Fréttir
vatnsdropi

Alþjóðlegir dagar vatns og veðurs 2010

Ráðstefnan Betra vatn til framtíðar

18.3.2010

Árlega eru dagarnir 22. mars og 23. mars helgaðir veðri og vatni á fjölþjóðlegum vettvangi.

Alþjóðaveðurdagurinn, 23. mars, á rætur að rekja til sáttmála um alþjóðaveðurfræðistofnun sem var gerður í Washington 1947 og er 23. mars 1950 talinn stofndagur hennar. Sá dagur er árlegur alþjóðaveðurdagur“. Ísland ritaði undir sáttmálann fyrst allra ríkja, tveimur árum fyrir gildistöku hans. Veðurathuganir hafa verið stundaðar á Íslandi frá því fyrir miðja 19. öld og Ísland hefur verið hluti af alþjóðlegu kerfi samræmdra athugana og miðlunar allt frá því að ritsími kom til landsins 1906. Í ár minnir Alþjóðaveðurfræðistofnunin á að hún hefur samræmt þjónustu veðurfræðistofnana um allan heim í 60 ár með öryggi og velferð íbúanna að markmiði.

Dagur vatnsins 22. mars á rætur að rekja til umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Rio de Janeiro árið 1992 og þjónar því markmiði að vekja athygli og umræðu á mikilvægi ferskvatns og sjálfbærri nýtingu þessarar auðlindar. Dagurinn er á þessu ári helgaður vatnsgæðum og verndun vatnsauðlindarinnar.

Í tilefni dagsins stendur Íslenska vatnafræðinefndinráðstefnu í samstarfi við háskóla, stofnanir og fyrirtæki, undir yfirskriftinni Betra vatn til framtíðar“ mánudaginn 22. mars kl. 13-16 í Víðgelmi, Orkugarði við Grensásveg 9 í Reykjavík. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra ávarpar gesti í upphafi ráðstefnunnar en fundarstjóri er Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands.

Ráðstefnan "Betra vatn til framtíðar" er öllum opin en óskað er eftir að þátttökutilkynningar berist Veðurstofu Íslands í tölvupósti til vatn(hjá)vedur.is eða í síma 522-6000. Ágrip erinda verður birt á vefsíðu Íslensku vatnafræðinefndarinnar.

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, fjallar um vatnsgæði á Íslandi, Sigríður Auður Arnardóttir, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, kynnir frumvarp til laga um stjórn vatnamála og Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, greinir frá innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins. Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, ræðir um vatnsvernd, ógnanir og tækifæri, Guðmundur F. Baldursson, skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðis, um áætlanagerð og náttúruvá og Guðjón Gunnarsson, fagsviðsstjóri Matvælastofnunar, fjallar um neysluvatn sem matvæli. Hlynur Óskarsson, sérfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands, heldur erindi um þátt vistkerfa í að viðhalda vatnsgæðum. Að lokum mun Gunnar Hersveinn, rithöfundur og heimspekingur flytja vatnsþanka.

Eldra efni

2009, 2008.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica