Fréttir
þurrt leirflag, sprunginn jarðvegur, gróið allt í kring
Þurr tjörn í Skjaldmeyjareyjum á Breiðafirði 26. júlí 2009.

Júlí 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit

4.8.2009

Tíðarfar var hlýtt og þurrt um mikinn hluta landsins. Sérlega hlýtt og þurrt var suðvestanlands en hiti var undir meðallagi inn til landsins á Austurlandi. Á vestanverðu landinu lét gróður sums staðar á sjá vegna þurrkanna. Fyrsta vika mánaðarins var hlý um nær allt land en síðan kólnaði eystra og víða á hálendinu. Mikið kuldakast gerði í nokkra daga seint í mánuðinum. Þá snjóaði í fjöll norðanlands og næturfrost varð allvíða á Suðurlandi, en það er mjög óvenjulegt í júlí. Frostin eyðilögðu grös í kartöflugörðum og varð tjón mikið.

Meðalhiti í Reykjavík var 12,8 stig og er það 2,2 stigum yfir meðallagi. Mánuðurinn er í 3. til 4. sæti hlýrra júlímánaða frá því að samfelldar mælingar hófust í Reykjavík. Ívið hlýrra varð 1991 og 2007, jafnhlýtt í júlí 1936 en munur á hita í júlí nú og í sama mánuði 1939 og 1944 er ekki marktækur. Meðalhiti á Akureyri var 11,1 stig og er það 0,6 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 11,0 stig og er það 0,5 stigum ofan meðallags. Á Hveravöllum mældist meðalhitinn 8,6 stig og er það 1,6 stigi ofan meðallags.

Hitafar

stöð hiti vik röð af
Reykjavík 12,8 2,2 3 til 4 139
Stykkishólmur 11,4 1,5 12 164
Bolungarvík 10,2 1,2 33 til 34 112
Akureyri 11,1 0,5 51 128
Egilsstaðir 10,0 -0,3 36 60
Dalatangi 8,9 1,0 20 til 21 71
Höfn í Hornaf. 11,0 0,5
Stórhöfði 11,2 1,6 7 113
Hveravellir 8,6 1,6 11 til 12 44

Óvenjuþurrt varð víða um vestan- og suðvestanvert landið. Úrkoma var nokkuð ójöfn á þeim slóðum en í Reykjavík varð mánuðurinn sá þurrasti síðan 1888 og 1889 (árin 1908 til 1919 vantar þó í mæliröðina). Úrkoma í Reykjavík mældist 11,5 mm og er það aðeins rúmur fimmtungur meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman 30 mm og er það um 8 prósentum undir meðallagi. Á Höfn mældist úrkoman 44 mm og eru það rúm 60 prósent meðalúrkomu. Mjög þurrt var langt fram eftir mánuðinum á norðanverðum Vestfjörðum en þar rigndi síðustu viku mánaðarins. Mikil úrkoma varð víða í útsveitum fyrir norðan seint í mánuðinum og um svipað leyti rigndi einnig mikið sums staðar á Austurlandi. Miklar skúrir féllu sums staðar sunnanlands upp úr miðjum mánuði, en komu mjög ójafnt niður.

Mánuðurinn var mjög sólríkur um vestanvert landið. Sólskinsstundirnar mældust 259,4 í Reykjavík, 88 stundir umfram meðallag. Þetta er það mesta í júlí frá 1974 og er mánuðurinn í 5. til 6. sæti sólríkra júlímánaða í Reykjavík ásamt júlí 1960. Sólskinsstundir í júlí voru flestar 1939, 308, mun fleiri en nú. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 212,2 og er það 54 stundum umfram meðallag. Mánuðurinn er einnig í 5. til 6. sæti sólríkra júlímánaða á Akureyri, þar urðu sólskinsstundirnar flestar í júlí 1929, 239 talsins.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist þann 1., 26,3 stig á sjálfvirku stöðinni á Torfum í Eyjafirði, þar mældist einnig hæsti hiti á mannaðri veðurstöð sama dag, 25,6 stig. Hiti náði hvergi á landinu 20 stigum síðustu 9 daga mánaðarins.

Lægsti hiti mánaðarins mældist -2,7 stig á Brú á Jökuldal þann 24. Lægsti hiti á mannaðri stöð í mánuðinum mældist á Torfum aðfaranótt hins 26., -1,0 stig.

Tvö lágmarksdægurmet féllu í kuldakastinu. Þann 23. fór hiti á Gagnheiði niður í -2,0 stig, gamla metið var frá Brú á Jökuldal 1992 (0,0 stig) og þann 25. fór hiti niður í -2,6 stig. Gamla metið fyrir þann dag var frá 1967, sett á Vöglum í Fnjóskadal (-1,4 stig). Lágmarkið á Brú frá 24., og getið var hér að ofan, var hins vegar ekki nýtt met fyrir þann dag. Gamla metið, (-3,3 stig) sett á Grímsstöðum á Fjöllum 1970, stendur enn.

Þurrkarnir - bráðabirgðayfirlit

Í Reykjavík þarf að fara allt aftur til ársins 1889 til að finna jafnlitla úrkomu í júlí. Met virðast hafa verið sett á allmörgum stöðvum þar sem athugað hefur verið styttri tímabil. Þar sem endanlegar úrkomutölur flestra stöðva verða ekki staðfestar fyrr en eftir meir en mánuð er listinn hér að neðan aðeins til bráðabirgða. Vel má vera að öll úrkoma sumra stöðvanna hafi ekki enn skilað sér í gagnagrunninn. Þessi kafli yfirlitsins verður felldur burt síðar í mánuðinum eða endurnýjaður í september.

Þurrkamet hafa verið sett á eftirtöldum stöðvum sem mælt hafa í meir en 50 ár (fyrsti júlímánuður mæliraðarinnar er í sviga aftan við nafn stöðvarinnar):

Loftsalir/Vatnsskarðshólar (1940), Andakílsárvirkjun (1950) og Keflavíkurflugvöllur (1952).

Stöðvar sem athugað hafa í 30 til 50 ár:

Mjólkárvirkjun (1960), Hólmar í Landeyjum (1960), Skógar undir Eyjafjöllum (1966), Brekka í Norðurárdal (1970), Hjarðarfell á Snæfellsnesi (1971), Snæbýli í Skaftártungu (1976) og Brjánslækur á Barðaströnd (1978).

Í 20 til 30 ár:

Hólar í Dýrarfirði (1983) og Stafholtsey (1989).

Í 10 til 20 ár:

Hjarðarland, (1990), Neðra-Skarð, Ásgarður, Augastaðir, Dalshöfði, Kirkjuból, Hítardalur, Hrafnabjörg, Steinadalur, Vogsósar, Bláfeldur, Auðnir, Kerlingardalur.

 


 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica