Fréttir
Jaraðskjálftar í júli 2009
Upptök jarðskjálfta á Íslandi í júlí 2009.
1 2
fyrri

Jarðskjálftar á Íslandi í júlí 2009

14.8.2009

Alls voru 1.211 jarðskjálftar staðsettir í SIL kerfi Veðurstofunnar í júlí 2009, og hafa þá yfir 12.600 skjálftar verið staðsettir á árinu. Mesti daglegi fjöldinn í mánuðinum var 9. júlí, en þá mældust 72 skjálftar. Jarðskjálftar mánaðarins voru á stærðarbilinu Ml -1,5 til 3,0. Stærsti skjálftinn varð 16. júlí með upptök undir austurjaðri Kötluöskjunnar.

Rúmlega tuttugu jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg. Skjálftarnir voru frekar dreifðir og voru stærstu um 2,5 stig. Nokkrir smáskjálftar mældust norðaustur af Reykjanestá og við Fagradalsfjall. Mesta skjálftavirknin á Reykjanesskaga var á Kleifarvatnssvæðinu. Smáskjálftar mældust hér og þar allan mánuðinn, um hundrað talsins. Að kvöldi 31. júlí hófst skjálftahrina við Trölladyngju, nokkrum kílómetrum norður af Krýsuvík og austur af Keili, sem stóð í um tvo sólarhringa. Um 360 jarðskjálftar voru staðsettir, langflestir undir einn að stærð. Stærsti skjálftinn var um þrjú stig og fannst á höfuðborgarsvæðinu.

Norður af Geitlandsjökli voru 12 skjálftar staðsettir, sem allir utan einn urðu 22. -25. júlí. Stærstu skjálftarnir í þeirri þyrpingu, Ml 2,0 og 2,3 að stærð, urðu 22. júlí. Tíu skjálftar mældust 27.-30. júlí sex til sjö km VSV af Hveravöllum en einn skjálfti varð fyrr í mánuðinum, 12. júlí, um sjö kílómetra suðaustan þyrpingarinnar. Einnig mældust stöku skjálftar víða á hálendinu, t.d. við Hagafell, Skjaldbreið, og á Sprengisandi (5,2 kílómetra VSV af Nýjadal). Þá mældust þrír skjálftar í suðvestanverðum Hofsjökli í mánuðinum; þeir urðu 4. og 28. júlí.

Flestir skjálftarnir í Suðurlandsbrotabeltinu urðu á Kross-sprungunni sem brotnaði 29. maí 2008 og VSV-ANA Hjallasprungunni sem var virk í nóvember 1998 og einnig í kjölfar skjálftans í fyrra. Þá mældust einnig nokkrir skjálftar á Ingólfsfjallssprungu frá 29. maí 2008 en einnig víða á eldri sprungum í brotabeltinu. All nokkrir skjálftar urðu t.a.m. eftir endilangri Hestvatnssprungunni (brotnaði 21. júní 2000), nokkrir á Holtasprungunni (17. júní 2000) og víðar, allt austur að Selsundssprungu (1912) austast í brotabeltinu.

Við Heklu mældist einn skjálfti um Ml einn að stærð á 2,2 kílómetra dýpi 18. júlí. Sex skjálftar voru staðsettir nærri Nesjavöllum 26. - 27. júlí, en annars var dreifð virkni víða um Hengilssvæði og Hellisheiði. Nokkrir skjálftar urðu t.a.m. sunnan í Húsmúla, suðvestan Ölkelduhálss, í Fremstadal og við þjóðveg nærri skíðaskála í Hveradölum.

Undir Eyjafjallajökli var viðvarandi jarðskjálftavirkni og mældust þar rúmlega 100 jarðskjálftar í mánuðinum. Mest var virknin á tímabilunum 8.-10. júlí og 18.-19. júlí. Upptök flestra skjálftanna voru sunnan við Steinholtsjökulinn á um átta til tíu kílómetra dýpi. Stærsti jarðskjálftinn mældist 2,4 stig þann 17. júlí en meginhluti jarðskjálftanna var minni en einn að stærð. Líklega er kvikuinnskot í gangi eins og gerðist 1994 og 1999.

Undir Mýrdalsjökli mældust um 50 jarðskjálftar. Rúmlega helmingur þeirra átti upptök undir Goðabungu og hinir undir Kötluöskjunni. Stærsti jarðskjálftinn mældist 3,0 stig þann 16. júlí með upptök undir austurjaðri Kötluöskjunnar. Tæplega 10 smáskjálftar mældust á Torfajökulssvæðinu.

Yfir 60 jarðskjálftar voru staðsettir undir Vatnajökli, flestir við Bárðarbungu. Frá 21. til 24. júlí mældust átta ísskjálftar austan í Skeiðarárjökli, nálægt Færnestindum. Þessi virkni fylgdi 30 sentimetra risi Skeiðarár, og var sennilega um minniháttar Skeiðarárhlaup að ræða.

Alls mældust á annað hundrað jarðskjálftar norður af Upptyppingum í júlí. Meðaldýpi skjálftanna var 2,7 kílómetrar. Stærsti jarðskjálftinn, Ml 2,7, varð 24. júlí kl. 15:13. Hann var staðsettur við syðri enda misgengis sem liggur frá norðaustri til suðvesturs og er um 4,6 kílómetrar að lengd.

Á og úti fyrir Norðurlandi mældust um 280 skjálftar. Virknin var nokkuð dreifð og varla hægt að tala um einstakar hrinur. Stærsti skjálftinn var 2,9 að stærð, þann 4. júlí klukkan 19:03, um 32 kílómetra NNA af Siglufirði. Um 30 smáskjálftar mældust við Kröflu og Þeistareyki.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica
Á þessum vef eru vafrakökur notaðar við nafnlausar notkunarmælingar, en engin virkni tengist markaðssetningu. Sjá nánar