stærra hlutfall hafíssins myndast að vetri og hverfur að sumri.

Þessi þróun gerir hafísbreiðuna viðkvæmari fyrir hitasveiflum og eykur líkur á jafn víðfeðmri bráðnun og átti sér stað sumarið 2007. Þróun útbreiðslu hafíss síðustu mánaða er áhugaverð í þessu sambandi, sjá mynd (línurit).

Myndin kemur frá bandarískri rannsóknastofnun (NSIDC) og er ensk útgáfa hennar uppfærð daglega. Bláa línan á mynd 1 sýnir útbreiðslu hafíss á norðurheimskautssvæðinu síðustu fjóra mánuði. Gráa línan sýnir meðaltal áranna 1979 - 2000 og skyggða svæðið sýnir þau mörk sem langflest ár héldu sig innan. Græna brotalínan sýnir þróunina árið 2007. (Athugið, að þessi mynd skoðar aðeins fimm mánuði hvers árs: vor og fyrri hluta sumars.)

Túlkun og spá

Myndin sýnir að í ár náði hafís hámarksútbreiðslu snemma í apríl og var þá nærri meðaltali áranna 1979 - 2000. Þetta hámark var reyndar nokkuð seinna á ferðinni en í meðalári, en útbreiðslan var nærri meðaltalinu út aprílmánuð. Síðan í maí hefur hinsvegar mikillar bráðnunar gætt og er nú svo komið að útbreiðsla hafíss síðsumars stefnir í að verða álíka mikil og var sumarið 2007. Dragi ekki úr hraða bráðnunar stefnir í að þetta ár verði álíka og árið 2007.

Útbreiðsla hafíssins segir ekki alla söguna um ísmagnið. Þó að útbreiðsla hafíss nú í vetur (og reyndar síðustu tvo vetur líka) hafi farið nærri því að ná því sem gerist í meðalári er eftir sem áður minni hafís á norðurheimskautssvæðinu. Þetta stafar af því að ísinn er nú þynnri en áður og því er heildarrúmmál íssins minna að vetri til, jafnvel þótt flatarmál hafísbreiðunnar sé nærri meðalári. Reynt hefur verið að leggja mat á heildarmagn hafíss en mælingar eru af skornum skammti.

Vísindamenn við Heimskautavísindasetur Háskólans í Washington hafa þróað kerfi þar sem allar fáanlegar upplýsingar eru settar inn í hafíslíkanið PIOMAS og þróunin reiknuð. Niðurstaða þeirra reikninga bendir til þess að Norður-Íshafið hafi ekki jafnað sig eftir sumarið 2007 og að ísinn þar sé nú minni en nokkru sinni fyrr.

Af ofanskráðu má ljóst vera að þróun hafísbreiðunnar næstu vikurnar verður áhugaverð. Fyrir þá sem vilja fylgjast með henni má benda á ofangreind vefsetur, auk þess sem bandaríska geimferðastofnunin NASA birtir samsetta mynd af heimskautasvæðinu á hverjum degi (MODIS).


línurit - línur halla niður til hægri
Þróun hafísbreiðunnar á norðurhveli vor og sumar 2010 (blá lína). Til samanburðar má sjá árið 2007 og meðaltal áranna 1979 - 2000. Heimild: NSIDC.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica