Fréttir
horft úr fjalli á þorp við ströndina
Þvergarður og keilur neðan Drangagils í Neskaupstað.

Bók um snjóflóðavarnargarða

27.3.2009

Út er komin bókin „The design of avalanche protection dams. Recent practical and theoretical developments“ um hönnun snjóflóðavarnargarða og annarra varnarvirkja sem reist eru á úthlaupssvæðum snjóflóða. Bókin er prentuð í ritröð sem Evrópuráðið (European Commission, EC) gefur út og fjallar um niðurstöður rannsóknarverkefna sem ráðið styrkir. Ritstjórar bókarinnar eru Tómas Jóhannesson, Veðurstofu Íslands, og Peter Gauer, Dieter Issler og Karstein Lied, Norsku jarðtæknistofnuninni.

Bókin er byggð á niðurstöðum rannsóknarverkefna sem Veðurstofan hefur tekið þátt í á nokkrum undanförnum árum, ásamt öðrum snjóflóðarannsóknastofnunum í Evrópu. Þar er meðal annars um að ræða doktorsverkefni Kristínar Mörthu Hákonardóttur verkfræðings sem er meðal höfunda bókarinnar.

Hönnun snjóflóðavarnargarða byggist að verulegu leyti á mati sérfræðinga vegna þess að flæði snjóflóða er ekki nægilega vel skilið til þess að unnt sé að leggja fræðilega reikninga eingöngu til grundvallar í hönnun slíkra mannvirkja.

Í bókinni eru nýjar rannsóknir á flæði kornóttra efna, meðal annars tilraunir í tilraunastofum, notaðar til þess að setja fram tillögur að nýjum hönnunarforsendum fyrir snjóflóðavarnargarða sem byggjast á betri fræðilegum forsendum en þær aðferðir sem notaðar hafa verið til þessa. Enn þarf þó að byggja hönnun snjóflóðavarnarvirkja að verulegu leyti á mati sérfræðinga.

Bókina er unnt að panta frá bóksölu Evrópusambandsins og hún er aðgengileg á netinu sem PDF skjal með upplausn sem hentar fyrir skjábirtingu (1,5 Mb) og í meiri upplausn sem hentar fyrir prentun á pappír (27,9 Mb).

Ofanflóðasjóður og ýmsir aðrir rannsóknarsjóðir styrktu rannsóknirnar sem fjallað er um í bókinni og auk þess fengust styrkir frá rammaáætlunum Evrópuráðsins.Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica