Fréttir
öskumökkur og ský
Gosmökkur og ský yfir Eyjafjallajökli 19. maí 2010.

Eldfjallagas

21.5.2010

Bláleitar gufur koma út með Fljótshlíðinni og þær leggur í vesturátt. Þeim fylgir fýla og þær dimmustu valda jafnvel höfuðverk. Innsti bær í hlíðinni er Fljótsdalur.

Bændur í Hlíðarendakoti, sem er utar, sáu þetta greinilega og fundu og tilkynntu um það til Veðurstofu á hádegi. Að sögn sjá bændur á Neðri-Þverá, sem er enn utar, þetta sama koma inn í fjós með viftunum. Veðurstofan þiggur fleiri tilkynningar um þetta fyrirbæri.

Reynt var að ná þessu á mynd en slíkt er ekki auðvelt. Þessi blámi sést aðeins sem litabreyting sem færist til; þar sem þetta liggur yfir virðist grænt gras blátt. Þetta er greinilega staðbundið, fer með jörðu og sést skríða undan vindi. Þess vegna er þetta ólíkt nokkurri hitamóðu eða himinbláma.

Fólk finnur að þetta er ekki heilnæmt og lyktin tekur af allan vafa. Úr Hlíðarendakoti sást þetta fara með jörðu við Eyjafjöll og Stórumörk. Svo virtist sem hross í afgirtu hólfi færðu sig undan fnyknum, sitt á hvað.

Þess má geta að árið 2002 lentu vatnamælingamenn í örðugleikum við mælingar á Skaftárhlaupi, alveg uppi við jökul, vegna eldfjallagass. Í næsta hlaupi, sama ár, var farið með brennisteinsmæli og sýndi hann gildi langt yfir hættumörkum. Þá voru menn staddir á mælistað við Vesturkvísl við enda Fögrufjalla en er gengið var upp hlíðarnar lækkaði gildið. Gasið er þungt og fer með jörðu, eins og bændurnir í Hlíðarendakoti lýstu fyrr í dag.

Mjög líklega er um brennisteinssambönd að ræða. Bláminn stafar af því að þau binda vatnsdropa sem dreifa sólarljósinu.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica