Fréttir
jökul ber við himin
Eyjafjallajökull 2. júní 2009, horft úr suðsuðaustri.

Kvikuinnskot undir Eyjafjallajökli

- virkni glæðist á ný

12.1.2010

Laust upp úr klukkan sex í morgun varð skjálfti af stærðinni ML 3 undir Eyjafjallajökli en síðastliðnar tvær vikur virðist skjálftavirkni þar vera að færast í aukana á ný, miðað við undanfarna fjóra mánuði.

Sú aukna smáskjálftavirkni, sem mældist undir Eyjafjallajökli síðastliðið sumar (2009), er líklega merki um kvikuhreyfingar og innskotsmyndun á nokkurra kílómetra dýpi í eldstöðinni. Þessi aukna virkni hófst í fyrri hluta júní og var viðvarandi fram í lok ágústmánaðar þegar aftur dró úr henni. Alls mældust þá um 200 skjálftar, flestir á 9-11 km dýpi í þyrpingu rétt norðaustur af gígnum á toppi fjallsins (sjá meðfylgjandi kort og graf), en einnig var dreifð virkni undir suðurhlíðum fjallsins.

Samfara skjálftavirkninni síðastliðið sumar færðist GPS-mælistöð Veðurstofunnar á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum um 1 cm til suðurs, sem bendir einnig til útþenslu fjallsins vegna aðflutnings kviku ofarlega í jarðskorpuna. Stöðin virðist nú aftur vera farin að færast til suðurs, líkt og í sumar.

Nýverið var gefin út skýrsla á Veðurstofu Íslands (pdf 3,1 Mb) þar sem jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli seinustu tvo áratugina er kortlögð mjög nákvæmlega og túlkuð í samræmi við niðurstöður mældra jarðskorpuhreyfinga.

Í samanburði við virkni og dreifingu jarðskjálfta í fyrri innskotahrinum í Eyjafjallajökli á árunum 1994 og 1999 virðist nú um svipaðan atburð að ræða, því í þessum fyrri hrinum urðu jarðskjálftarnir einnig flestir í þyrpingu norðaustan toppgígsins en færðust síðan suður undir suðurhlíðar fjallsins þegar sylluinnskot mynduðust þar á um 6 km dýpi. Virknin 2009 bendir þó til þess að þetta síðasta innskot hafi verið mun minna en haustið 1999.

Í heild sýnir jarðskjálftadreifin aðfærslurás kviku frá botni jarðskorpunnar á 22 km dýpi og upp í gegnum skorpuna, nokkurn veginn undir norðausturjaðri toppgígsins, og endurspeglar einnig streymi kvikunnar til suðurs í þrjú aðskilin sylluinnskot undir suðurhlíðum Eyjafjallajökuls árin 1994, 1999 og, nú síðast, 2009.

Rannsóknirnar voru unnar í Evrópusamstarfsverkefninu VOLUME sem Veðurstofan tók þátt í og lauk síðastliðið vor.


Jarðskjálftar í Eyjafjallajökli
kort sýnir yfirborð og graf sýnir dýpt

Endurstaðsettir jarðskjálftar í Eyjafjallajökli frá 1991 til september 2009. Skjálftar sem urðu milli 1991 og 2008 eru sýndir sem litlir, opnir, gráir hringir en nýjasta virknin er sýnd í lit (sjá litaskala fyrir síðasta ár). Að auki er dreginn svartur stærri hringur utan um þá skjálfta frá í sumar sem urðu suðurundir hlíðum eldfjallsins og taldir eru hafa orðið þegar kvikan leitaði ofar í jarðskorpuna við myndun nýs innskots. Neðri lárétti kvarðinn sýnir gráður vestlægrar lengdar, rétt eins og á kortinu fyrir ofan.


Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica