Fréttir
Jarðskjálftavirkni í október 2009
Jarðskjálftavirkni í október 2009.

Jarðskjálftayfirlit í október 2009

11.11.2009

Um 1240 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar í október 2009. Um 40 skjálftar mældust úti fyrir landi á Reykjaneshrygg í október, 15 skjálftanna urðu að kvöldi 31. október, rétt norður af Geirfuglaskeri.

Á Reykjanesskaga mældust nokkrir grunnir smáskjálftar um þrjá kílómetra vestur af Þorbirni (eða 3-5 kílómetra NV af Grindavík) og einnig fáeinir um þrjá kílómetra NNA af Grindavík. Lítil og mjög dreifð virkni var í og við Fagradalsfjall en frá Núpshlíðarhálsi að Kleifarvatni voru staðsettir tæplega 50 skjálftar á dýptarbilinu 1-10 kílómetrar.

Mesta virknin á Hengilssvæði mældist sunnan undir Húsmúla þar sem um 60 skjálftar voru staðsettir á 2-6 kílómetra dýpi nærri stöðvarhúsi Hellisheiðarvirkjunar 20. - 31. október (aðallega 28. - 31.október). Á Suðurlandi mældust flestir skjálftanna í Ölfusi og við syðri hluta Kross-sprungunnar. Nokkrir skjálftar voru einnig staðsettir við skjálftaupptökin frá 29. maí 2008 á Ingólfsfjallssprungunni.

Austar í brotabeltinu varð einnig vart við virkni í Hraungerðishreppi nærri sprungunni sem brotnaði 1734, á Hestvatnssprungu frá 21. júní 2000 og á Holtasprungu frá 17. júní 2000 og einhver dreifð virkni lítilla skjálfta þar á milli. Þá mældist einn lítill (M1,7) skjálfti á tæplega 9 kílómetra dýpi austast í brotabeltinu og þrír undir Vatnafjöllum, einnig á um 9 kílómetra dýpi.

Í vestara gosbeltinu mældust þann 7. október sjö skjálftar á stærðarbilinu 1,1 til 2,4 við Prestahnúk og þann 15. október mældust sex jarðskjálftar undir Þórisjökli.

Undir Mýrdalsjökli mældist 71 jarðskjálfti. Þar af voru 47 skjálftar undir vesturhluta jökulsins og 24 skjálftar undir Kötluöskjunni. Stærstu jarðskjálftarnir voru um 2 stig og áttu upptök undir vesturhlutanum. Undir Eyjafjallajökli mældust átta jarðskjálftar og þeir stærstu um 1,4 stig.

Undir Vatnajökli var mesta skjálftavirknin norðaustur af Bárðarbungu og við Kistufell og mældust þar um 50 jarðskjálftar. Stærstu skjálftarnir voru um 2,6 stig þann 16. október. Fáeinir jarðskjálftar mældust við Hamarinn, Grímsvötn og Kverkfjöll. Dagana 12. til 17. október var talsverð ísskjálftavirkni undir Skeiðarárjökli, líklega vegna langvarandi úrhellisrigningar.

Fram undir miðjan mánuðinn og við lok mánaðarins var jarðskjálftahrina með grunnum skjálftum við Herðubreið. Viðvarandi jarðskjálftavirkni var norðan við Upptyppinga. Nær daglega mældust jarðskjálftar við Öskju.

Við Kröflu mældust 12 jarðskjálftar og 14 við Þeistareyki. Stærstu jarðskjálftarnir á þeim svæðum voru 1,5 og 1,2 að stærð.

Í Tjörnesbrotabeltinu mældust um 260 jarðskjálftar. Jarðskjálftahrina var um 10 - 15 kílómetra norðaustan við Grímsey þann 11. - 12. október. Stærstu jarðskjálftarnir í brotabeltinu mældust þá og voru þeir 3,1 og 3,3 að stærð. Undir lok mánaðarins voru einnig skjálftahrinur á sömu slóðum. Viðvarandi skjálftavirkni var úti fyrir mynni Eyjafjarðar í mánuðinum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica