Fréttir
listaverk út við strönd - klettadrangar í baksýn
Vík í Mýrdal, þar sem brugðið getur til beggja vona með veður um hvítasunnuna.

Veðurútlit um hvítasunnuna

suðvestanátt

29.5.2009

Í heildina séð verður yfirleitt fremur hægur vindur á landinu, skúrir um vestanvert landið, einkum framanaf, en annars úrkomulítið og hiti 10-16 stig.

Á morgun, laugardag, verður suðvestlæg eða breytileg átt á landinu, yfirleitt 3-10 m/s. Skýjað með köflum og skúrir um sunnan- og vestanvert landið, en rigning um tíma austanlands. Lengst af þurrt og bjart norðanlands en þar falla einhverjir dropar til jarðar síðdegis. Hiti 8 til 16 stig að deginum, hlýjast norðaustantil en hiti gæti farið niður í 2 til 7 stig um nóttina.

Á sunnudag er gert ráð fyrir suðvestanátt, 5-10 m/s. Léttskýjað um norðan- og austanvert landið, en annars skýjað með köflum og stöku skúrir sunnan- og vestantil. Hiti 8 til 14 stig.

Á mánudag má búast við vestan- og norðvestan golu og lítilsháttar skúrum með norður- og vesturströndinni, en annars nokkuð björtu veðri. Hiti áfram svipaður.

Því viðrar ágætlega til ferðalaga og útivistar um hvítasunnuna en gott að vera viðbúinn vætu. Síst mun þó rigna á Norðausturlandi.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica