Fréttir
svört aska á jökli, gufubólstrar og öskumökkur
Gosstrókinn leggur til vestnorðvesturs á hádegi 27. apríl 2010.

Vel fylgst með gosinu

28.4.2010

Vel sást til gossins í flugi um hádegisbilið í gær.

Eins og vitað er hefur eldvirknin brætt katla í jökulísinn. Gosvirkni í nyrðri katlinum er svipuð og síðustu daga. Hraungígur er í suðvesturhorni ketilsins og hleðst upp jafnt og þétt. Barmar hraungígsins eru á að giska 50 m lægri en barmar ísketilsins.

Klepravirkni er stöðug og slettur ná í 100-200 m hæð. Öskumekkir rísa upp með ákveðnu millibili en eru ekki stöðugir. Höggbylgjur sáust neðst í mekkinum. Hraun heldur áfram að renna til norðurs og hefur nú náð um 1 km frá gígnum. Dældir í jöklinum, þar sem hraun rennur undir, hafa stækkað mikið síðan á laugardag þegar síðast sást til gosstöðvanna.

Gígjökull er grár vegna gjóskufalls og norðvestur-kinn jökulsins er svört af gjósku. Öskufjúk, með upptök á láglendi sunnan jökulsins, sást undir Eyjafjöllum og í A-Landeyjum. Gosórói er svipaður og undanfarna daga.

Ofangreint byggist á sameiginlegu minnisblaði Veðurstofunnar og Jarðvísindastofnunar.

Fylgjast má með framvindu gossins og lesa eldri upplýsingar í greinum sem eru auðkenndar með rauðu letri efst á forsíðu vefsins.

Eldri fréttir af eldgosunum tveimur, nú í apríl og í mars, er að finna undir Fréttir 2010.

Eyjafjallajökull
jökull úr fjarlægð - gosstrókur og aska
Þessi mynd er tekin skammt suðvestur af Eyjafjallajökli um hádegisbilið 27. apríl 2010 í flugi með flugfélaginu Ernir. Gosmökkinn leggur í vestnorðvestur. Yst til vinstri sést hryggurinn Skerin“ sem talinn er hafa myndast í gosi um 920. Fyrir miðri mynd er Dagmálafjall, snævi þakið. Sjá má hæstu tinda Eyjafjallajökuls: undir gosmekkinum er Goðasteinn en hægra megin við mökkinn Hámundur og Guðnasteinn. Öskufjúk liggur yfir landinu fyrir sunnan fjallið eins og grá móða. Á jöklinum eru skörp skil á milli nýsnævar og nýlegs öskufalls. Skoða má stærri mynd. Ljósmynd: Sigrún Hreinsdóttir.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica