Fréttir
Álftanes
Séð yfir Álftanes 25. maí.

Tíðarfar í maí 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.6.2010

Mánuðurinn var hlýr, hægviðrasamur og fremur þurr. Kuldar voru þó til ama á norðaustur- og austurhluta landsins um tíma og einnig í útsveitum norðanlands og á Ströndum.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 8,2 stig og er það 1,9 stigi ofan meðallags. Ívið hlýrra var í maí 2008, en þessir tveir maímánuðir eru þeir hlýjustu frá 1960 í Reykjavík. Á Akureyri var meðalhitinn 6,5 stig, 1,0 stigi ofan meðallags. Hlýrra var í maí á Akureyri, bæði í fyrra og 2008. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 7,3 stig, 1,0 stigi ofan meðallags eins og á Akureyri. Á Hveravöllum var meðalhitinn 3,9 stig og er það 3,3 stigum ofan meðallags. Aldrei hefur verið svo hlýtt í maí á Hveravöllum, en mælingar í maí ná aftur til 1966. Meðaltöl fleiri stöðva má sjá í töflu.

Meðalhiti og hitavik í maí 2010:

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 8,2 1,9 12 140
Stykkishólmur 6,8 1,8 16 165
Bolungarvík 5,8 1,9 16 113
Akureyri 6,5 1 45 128
Egilsstaðir 5,7 0,8 29 61
Dalatangi 4,2 0,8 30 72
Teigarhorn 5,4 1 35 137
Höfn í Hornaf. 7,3 1
Stórhöfði 7,5 1,7 7 til 9 133
Hveravellir 3,9 3,3 1 45

Úrkoma og sólskinsstundir

Úrkoma í Reykjavík mældist 29,5 mm og er það um þriðjungi undir meðallagi. Oft hefur þó orðið þurrara í maí. Úrkoma á Akureyri mældist 25,5 mm og er það um 30 prósent umfram meðallag. Úrkoma á Höfn í Hornafirði mældist 52,3 mm, tveir þriðju hlutar meðalúrkomu.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 219 og er það 27 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 177 og er það nánast í meðallagi.

Hæsti og lægsti hiti

Hæsti hiti í mánuðinum mældist í Skaftafelli þann 5., 21,7 stig. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu 5. maí, eldra met var frá Teigarhorni 1938. Á mannaðri stöð mældist hiti hæstur á Hæli í Hreppum á hvítasunnudag, 20,5 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist þann 1. á Brúarjökli, -15,2 stig. Lægstur hiti í byggð mældist á mönnuðu stöðinni í Miðfjarðarnesi hinn 1., -8,9 stig, þar varð hiti einnig lægstur á sjálfvirkri stöð í byggð, -8,3, sama dag.

Lægsti meðalhiti mánaðarins á sjálfvirkri stöð mældist á Gagnheiði (í 949 m hæð yfir sjó), -0,75 stig, en hæstur á Stjórnarsandi við Kirkjubæjarklaustur, 8,97 stig.

Vindur og loftþrýstingur

Veður voru hæg og var meðalvindhraði mánaðarins sá lægsti í maí það sem af er öldinni. Loftþrýstingur var hár, 5,8 hPa yfir meðallagi í Reykjavík. Svo hár þrýstingur er ekki óvenjulegur í maí.

Fyrstu fimm mánuðir ársins

Fyrstu fimm mánuðir ársins 2010 hafa verið hlýir. Hiti í Reykjavík hefur verið 1,4 stigum ofan meðallags, en 0,8 stigum ofan meðallags á Akureyri. Í Stykkishólmi eru þessir mánuðir samtals í níunda hlýjasta sætinu frá 1846 að telja.

Þurrt hefur verið um landið suðvestanvert, mánuðirnir fimm hafa ekki verið jafnþurrir frá 1995 í Reykjavík. Á Akureyri hefur verið úrkomusamt að slepptum fádæma þurrum janúar þar um slóðir.

Loftþrýstingur hefur haldið áfram að vera óvenjuhár. Þó einstakir mánuðir hafi verið fjarri metum hefur þrýstingur fyrstu fimm mánaði ársins ekki verið jafnhár og nú síðan 1941. Þrýstingur fyrstu 5 mánuði ársins 1969 var þó ómarktækt lægri en nú.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica