Fréttir
Starfsmenn Veðurstofu Íslands á góðviðrisdegi í Heiðmörk
Starfsmenn Veðurstofu Íslands á góðviðrisdegi í Heiðmörk í júní sl.

Tíðarfar í júní 2008

- stutt yfirlit

1.7.2008

Norðaustlæg átt var ríkjandi í mánuðinum og veðurlag dró dám af því. Hlýtt var um sunnan- og vestanvert landið og hiti vel yfir meðallagi. Hiti var lítillega yfir meðallagi við sjóinn á Norðaustur- og Austurlandi, en undir því inn til landsins á þeim slóðum. Mjög þurrt var vestanlands og einnig víða um sunnanvert landið. Óvenjusólríkt var sunnanlands.

Meðalhiti í Reykjavík var 10,6 stig og er það 1,6 stigum yfir meðallagi. Þetta er svipaður hiti og var í júní í fyrra og reyndar líka 2004 og 2005, en heldur hlýrra var bæði 2002 og 2003. Júní í ár er 8. hlýjasti júní í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga. Á Akureyri var meðalhitinn 9,1 stig og er það í meðallagi. Þetta er kaldasti júní á Akureyri frá 2001.

Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 9,5 stig og á Hveravöllum var meðalhitinn 6,1 stig. Það er 1,2 stigum yfir meðallagi. Hiti var 0,7 stigum yfir meðallagi á Dalatanga, en 0,5 stigum undir því á Egilsstöðum. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 9,5 stig, 8,5 í Bolungarvík, hvoru tveggja 1,4 stigum yfir meðallagi. Á þessum tveimur síðastnefndu stöðum var talsvert hlýrra í júní í fyrra. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var meðalhitinn 9,6 stig og er mánuðurinn í þriðja til fimmta sæti hlýrra júnímánaða frá upphafi mælinga þar.

Mjög þurrt var um mestallt sunnan- og vestanvert landið síðari hluta mánaðarins. Úrkoma í Reykjavík mældist 13 mm og er það aðeins um fjórðungur meðalúrkomu. Ámóta þurrt var í Reykjavík í júní 1991 og 1980, en mun þurrara 1971. Á Akureyri mældist úrkoman 32 mm og er það 12 % umfram meðallag. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 68 mm og er það í tæpu meðallagi.

Sólskinsstundir voru óvenjumargar í Reykjavík eða 313. Þetta er jafnmikið og í júní 1924 en saman eru þessir mánuðir í 2. til 3. sæti sólríkra júnímánaða. Sólskinsstundirnar mældust 338 í júní 1928 þannig að tvo góða sólardaga hefði þurft til viðbótar til að slá það met. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 211 og er það 34 stundum umfram meðallag, álíka og í júní í fyrra.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica