Fréttir
ný forsíða veðurvefsins
Ný forsíða Veðurstofu Íslands

Breytingar á vef

18.3.2009

Í kjölfar sameiningar Veðurstofunnar og Vatnamælinga verða gerðar breytingar á vefnum vedur.is nú um helgina. Veigamestu breytingarnar verða á forsíðunni, en einnig verða fjölmargar breytingar á undirsíðum. Bæði verða breytingar á kvikum síðum og textasíðum.

Efri hluta forsíðunnar verður skipt upp í fjóra hluta: veðurspá, veðurathuganir, jarðskjálfta og vatnafar. Hver hluti tekur yfir allan efri helminginn þegar hann er valinn. Segja má, að um sé að ræða fjórar forsíður.

Meginorsakir þessarar róttæku breytingar á forsíðunni eru:

  • Erfitt er að bæta vatnafarsupplýsingum inn á forsíðuna við núverandi uppsetningu.
  • Af öryggisástæðum verður vinda-, hita- og úrkomuspákortum gert hærra undir höfði á forsíðunni á kostnað núverandi staðaspákorts. Á vindaspákortum er hægt að sjá hvar og hvenær stormar verða verstir. Það er oft nánast ógerlegt á staðaspákortum.
  • Þessi uppsetning forsíðunnar opnar þann möguleika að bæta fleiri meginþáttum inn á forsíðuna seinna meir.


Vindaspár
Vindakort
Á vindaspákortum er hægt að sjá hvar og hvenær stormar verða verstir. Það er oft nánast ógerlegt á staðaspákortum.

Nokkrar helstu breytingarnar verða:

  • Eins og áður sagði skiptist efri hluti forsíðunnar upp í fjóra meginhluta. Segja má að um sé að ræða fjórar forsíður.
  • Á veðurspár-forsíðunni verður vinda-, hita- og úrkomuspánum gert hærra undir höfði á kostnað staðarspá-kortsins sem nú er á forsíðunni. Þetta er af öryggisástæðum eins og áður segir.
  • Á veðurathugunar-forsíðunni verður að finna hámörk og lágmörk frá sjálfvirkum veðursstöðvum, annars vegar frá því á miðnætti og hinsvegar frá síðustu klukkustund. Hámörkum og lágmörkum frá mönnuðum stöðvum verður fljótlega bætt við á undirsíður.
  • Á jarðskjálfta-forsíðunni bætist við listi yfir stærstu skjálfta síðustu 48 klst, ásamt samantekt yfirlits síðustu viku og athugasemd jarðvísindamanns þegar það á við.
  • Á nýrri vatnafars-forsíðu verður yfirlitskort, meðaltalstafla, samantekt vikuyfirlits og athugasemd sérfræðings þegar það á við.
  • Nokkrar breytingar verða á textagreinum vefsins. Í veftréð bætast við greinar um vatnafar ásamt því að greinar um mengun, eldingar o.fl. færast til.
  • Vinda-, hita- og úrkomuspákortin á undirsíðunum stækka og litakóðarnir á þeim breytast. Tilgangurinn er að gera þau eins skýr og mögulegt er.

Notendur eru hvattir til að senda inn ábendingar og tillögur.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica