Fréttir
Jarðskjálftar í Eyjafjallajökli
Kort sem sýnir skjálfta í Eyjafjallajökli frá 2009.
1 2

Þróun jarðskjálftavirkni undir Eyjafjallajökli

5.2.2010

Jarðskjálftahrinan undir Eyjafjallajökli virðist heldur í rénun þessa dagana.

Um jólaleytið 2009 hófst atburðarás, sem túlkuð hefur verið sem kvikuhreyfingar undir Eyjafjallajökli. GPS mælistöð á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum sýndi hreyfingu til suðurs og í kjölfarið jókst skjálftavirkni undir jöklinum. Þetta er svipuð atburðarás og varð á 2-3 mánaða tímabili síðastliðið sumar, frá júní fram til loka ágúst. Þá mældist um 1,5 cm færsla til suðurs á Þorvaldseyri og á annað hundrað skjálftar undir jöklinum, þeir stærstu um 2,3 að stærð. Atburðurinn núna er heldur stærri í sniðum. Suðurfærslan hefur verið hraðari og skjálftarnir fleiri og ívið stærri. Stærsti skjálftinn í núverandi hrinu, 2,8 að stærð, varð þann 12. janúar, en það er stærsti skjálftinn sem mælst hefur undir jöklinum síðan árið 1999.

Skjálftar undir jöklinum fram í byrjun febrúar hafa verið staðsettir með mun meiri nákvæmni en fæst úr fyrstu úrvinnslu. Þær niðurstöður sýna að virknin greinist í tvær aðskildar þyrpingar á mismunandi dýpi (sjá mynd 1). Á þessu tímabili hefur einnig verið breytilegur færsluhraði á GPS-stöðinni á Þorvaldseyri. Við samanburð á jarðskjálftavirkni og GPS-færsluhraða virðist vera samband þar á milli (sjá mynd 2). Skjálftavirkni virðist aukast samtímis á báðum dýptarbilunum u.þ.b. tveimur dögum eftir að færsluhraði eykst. Í augnablikinu virðist heldur hafa dregið bæði úr færslunni og skjálftavirkninni. Hvort þetta þýðir að hrinan er gengin yfir eða aðeins að lát sé á virkninni munu næstu vikur skera úr um.

Þess má geta að atburðir, sem túlkaðir hafa verið sem kvikuinnskot, urðu bæði árið 1994 og 1999-2000. Nánari umfjöllun um yfirstandandi hrinu má finna í mánaðaryfirlitnu fyrir janúar 2010 og sumarhrinunni er lýst í mánaðaryfirlitum júní-ágúst 2009. Auk þess má finna niðurstöður rannsókna á eldri hrinum í nýútgefinni skýrslu VÍ 2009-013 (pdf 3,1 Mb).



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica