Fréttir
Ólafsfjarðarvegur við Sauðanes
Ólafsfjarðarvegur við Sauðanes.

Tíðarfar í mars 2008

auk yfirlits um veturinn 2007 til 2008

3.4.2008

Tíðarfar í mars var ekki fjarri meðallagi um stóran hluta landsins en úrkomusamt var sums staðar norðan- og austanlands. Mánuðurinn var ívið kaldari og snjóasamari en marsmánuðir síðustu ára. Snarpt en skammvinnt norðanskot gerði á skírdag (þann 20.) en að öðru leyti var veður meinlítið lengst af.

Um vestanvert landið var hiti lítillega yfir meðallagi en örlítið undir því um landið austanvert.


Meðalhiti í Reykjavík var 0,8 stig og er það 0,4 stigum yfir meðallagi en hið lægsta í mars frá 2002. Í Stykkishólmi var meðalhitinn -0,2 stig og er það 0,6 stigum yfir meðallagi. Í Bolungarvík var meðalhitinn -1,1 stig sem er 0,6 stigum yfir meðallagi, en -1,4 stig á Akureyri og er það 0,2 stigum undir meðallagi. Á Egilsstöðum var meðalhitinn -2,3 stig, 0,9 stigum undir meðallagi, og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum 1,8 stig eða 0,1 yfir meðallagi. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 0,3 stig og er það 0,9 stigum undir meðallagi.

Úrkoma í Reykjavík mældist 51 mm og er það um 60% af meðalúrkomu. Á Akureyri mældist úrkoman 71 mm og er það 65% umfram meðallag. Þetta er mesta úrkoma í mars á Akureyri síðan 1995. Á Höfn í Hornafirði mældist úrkoman 88,4 mm.

Sólskinsstundir mældust 120 í Reykjavík og er það 9 stundum yfir meðallagi. Sólarlítið var á Akureyri, þar voru sólskinsstundirnar aðeins 38 og er það 39 stundum undir meðallagi. Þetta er sólarminnsti marsmánuður á Akureyri frá 1981, en þá mældust sólskinsstundirnar 30.

Snjór var ívið meiri en undanfarin ár. Í Reykjavík var snjór sá mesti í mars frá 2000 en þá var mun meiri snjór í mars en nú. Reyndar var snjór í Reykjavík nú undir meðallagi áranna 1971-2000 en það var snjóþungt tímabil. Óvenju mikið snjóaði í Vesmannaeyjum annan dag mánarins og mældist snjódýptin á Stórhöfða 65 cm að morgni þ. 3 og hefur ekki mælst meiri þar síðan 21. mars 1968. Þá var hún 90 cm.

Hæsti hiti í mánuðinum mældist á sjálfvirku stöðinni á Dalatanga þann 5. 12,3 stig. Þar var einnig hlýjast á mannaðri stöð, 11,1 stig sama dag. Kaldast í mánuðinum varð á Brúarjökli þann 3. -26,2 stig, en á sjálfvirkri stöð í byggð var kaldast í Svartárkoti þann sama dag, -22,1 stig. Á mannaðri stöð varð kaldast á Staðarhóli, -19,7 stig, aðfaranótt 4. mars.

Veturinn (desember 2007 til mars 2008)

Vetursins verður helst minnst fyrir óvenju umhleypingasama tíð sem reyndar byrjaði strax síðsumars 2007 og stóð vel fram í febrúar 2008. Þá var óvenjuúrkomusamt um sunnan- og vestanvert landið og veturinn sá úrkomusamasti í Reykjavík frá 1992, þrátt fyrir að mars hafi verið með þurrara móti. Á Akureyri var úrkoma einnig með meira móti þó hún hafi hins vegar oft verið mun meiri.

Meðalhiti vetrarins var rétt yfir meðallagi í Reykjavík en svo hlýtt hefur verið undanfarin ár að hann var sá kaldasti frá 2002. Á Akureyri var vetrarhitinn -0,6 stig og er það 1 stigi ofan meðallags þó veturinn sé sá kaldasti frá 2002 eins og í Reykjavík.

Sólskin er sjaldan mikið á vetrum, að þessu sinni var sólskinsstundafjöldi í meðallagi í Reykjavík en óvenjusólarlítið var á Akureyri, veturinn hinn sólarminnsti þar frá upphafi mælinga árið 1928.

Smáfuglar í Vestmannaeyjum
Fuglar í Vestmannaeyjum.
Mynd 2. Frá Vestmannaeyjum 1. mars 2008. Fuglarnir eiga sér vini í Stórhöfða. Ljósmynd: Pálmi Freyr Óskarsson.

Snjór var heldur meiri en undanfarin ár, í Reykjavík sá mesti frá 2000 en þá var mun meiri snjór en nú. Alhvítir dagar voru 54 í Reykjavík og er það í meðallagi.

Á Veðurstofunni er vetur talinn standa frá 1. desember til 31. mars.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica