Janúar 2009
Stutt tíðarfarsyfirlit
Mánuðurinn var hlýr og úrkomusamur. Tíð var talin góð. Fyrri hluti mánaðarins var sérlega hlýr, en síðari hlutinn svalari.
Meðalhiti í Reykjavík var 1,8 stig og er það 2,4 stigum ofan við meðallag. Meðalhitinn á Akureyri var 0,3 stig og er það 2,5 stigum ofan meðallags, á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 2,2 stig og -3,3 stig á Hveravöllum.
Meðalhiti, frávik og röð
stöð | hiti | frávik | röð | af |
Reykjavík | 1,8 | 2,4 | 14 | 144 |
Stykkishólmur | 1,2 | 2,2 | 16 | 165 |
Bolungarvík | 0,6 | 1,8 | 24 | 112 |
Akureyri | 0,3 | 2,5 | 23 | 128 |
Egilsstaðir | 0,6 | 3,0 | 11 | 61 |
Dalatangi | 2,7 | 2,3 | 15 | 71 |
Höfn í Hornaf. | 2,2 | 2,1 | 9 | 44 |
Stórhöfði | 3,3 | 2,0 | 12 | 132 |
Hveravellir | -3,3 | 3,2 | 6 | 44 |
Mánuðurinn var 14. hlýjasti janúar frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík, 1870.
Úrkoma var mikil í mánuðinum. Í Reykjavík mældist hún 108 mm og er það um 40 prósent umfram meðallag. Á Akureyri mældist úrkoman 104 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma. Ekki hefur mælst jafnmikil úrkoma í janúar á Akureyri síðan 1975, en 1990, 2002 og 2004 var hún þó litlu minni en nú. Á Höfn mældist úrkoman 222 mm og er það meir en tvöföld meðalúrkoma þar um slóðir.
Sólskinsstundir mældust 27 í Reykjavík og er það nærri meðallagi, á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 15 og er það 8 stundum fleiri en í meðalári.
Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,7 stig, á Seyðisfirði þann 8. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Skjaldþingsstöðum 11,5 stig og er sú færsla bókuð þann 9.
Lægsti hiti mánaðarins mældist -22,0 stig í Möðrudal þann 30. Sama dag var lágmarkshiti á Grímsstöðum -16,8 stig.