Fréttir
smábátar í höfn
Úr Stykkishólmi 4. júní 2010.

Tíðarfar í júní 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.7.2010

Mánuðurinn var óvenjuhlýr um mikinn hluta landsins og hlýjasti júnímánuður frá upphafi mælinga sums staðar vestanlands, m.a. í Stykkishólmi þar sem mælt hefur verið frá 1845 og í Reykjavík þar sem mælt hefur verið frá 1871. Mjög þurrt var víðast hvar á landinu. Þurrkmet voru þó ekki slegin nema á stöðvum þar sem aðeins hefur verið athugað í stuttan tíma. Endanleg gögn hafa ekki borist allstaðar að. Þurrkar háðu víða gróðri.

Meðalhiti

Meðalhiti í Reykjavík var 11,4 stig (2,4°C yfir meðallagi) og hefur aldrei mælst hærri í júní. Samfelldar mælingar hófust 1871. Munur á júní nú og sama mánuði 1941 er þó ómarktækur og var meðalhiti í júní 1941 um 0,1 stigi hærri en nú, sé ekki leiðrétt fyrir flutningi veðurstöðvarinnar. Flutningurinn veldur óvissu. Júnímánuðir hafa verið óvenjuhlýir frá aldamótum, allir nema einn (2001) yfir meðallaginu 1961-1990 og allir nema 2 yfir meðallaginu 1931-1960, hvort sem tekið er tillit til flutninga eða ekki.

Methiti (10,8°C) varð einnig í Stykkishólmi, en þar hefur ekki verið leiðrétt fyrir flutningum stöðvarinnar innan bæjarins síðustu árin. Samanburðarmælingar benda til þess að þessir flutningar valdi óvissu upp á 0 til 0,2°C í júní. Hitinn nú er þó það langt ofan eldra mets að öruggt má telja að hiti hafi ekki mælst hærri í Stykkishólmi í júní frá upphafi mælinga þar haustið 1845.

Á Hveravöllum var einnig methiti í júní, en þar hefur aðeins verið mælt frá 1965. Athygli vekur að maí var einnig methlýr á Hveravöllum, líklega er það snjóleysi á hálendinu að þakka.

Meðalhiti á Akureyri var 11,2°C og er það 2,1 stigi yfir meðallagi. Þetta er sjöundi hlýjasti júnímánuður á Akureyri, mælingar hófust haustið 1881. Meðalhiti á Höfn í Hornafirði mældist 10,1 stig. Meðalhiti á fleiri stöðvum er í töflu. Að tiltölu varð kaldast á annesjum austanlands en hiti var þar þó vel yfir meðallagi.

Hæsti meðalhiti á sjálfvirku stöðvunum mældist í Hjarðarlandi í Biskupstungum, 11,7°C, en lægstur á Brúarjökli, 2,9°C.

Hiti, vik frá meðaltali 1961-1990 og röð í hlýindalista

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 11,4 2,4 1 140
Stykkishólmur 10,8 2,7 1 165
Bolungarvík 10,1 3,1 4 113
Akureyri 11,2 2,1 7 128
Egilsstaðir 10,0 1,3 10 61
Dalatangi 7,2 1,0 15 72
Teigarhorn 8,2 1,0 19 137
Höfn í Hornaf. 10,1 1,7
Stórhöfði 9,6 1,6 3 til 4 133
Hveravellir 8,5 3,7 1 45

Úrkoma

Mjög þurrt var víðast hvar á landinu. Þurrkmet voru þó ekki slegin nema á stöðvum þar sem aðeins hefur verið athugað í stuttan tíma. Endanleg gögn hafa ekki borist allstaðar að. Þurrkar háðu víða gróðri.

Úrkoman í Reykjavík mældist 29,5 mm (sama og í maí) og eru það um 60 prósent af meðalúrkomu. Er þetta fjórði þurri júnímánuðurinn í röð í Reykjavík. Í Stykkishólmi mældist úrkoman 10 mm og er það um fjórðungur meðalúrkomu. Þetta er minnsta úrkoma í júní í Stykkishólmi síðan 1998. Aðeins 2 mm mældust á Akureyri og eru það 7 prósent meðalúrkomu. Enn minni úrkoma mældist á Akureyri í júní 2007.

Sólskinsstundir og vindhraði

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 158, það má heita í meðallagi. Mjög sólríkt var á Akureyri. Þar mældust sólskinsstundirnar 256, 79 stundum umfram meðallag. Þetta er sólríkasti júnímánður á Akureyri síðan árið 2000, þá mældust sólskinsstundir á Akureyri 285.

Vindhraði var um 0,5 m/s undir meðallagi.

Seljavallalaug
grár og svartur dalur - grænn gróður sumsstaðar - hvítt hús í fjarlægð
Seljavallalaug. Myndin er tekin 25. júní 2010 og sýnir ösku sem féll á láglendi í tæplega 10 km fjarlægð frá Eyjafjallajökli. Grænn gróður stingur upp kollinum. Ljósmynd: Þorsteinn V. Jónsson.

Hæsti og lægsti hiti

Hæsti hiti mánaðarins mældist á sjálfvirku stöðinni á Torfum í Eyjafjarðarsveit þann 18., 23,3 stig. Sama dag fór hitinn á mönnuðu stöðinni á sama stað í 22,5 stig. Lægsti hiti mánaðarins mældist á Staðarhóli í Aðaldal þann 3., -3,0 stig.

Loftþrýstingur

Loftþrýstingur í Reykjavík mældist 1015,6 hPa og er það 5,5 hPa yfir meðallagi. Þetta er sjöundi mánuðurinn í röð þar sem þrýstingurinn er yfir meðallagi.

Fyrstu 6 mánuðir ársins

Fyrstu sex mánuðir ársins hafa aðeins þrisvar orðið marktækt hlýrri í Reykjavík heldur en nú. Það var 1929 (vetrarhlýindi), 1964 (vetrarhlýindi) og 2003 (allir mánuðir hlýir nema maí). Álíka hlýtt varð 1972 (mikil vetrarhlýindi) og 1974 (óvenjuleg vorhlýindi).

Loftþrýstingur hefur verið óvenjuhár það sem af er árinu, eða 6,8 hPa yfir meðallagi. Þrýstingur fyrstu sex mánuði ársins hefur aðeins tvisvar orðið lítillega hærri. Það var 1941 og 1888. Veðurlag þau árin, bæði, var óvenjulegt víða í nágrannalöndunum, líkt og nú.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica