Fréttir
haustlauf
Haustlauf í Reykjavík 14. október 2009.

Október 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit

2.11.2009

Hiti var í ríflegu meðallagi um mikinn hluta landsins nema norðaustanlands þar sem hann var lítillega undir því. Talsvert kuldakast var ríkjandi í upphafi mánaðarins, þá festi snjó um mikinn hluta landsins. Veður hlýnaði síðan og voru síðustu dagarnir sérlega hlýir ásamt nokkrum dögum um miðbik mánaðarins. Suðaustan- og austanillviðri gerði um landið sunnan- og vestanvert föstudaginn 9. Þá urðu nokkrir skaðar.

Meðalhiti í Reykjavík var 5,1 stig og er það 0,7 stigum yfir meðallagi. Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig eða 0,2 stigum undir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 5,1 stig og er það 0,6 stigum yfir meðallagi. Meðalhitinn á Hveravöllum var -1,2 stig og er það í meðallagi. Meðalhiti á fleiri stöðvum er í töflu.

Meðalhiti á nokkrum veðurstöðvum, vik frá meðallagi og staða

stöð t vik röð af
Reykjavík 5,1 0,7 39 139
Stykkishólmur 4,2 0,3 68 164
Bolungarvík 3,7 0,3 46 113
Akureyri 2,8 -0,2 49 128
Egilsstaðir 3,5 0,4 25 60
Dalatangi 5,1 0,6 31 72
Höfn í Hornaf. 5,1 0,6
Stórhöfði 5,8 0,8 30 133
Hveravellir -1,2 0,0 27 45


Snæfellsjökull
Snæfellsjökull
Snæfellsjökull í hverfulli haustbirtu hinn 25. október 2009. Myndin er tekin í Lækjarbotnum austan Reykjavíkur. Ljósm.: Eiríkur Þ. Einarsson.

Úrkoma og sólskinsstundir

Úrkoma var nærri meðallagi um mikinn hluta landsins en á sunnanverðum Austfjörðum og sums staðar á Suðausturlandi var úrkoma talsvert yfir meðallagi. Hvergi var þó um metúrkomu að ræða nema á Gilsá í Breiðdal, en þar hafa úrkomumælingar verið gerðar frá 1997. Úrkoman í Reykjavík mældist 78 mm (sama og í september) og er það um 10 prósent undir meðallagi. Á Akureyri mældist úrkoman 52 mm og er það einnig 10 prósentum minna en í meðalári. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 304 mm og er það tæplega tvöföld meðalúrkoma.

Sólskinsstundir í Reykjavík voru 28 færri en í meðalári, eða 55. Þetta er fæsti sólskinsstundafjöldi í október í Reykjavík síðan 1997. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 40 og er það 12 stundum undir meðallagi.

Vindhraði var í ríflegu meðallagi.

Hæsti og lægsti hiti mánaðarins

Hæsti hiti í mánuðinum mældist 18,9 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði og á Seyðisfirði þann 14. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Skjaldþingsstöðum þann 14., 18,4 stig.

Lægsti hiti mánaðarins mældist við Setur sunnan Hofsjökuls, -16,9 stig þann 5. Í byggð mældist lægsti hiti mánaðarins í Svartárkoti þann 7., -13,1 stig. Lægstur hiti á mannaðri veðurstöð mældist á Torfum í Eyjafirði þann 4., -11,8 stig.

Óvenjuhlýtt varð í Reykjavík þann 29. Hiti komst þá í 11,9 stig á mönnuðu stöðinni og er það mesti hiti sem mælst hefur þar þennan dag. Eldra hámark, 11,2 stig, var frá 1997. Hiti komst í 11,7 og 11,6 stig á sjálfvirku stöðvunum í mælireit Veðurstofunnar en í 11,9 á sjálfvirku stöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Dægurhámarksmet af þessu tagi eru sett að meðaltali 2 til 4 sinnum á ári hverju í Reykjavík.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica