Fréttir
tré, garðstígur, fólk
Gönguferð er haustið nálgast, leiðin liggur um Fossvogskirkjugarð.

Ágúst 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit

1.9.2009

Ágúst var fremur hlýr um allt land, sólríkur á Suður- og Vesturlandi, en norðanlands og austan var sólarminna og sums staðar á þeim slóðum rigndi mikið. Veður var hægviðrasamt lengst af.

Meðalhiti í Reykjavík mældist 11,3 stig og er það 1,1 stigi ofan meðallags og mánuðurinn því í flokki þeirra hlýju ágústmánaða sem hafa verið ríkjandi það sem af er öldinni. Á Akureyri var meðalhitinn 10,5 stig eða 0,5 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 10,7 stig, 0,6 stigum ofan meðallags. Meðalhita á fleiri stöðvum má sjá í töflunni.

Tafla. Meðalhiti í ágúst 2009, vik frá meðallaginu 1961-1990.

stöð meðalhiti vik röð af
Reykjavík 11,3 1,1 19 139
Stykkishólmur 10,7 1,1 28 164
Bolungarvík 9,2 0,5 50 112
Akureyri 10,5 0,5 43 128
Egilsstaðir 10,6 1,0 20 60
Dalatangi 9,5 1,2 16 71
Höfn í Hornaf. 10,7 0,6
Stórhöfði 10,9 1,3 11 113
Hveravellir 7,0 0,8 17 44

Úrkoma

Úrkoma í Reykjavík mældist 52 mm og er það um 16 prósent neðan meðallags. Úrkoma á Akureyri var hins vegar um fjórðungi umfram meðallag, mældist 42 mm. Þetta er talsvert meira en í ágúst í fyrra, en svipað og annars, nokkur árin næst þar á undan.

Úrkoma í mánuðinum var meiri á fáeinum stöðvum en áður hefur mælst í ágúst. Engin þessara stöðva hefur þó mælt lengi samfellt, hér má þó nefna Birkihlíð í Súgandafirði, Hnífsdal og Ísafjörð norðan til á Vestfjörðum og Desjarmýri á Borgarfirði eystra og Gilsá í Breiðdal. Á öllum þessum stöðvum hefur verið mælt í 10 ár eða meira.

Sólskinsstundir

Sólskinsstundir í Reykjavík voru óvenju margar, mældust 214, það er 59 stundum umfram meðallag, það mesta í ágúst frá 2004. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar aðeins 86 og er það 49 stundum færra en í meðalári og hið minnsta í þessum mánuði frá 2005, en þá voru sólskinsstundirnar ívið færri en nú. Síðan þarf að fara 40 ár aftur í tímann til að finna færri sólskinsstundir á Akureyri í ágúst.

Vindhraði á landinu var mjög nærri meðaltali.

Hæsti og lægsti hiti

Lægsti hiti mánaðarins mældist á Brúarjökli þann 22., -4,0 stig, þetta er lægsti hiti sem vitað er um á landinu 22. ágúst. Lægsti hiti í byggð mældist á Þingvöllum þann 22., -3,0 stig. Lægsti hiti á mannaðri stöð mældist á Torfum sama dag, -2,5 stig.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 21,4 stig, þann 6. á Torfum í Eyjafirði, en þann 7. á Húsavík. Á mannaðri stöð varð hitinn einnig hæstur á Torfum þann 6., 20,8 stig.

Nauthólsvík
sandur, sjór og haf; bleikur sandur ylstrandar
Ylströndin í Nauthólsvík verður mannlaus þegar birtu bregður um kvöldmatarleytið, síðsumars. Ljósmynd Kristín Hermannsdóttir, 27. ágúst 2009.

Sumarið (júní til ágúst)

Sumarið (júní til ágúst) var það sjöunda hlýjasta í Reykjavík frá upphafi mælinga 1870, en flest sumur á þessari öld hafa verið meðal þeirra hlýjustu. Meðalhiti sumarsins var 11,4 stig. Þetta er reyndar nærri meðallagi síðustu 10 sumra (11,1 stig). Þetta er þriðja þurra sumarið í röð, en mjög þurrt var framan af bæði 2007 og 2008, en fór að rigna hressilega þegar leið á ágúst. Sumarið í ár er hins vegar ívið þurrara og það þurrasta í Reykjavík frá 1958. Sömuleiðis var mjög sólríkt, sólskinsstundirnar urðu 149 umfram meðallag, en einnig var mjög sólríkt 2007 og 2008. Þetta umframsólskin samsvarar u.þ.b. hálfum mánuði af sólardögum (sólskin meira en 10 klst á dag) umfram það sem venjulegt er.

Sumarið var ekki eins áberandi hagstætt um landið norðanvert. Hiti hefur þó verið ofan meðallags á þeim slóðum. Framan af var nokkuð þurrt á Norður- og Austurlandi, en síðustu vikurnar hefur rignt hressilega og reyndar mjög mikið í útsveitum á Norðurlandi og víða á Austurlandi.

Taka verður fram að sumarið er í gögnum Veðurstofunnar talið ná til fjögurra mánaða, júní til september og sumrinu 2009 því tæknilega ekki lokið þegar þetta er ritað, 1. september.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica