Fréttir
Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2009
Jarðskjálftar á Íslandi í desember 2009.

Jarðskjálftar í desember 2009

13.1.2010

Í desember 2009 staðsetti SIL jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar yfir 1070 jarðskjálfta, þannig að heildarfjöldi skjálfta varð yfir 18.000 á árinu. Stærsti jarðskjálfti mánaðarins var 3,5 að stærð þann 24. desember kl. 13:27, með upptök við Herðubreið.

Dagleg skjálftavirkni var allt frá níu skjálftum upp í 77 skjálfta og var mesta virknin þann 29. desember og þá fyrst og fremst vegna smáskjálfta á suðurhluta Kross-sprungunnar. Skjálftastærðir voru á bilinu -1,9 til 3,5 stig, þar af voru 209 minni en núll, en fjórir skjálftar náðu stærðinni 3 og yfir. Flestir skjálftar mældust á dýptarbilinu 4-8 kílómetrar.

Skjálftavirkni var lítil á Reykjanesskaga í mánuðinum. Smáskjálftar dreifðust þó eftir skaganum endilöngum frá Brennisteinsfjöllum út á Reykjanes. Stærsti skjálftinn, 2,0 að stærð, ásamt nokkrum minni voru austan við Reykjanes, einnig voru nokkrir skjálftar um 2 kílómetra suðaustur af Reykjanestá. Skjálftar á Reykjaneshryggnum dreifðust frá landi út í 100 kílómetra fjarlægð. Stærsti skjálftinn var skammt frá Geirfugladrangi, 2,8 að stærð.

Virkin á Suðurlandi var mjög svipuð og verið hefur vikurnar á undan, en þar voru staðsettir um 350 skjálftar. Helst ber að nefna virknina á suðurhluta Kross-sprungunnar. Þar hefur skjálftavirkni ekki verið mikil fram að þessu, en frá 23. desember mældust þar um 100 smáskjálftar.

Um 55 jarðskjálftar voru staðsettir undir Mýrdalsjökli og var sá stærsti 2,4. Mesta virknin átti sér stað á litlu dýpi (<1 kílómetri) undir Goðabungu í vesturhluta jökulhettunnar. Í mánuðinum voru átta jarðskjálftar staðsettir undir Eyjafjallajökli og var skjálftavirknin aðallega á ~6 kílómetra dýpi undir suðurhluta jökulsins. Fjórir jarðskjálftar, á stærðarbilinu 0,7 til 1,4, voru staðsettir undir Þórisjökli á ~8 kílómetra meðaldýpi. Á Torfajökulssvæðinu voru fimm smáskjálftar. Einn jarðskjálfti, 0,5 að stærð, var staðsettur við Vatnafjöll á ~10 kílómetra dýpi.

Um 400 skjálftar mældust undir Vatnajökli og hálendinu norðan Vatnajökuls. Virkust voru svæðin við Herðubreið, Kistufell og við norðanverða Bárðarbungu, en auk þess mældust skjálftar við Öskju og norðan Vaðöldu, við Hlaupfell, í Kverkfjöllum, Grímsvötnum og á Lokahrygg. Einn skjálfti mældist við Tungnafellsjökul, nokkrir ísskjálftar í Skeiðarárjökli og skjálfti í Öræfajökli. Skjálftarnir sem lenda austan Öræfajökuls eru lágtíðniskjálftar, illstaðsetjanlegir og gætu átt upptök við Öræfajökul.

Tveir skjálftar mældust á ~15-16 kílómetra dýpi við Sandadal, nokkuð sunnan við Álftadalsdyngju og sunnar en virknin 2007-2008, sem kennd var við Upptyppinga. Greinilegur skjálfti mældist um 3 kílómetra suður af Þríhyrningsvatni. Skjálftinn fær stærðina ML 0,5 (MLw 1,0) og lendir á ~9 kílómetra dýpi. Tveir skjálftar mældust með staðsetningu rétt við jarðskjálftastöðina Mókolla og einn í sunnanverðu Hálslóni. Þessir skjálftar eru allir lágtíðnilegir og nokkur óvissa í staðsetningum og þeir lenda allir mjög nálægt yfirborði. Tveir skjálftar mældust við sunnanvert Heilagsdalsfjall, suðaustan við Mývatn.

Úti fyrir Norðurlandi, í svonefndu Tjörnesbrotabelti, var tiltölulega lítil jarðskjálftavirkni en alls mældust þar rúmlega 100 jarðskjálftar. Upptök flestra þeirra voru úti fyrir mynni Eyjafjarðar, í Öxarfirði og norður af Grímsey. Stærsti jarðskjálftinn mældist 3,1 stig og átti upptök um miðja vegu milli Kolbeinseyjar og Grímseyjar. Tveir skjálftar að stærð 2,8 mældust í Eyjafjarðaráli. Við Þeistareyki og Kröflu mældust um 25 jarðskjálftar, nær allir minni en 1 að stærð.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica