Fréttir
lógó, tré með ljósmyndum
„Gund Institute for Ecological Economics“ í Vermont

Fyrirlestur í umhverfishagfræði

þekktur fyrirlesari frá Gund stofnuninni

24.8.2009

Dr. Robert Costanza flytur opinn fyrirlestur í Háskóla Íslands miðvikudaginn 26. ágúst kl. 16:00-18:00 í stofu 132 í Öskju. Titill fyrirlestrarins er „Using the global recession as an opportunity to create a sustainable and desirable future“, eða hvernig nota má heimskreppuna sem tækifæri til að skapa sjálfbæra og eftirsóknarverða framtíð.

Hann er einn af þekktustu fræðimönnum samtímans innan umhverfisgeirans, einkum fyrir mat sitt á þeim fjárhagslegu verðmætum sem felast í þjónustu vistkerfa („ecosystem services“).

Grein hans um virði náttúrunnar The value of the world's ecosystem services and natural capital“ sem birtist í Nature 1997, hefur vakið gríðarlega athygli og er ein þeirra greina sem hvað mest hefur verið vitnað til í umhverfisfræði og vistfræði síðustu 10 árin. Í greininni var lagt mat á alheimsvirði þjónustu náttúrunnar og bentu niðurstöður til að verðmæti þessarar þjónustu væri nær tvöfalt hærra en samanlögð þjóðarframleiðsla allra þjóða, eins og hún er venjulega mæld. Þrátt fyrir að greinin væri ákaflega umdeild, olli hún straumhvörfum innan umhverfisfræði og umhverfishagfræði.

Dr. Costanza, sem er prófessor í visthagfræði og forstjóri Gund Institute for Ecological Economics við Vermontháskóla, er aðalkennarinn við alþjóðlega sumarskólann Breaking down the barriers, sem er haldinn við Háskóla Íslands 24.-25. ágúst 2009.

Þar að auki er hann þátttakandi í íslensku rannsóknarverkefni þar sem lagt er mat á mikilvægi þjónustu náttúrunnar á Íslandi, og er þetta fyrsta íslenska rannsóknin á þessu sviði.

Dr. Costanza hefur birt meira en 400 vísindagreinar og samið 20 bækur. Vitnað hefur verið í verk hans í meira en 4500 vísindagreinum og er hann einn þeirra vísindamanna sem oftast hefur verið vitnað til í vísindaheiminum samkvæmt ISI, Intercollegiate Studies Institute.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica