Fréttir
af Fimmvörðuhálsi
Horft í suðvestur af Fimmvörðuhálsi í rökkurbyrjun 25. mars.

Tíðarfar í mars 2010

Stutt tíðarfarsyfirlit

6.4.2010

Í mars var hlýtt í veðri og hiti ofan meðallags um land allt. Hlýjast að tiltölu varð á hálendinu vestanverðu en kaldast að tiltölu varð austanlands. Síðustu 5 dagana var kalt í veðri og mjög kalt var inn til landsins í upphafi mánaðarins. Um landið vestanvert var mánuðurinn yfirleitt sá hlýjasti frá 2005, en austanlands varð hlýrra í mars 2007.

Meðalhitinn í Reykjavík var 3,1 stig og er það 2,7 stigum yfir meðallagi. Meðalhiti á Akureyri var 1,1 stig og er það 2,3 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 2,7 stig, 1,5 stigi ofan meðallags, og -2,6 stig á Hveravöllum, það er 3,3 stigum ofan meðallags. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 3,1 2,7 18 140
Stykkishólmur 2,0 2,8 20 165
Bolungarvík 0,8 2,5 19 113
Akureyri 1,1 2,3 25 129
Egilsstaðir 0,0 1,4 20 61
Dalatangi 1,7 1,6 22 72
Höfn í Hornaf. 2,7 1,5
Stórhöfði 4,0 2,3 17 133
Hveravellir -2,6 3,3 4 45


Hæsti hiti í mánuðinum mældist 12,3 stig. Það var í Neskaupstað þann 10. Hæstur hiti á mannaðri stöð mældist 11,2 stig á Dalatanga þann 7. Lægsti hiti á landinu mældist -23,4 stig. Það var við Mývatn 2 mars. Sama dag mældist lægsti hiti mánaðarins á mannaðri veðurstöð, -21,5 stig, á Torfum í Eyjafirði.

Úrkoma og sólskinsstundir

Fremur þurrt var um landið suðvestanvert. Úrkoma í Reykjavík mældist 55,2 mm og er það um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu. Úrkoma á Akureyri mældist 48,4 mm og er það um 10 prósent umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 107 mm.

Sólskinsstundir mældust 118 í Reykjavík, 7 fleiri en í meðalári. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 55 og er það 22 stundum undir meðallagi.

Snjór

Mjög snjólétt var sunnanlands og jörð var alhvít í Reykjavík aðeins 5 daga. Það er 6 dögum minna en að meðaltali 1961 til 1990, en 2 dögum minna en meðaltal síðustu 10 ára. Alhvítu dagarnir á Akureyri voru aðeins 9 og er það 10 dögum minna en í meðalmars 1961 til 1990, en 3 dögum minna en að meðaltali síðustu 10 árin.

Vindhraði og loftþrýstingur

Vindhraði var í meðallagi í mánuðinum en lítið var um illviðri. Mjög hvasst varð þó af austri um landið sunnanvert og einnig norðvestanlands dagana 22. og 23. Þök losnuðu af húsum á Patreksfirði og í Mýrdal fuku járnplötur af íbúðarhúsum og þök af útihúsum. Þá lentu vegfarendur á Fjarðarheiði í hrakningum. Loftþrýstingur var með hærra móti fjórða mánuðinn í röð.

Veturinn 2009 til 2010

Veturinn desember 2009 til mars 2010 var hlýr um land allt. Að tiltölu var hlýjast suðvestanlands, en hiti í Reykjavík var 1,6 stigum ofan meðallags. Veturinn er sá 12. til 14. hlýjasti frá upphafi mælinga. Í Stykkishólmi var hitinn 1,4 stigum ofan meðallags og er þar sá 8. til 11. hlýjasti í 165 ára sögu stöðvarinnar. Á Akureyri og Teigarhorni var vetrarhitinn 0,9 stigum ofan meðallags og 1,1 stigi ofan meðallags á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Að tiltölu var kaldast í febrúar.

Fyrstu þrír mánuðir ársins 2010 hafa verið hlýir, 1,8 stigum ofan meðallags í Reykjavík.

Veturinn var fremur þurr um sunnanvert landið, úrkoman í Reykjavík mældist 215 mm og hefur ekki verið svo þurrt að vetri síðan 1977, en þá var mun þurrara en nú, úrkoman aðeins 111 mm. Norðanlands var úrkomunni furðu misskipt á mánuði. Desemberúrkoma á Akureyri var nærri meti að magni til, en fádæma þurrt var í janúar og svo aftur óvenju úrkomusamt í febrúar. Mars var nærri meðaltalinu. Í heild var úrkoma á Akureyri 234 mm og er það um 20 prósent umfram meðallag.

Snjóalög voru óvenjuleg, á Akureyri voru slegin snjódýptarmet í desember. Sá snjór bráðnaði allur í janúar og var þá alautt um tíma sem er óvenjulegt. Mikið snjóaði svo aftur í febrúar en óvenjusnjólétt var lengst af í mars. Alhvítir dagar á vetrinum urðu 57 á Akureyri, 16 dögum færri en í meðalári og alhvítir dagar frá hausti til loka mars voru 66 og er það 42 dögum færra en að meðaltali.

Óvenjusnjólétt var í Reykjavík, mesti snjór vetrarins féll í lok febrúar. Á tímbilinu desember til mars voru alhvítir dagar aðeins 13, 31 færri en í meðalári og frá hausti aðeins 15. Meðalfjöldi alhvítra daga frá hausti til marsloka er 51 í Reykjavík. Alhvítir dagar hafa ekki verið jafnfáir á þessum tímabilum í Reykjavík frá því veturinn 1976 til 1977 og annars aldrei frá upphafi mælinga 1921. Snjór var þó ívið meiri nú, þá daga sem alhvítt var, heldur en var veturinn 2002 til 2003.

Meðalloftþrýstingur vetrarins var óvenjuhár, í Reykjavík 8,4 hPa yfir meðallagi og hefur aðeins fjórum sinnum orðið hærri frá upphafi samfelldra mælinga 1823, síðast veturinn 1968 til 1969. Kuldar í Evrópu eru oftast fylgifiskur háþrýstings við Ísland.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica