Fréttir
Ísland - loftmynd
Ísland snævi þakið 2. febrúar 2009: Mynd dagsins hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA.

Febrúar 2009

Stutt tíðarfarsyfirlit

2.3.2009

Tíðarfar í mánuðinum var hagstætt. Lítið var um illviðri og samgöngur voru lengst af greiðar. Fyrstu tólf dagar mánaðarins voru mjög kaldir, í Reykjavík ámóta kaldir og sömu dagar í febrúar 2002, en á Akureyri þarf að fara áratugi aftur í tímann til að finna sama tímabil ámóta kalt, en hiti var svipaður fyrstu 12 dagana í febrúar 1969 og 1955 og var nú. Þurrt var um mestallt land allan þennan tíma og sólskin, snjór var á jörðu, en ekki mikill. Frá og með þeim 13. hlýnaði að mun og síðari hluti mánaðarins var hlýr, sérstaklega 16. til 18. Úrkoma var þá mikil sunnanlands, en heldur minni nyrðra.

Í mánuðinum í heild var hitinn um landið sunnanvert nærri meðallagi. Meðalhitinn í Reykjavík var 0,1 stig og er það 0,3 stigum undir meðallagi. Heldur kaldara var í febrúar í fyrra. Fyrir norðan var kaldara að tiltölu, meðalhitinn á Akureyri mældist -3,6 stig og er það 2,1 stigi undir meðallagi. Þetta er kaldasti febrúar á Akureyri síðan 2002, en þá varð talsvert kaldara en nú. Á Höfn í Hornafirði mældist meðalhitinn 0,3 stig og -6,4 stig á Hveravöllum. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var mánaðarhitinn 0,6 stigum yfir meðallagi.

Meðalhiti, frávik og röð

stöð hiti frávik röð af
Reykjavík 0,1 -0,3 59 144
Stykkishólmur -0,9 -0,9 73 164
Bolungarvík -1,3 -1,3 58 112
Akureyri -3,6 -2,1 93 128
Egilsstaðir -3,8 -1,9 50 60
Dalatangi 0,4 -0,2 40 71
Höfn í Hornaf. 0,3 -0,3 25 44
Stórhöfði 2,6 0,6 33 132
Hveravellir -6,4 -0,4 24 44

Úrkoma var undir meðallagi í Reykjavík, á Akureyri og á Höfn. Úrkoman mældist 53 mm í Reykjavík og er það um 70 prósent af meðalúrkomu, á Akureyri mældist úrkoman 29 mm og er það um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu. Á Höfn mældist úrkoman 126 mm og er það í tæpu meðallagi.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 59,4 og er það 7 stundum umfram meðallag. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 35,9 og er það í meðallagi.

Lægstur hiti (mesta frost) í mánuðinum mældist -29,0 stig í Svartárkoti í Bárðardal þann 12. Mest frost á mannaðri skeytastöð mældist -22,7 stig á Grímsstöðum á Fjöllum þann 3.

Hæstur hiti í mánuðinum mældist 13,9 stig á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði þann 17. Á mönnuðu stöðinni á sama stað mældist hámarkshitinn 13,0 stig.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica