Fréttir
Foss í Brunná í Kjarnaskógi.
Foss í Brunná í Kjarnaskógi.

Tíðarfar í maí 2008

- stutt yfirlit

2.6.2008

Hlýtt og góðviðrasamt var í maí, mjög ólíkt því sem verið hefur á undanförnum árum. Meðalhiti í Reykjvík var 8,6 stig og er það 2,3 stigum ofan meðallags. Þetta er hlýjasti maí í Reykjavík frá 1960 að telja og sá þriðji hlýjasti frá upphafi mælinga eftir að tekið hefur verið tillit til flutninga veðurstöðvarinnar um bæinn. Nokkru hlýrra var í maí 1935, en ámóta hlýtt var í nokkrum maímánuðum öðrum á árunum 1928 til 1941.

Meðalhitinn á Akureyri var 8,0 stig, eða 2,5 stigum ofan meðallags. Þetta er hlýjasti maí frá 1991 á Akureyri. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 7,5 stig, sá hlýjasti frá 1991 á þeim slóðum. Á Hveravöllum var meðalhitinn 3,7 stig, eða 3,1 stigi ofan meðallags. Ekki hefur orðið hlýrra á Hveravöllum í maí frá upphafi mælinga þar 1965.

Í Stykkishólmi var meðalhitinn 7,6 stig. Ámóta hlýtt (7,5 stig) var þar 1946, en hlýrra 1935 (8,2 stig). Meðalhiti í maí 1928 og 1933 var 7,8 stig, ívið hærri en nú. Í Bolungarvík var meðalhitinn 6,6 stig, sá hæsti frá 1946, Á Egilsstöðum var meðalhitinn 7,1 stig (hlýjast frá 1991) og 7,5 stig á Stórhöfða í Vestmannaeyjum sem er það hlýjasta frá 1947 (1,7 stig ofan meðallags).

Úrkoma í Reykjavík mældist 31 mm og er það um 70% meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman 21 mm og er það í rúmu meðallagi. Á Höfn mældist úrkoman 58 mm og eru það um þrír fjórðu hlutar meðalúrkomu.

Sólskinsstundir voru talsvert undir meðallagi, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Sólskinsstundirnar í Reykjavík mældust 141 og er það 51 stund undir meðallagi. Sólskinsstundir í Reykjavík hafa ekki verið jafnfáar í maí síðan 2001. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 136 og er það 38 stundum undir meðallagi, en þó var sólarminna þar í fyrra (2007).

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á Hallormsstað þann 26., 21,7 stig. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist á Torfum í Eyjafirði 19,6 stig, einnig þann 26. Mest frost í mánuðinum mældist á Gagnheiði þann 16., -8,0 stig. Mest frost í byggð mældist 2. maí á Þingvöllum, -7,0 stig. Mest frost á mannaðri veðurstöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 16., -4,8 stig.

Vorið 2008 (apríl og maí)

Í Reykjavík voru báðir vormánuðirnir yfir meðallagi í hita, maí þó sýnu hærri. Meðalhiti beggja mánaða var 6,3 stig sem er álíka og var vorin 2003 og 2004, en bæði þau vor var apríl sérlega hlýr, en maí ekkert sérstakur. Síðan þarf að fara aftur til 1974 til að finna hlýrra vor í Reykjavík en nú.

Hiti var lítillega undir meðallagi á Akureyri í apríl þannig að apríl og maí eru samtals með svipaðan meðalhita og var í fyrra. Þá var apríl óvenjuhlýr á Akureyri.

Vorið var nú með þurrara móti í Reykjavík og þarf að fara aftur til 1997 til að finna jafnþurrt vor. Á Akureyri var úrkoman einnig undir meðallagi, en ámóta þurrt var þó fyrir tveimur árum og þurrari vor hafa mjög oft komið á Akureyri.

Í Reykjavík var fremur sólríkt í apríl þannig að samtals skein vorsólin ekki fjarri meðallagi. Sama má segja um sólskinsstundir á Akureyri.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica