Fréttir
Svanir á tjörn
Svanir á tjörn.

Tíðarfar í apríl 2008

- stutt yfirlit

6.5.2008

Nýliðinn aprílmánuður var lengst af hagstæður. Hann var fremur úrkomulítill og vindáttin var yfirleitt austan- eða norðaustanstæð. Svalt var í veðri framan af, sérstaklega dagana 4. til 6.

Um miðjan mánuð hlýnaði verulega og var hiti síðari hluta mánaðarins vel yfir meðallagi að slepptum fimm síðustu dögunum um norðanvert landið. Nokkuð hvasst varð víða um land í byrjun mánaðarins og einnig síðustu daga hans.

Meðalhiti í Reykjavík var 3,9 stig og er það 1 stigi ofan meðallags. Talsvert hlýrra var í apríl í fyrra. Meðalhiti á Akureyri mældist 1,4 stig. Er það 0,2 stigum neðan meðallags og er þetta kaldasti aprílmánuður þar síðan 2001. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 3,3 stig og er það 0,5 stigum ofan við meðaltal.

Úrkoma í Reykjavík mældist 21,5 mm og er það einungis um 37% af meðalúrkomu. Þetta er minnsta úrkoma sem mælst hefur þar í apríl síðan 1998. Á Akureyri mældist úrkoman 13,9 mm og er það um 48% af meðallagi. Á Höfn í Hornafirði mældust einungis 21,6 mm sem er um fjórðungur af meðaltalinu.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 207,2 og er það rúmlega 67 stundum umfram meðallag. Er það mun meira sólskin en mældist í apríl í fyrra, en svipað og árið 2006. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 151 og er það um 21 stund yfir meðallagi. Það er álíka sólskin og var í apríl í fyrra.

Snjór á láglendi var ívið meiri en undanfarin ár fram eftir mánuðinum en þann 9. var 11 cm snjódýpt í Reykjavík og þann 14. var 15 cm snjódýpt á Höfn.

Hæsti hiti í mánuðinum á mannaðri stöð mældist á Bláfeldi þann 24., 14 stig. Kaldast í mánuðinum á mannaðri stöð varð á Grímsstöðum á Fjöllum aðfaranótt 14. apríl, -15,4 stig, en á sjálfvirkri stöð á Setri þann 15., -21,3 stig.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica