Fréttir
Lágský við Ísland (MODIS)
Lágský við Ísland (mynd frá NASA).
1 2
næsta

Lágský við Ísland

Þoka við sjávarsíðuna, bjart til landsins

11.7.2008

Mörg veðurtungl sveima nú í kringum jörðina. Hvert þeirra er búið skynjurum sem þreifa á fjölmörgum bylgjulengdum sem síðan má setja saman á ýmsa vegu þannig að úr verða litskrúðugar myndir. Margar gerðir þeirra eru aðgengilegar oft á dag á veðurtunglasíðum Veðurstofuvefsins.

Fyrstu 10 dagar júlímánaðar 2008 einkenndust af aðgerðalitlu veðri og lítið bar á stórum veðurkerfum í námunda við landið. Samskipti lofts annars vegar en lands og sævar hins vegar voru þá mjög áberandi.

Um miðjan dag þann 9. var málum þannig háttað að bjart var yfir landinu í vægu uppstreymi. Hlýtt var í þeim landshlutum þar sem vindur stóð ekki beint af hafi en fremur svalt við sjávarsíðuna. Uppstreymið megnaði ekki að rífa sig í gegnum hlýtt loftlag sem réð ríkjum í 1500 metra hæð eða svo. Loftið streymdi síðan til hliðanna og niðurstreymi var yfir sjónum. Niðurstreymið yfir Keflavíkurflugvelli náði niður í 300 til 400 metra hæð. Niðri við sjóinn var hins vegar mjög rakt lag þakið þokuskýjum.  

Ástandið var mjög svipað við strendur víða um land. Austanlands andaði víðast hvar af hafi, en um landið vestanvert var lítlisháttar þrýstivindur af norðnorðvestri, studdur af hitalægð sem var yfir landinu að deginum.

Hæsti hámarkshiti á landinu fyrstu daga júlímánaðar 2008 (°C):

 1.     19,0      Stórhöfði, sjálfvirk stöð                         
 2.     19,5      Þingvellir                                       
 3.     22,1      Sauðárkrókur, flugvöllur                          
 4.     19,7      Húsafell                                         
 5.     21,8      Hallormsstaður                                   
 6.     22,3      Þingvellir                                       
 7.     24,0      Þingvellir                                       
 8.     20,9      Þúfuver                                          
 9.     22,2      Upptyppingar                                     
10.    22,1      Hella, sjálfvirk stöð         

 Sjá nánari skýringar á myndunum í ítarlegum texta við þær.

 



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica