Fréttir
Horft inn Tungudal og Seljalandsdal
Horft inn Tungudal og Seljalandsdal og yfir Seljalandshlíð innri.

Hættumat fyrir Ísafjörð

10.10.2007

Veðurstofa Íslands hefur unnið hættumat vegna ofanflóða fyrir svæði umhverfis þéttbýlið á Ísafirði. Svæðin sem um ræðir eru Seljalandshverfi og Tunguskeið, eftir byggingu varnarmannvirkja á Seljalandsmúla, og hættumat fyrir Tungudal, Dagverðardal og Innri-Kirkjubólshlíð.

Kynning á Ísafirði

Hættumatsnefnd Ísafjarðarbæjar kynnir tillögu að hættumatinu á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði föstudaginn 12. október kl. 17:30-19:00. Tillaga að hættumati verður sýnd á veggspjöldum og skýrsla hættumatsnefndar um málið liggur frammi. Fulltrúar hættumatsnefndar og sérfræðingar Veðurstofu Íslands kynna tillöguna og svara fyrirspurnum gesta. Tillagan verður síðan aðgengileg almenningi á bæjarskrifstofunni í fjórar vikur, þ.e.a.s. til miðvikudags 14. nóvember 2007.

Samkvæmt hættumatinu er snjóflóðahætta á stóru svæði í Tungudal, einkum í og við farveg stóra flóðsins úr Seljalandshlíð 1994 og í Seljalandshverfi. Sumarbústaðahverfið í Tungudal er allt á hættusvæði C og nokkur hús í Seljalandshverfi eru á hættusvæðum B og A. Hættan er þó mjög mismikil. Líkanreikningar benda til að hætta sé tiltölulega lítil á allstórum svæðum utan og innan við tungu snjóflóðsins 1994 þar sem snjóflóð eru ólíkleg til þess að ná fram af brún Seljalandsdals. Skíðaskáli á Harðarskálaflöt á Seljalandsdal er talinn utan hættusvæða.

Hættumatslínur á Ísafirði.
Hættumatslínur á Ísafirði.
Mynd 2. Hættumatslínur á Ísafirði. Afmörkuð eru þrjú hættusvæði, A, B og C. Ofan rauðu línunnar er hættusvæði C, en þar eru engar nýbyggingar leyfðar, nema viðvera sé mjög lítil. Á hættusvæðum A og B eru nýbyggingar háðar ýmsum skilyrðum. Seljalandshverfið hefur verið varið með varnargarði og sjást hættusvæðin án garðs með brotinni línu.

Seljalandshverfi hefur verið varið með varnargarði og keilum sem draga mikið úr snjóflóðahættu í byggðinni þar fyrir neðan. Mesta breyting á legu hættumatslína undir garðinum er innst í tungunni niður yfir Seljalandshverfi og svæðið þar neðan við í eldra hættumati, nærri Bræðratungu. Þar benda tvívíðu líkanreikningarnir til þess að eldra hættumat frá 2002 geri ráð fyrir fullmikilli útbreiðslu flóða til vesturs, eins og fyrr var nefnt. Breyting í legu hættumatslína á þessu svæði stafar bæði af því að líkanreikningar gefa nú til kynna að snjóflóðahætta sé minni á þessum stað en skv. eldra hættumati og einnig af áhrifum varnargarðsins.

Hætta í innanverðum Tungudal og í Dagverðardal er miklu minni en á svæðum þar sem hættu gætir frá stóru upptakasvæðunum í Seljalandshlíð. Snjósöfnun í hugsanleg upptakasvæði þar er fremur lítil og hættumatslínur liggja því mun nær hlíðinni en undir Seljalandshlíð. Á slíkum svæðum er hættumat erfitt og óvissa mikil. Ekki er byggð á hættusvæðunum, sem afmörkuð hafa verið á þessum hluta hættumetna svæðisins, að frátöldum skíðaskálanum í Tungudal sem er talinn á hættusvæði A.

Þrátt fyrir að ekki sé mikil byggð á hættumetna svæðinu undir Innri-Kirkjubólshlíð er þar starfsemi sem er mikilvæg fyrir Ísafjarðarbæ og nágrannasveitarfélög. Byggingar á Ísafjarðarflugvelli eru á hættusvæði C og þarf þar að huga sérstaklega að viðbrögðum vegna þess að búast má við miklum mannsöfnuði þar.

Sorpbrennslan Funi hefur verið varin með varnarfleyg og er sú aðgerð talin nægjanleg til þess að áhætta í húsinu svari til þess að það sé á hættusvæði B en á slíku svæði er heimilt að reisa hús fyrir atvinnustarfsemi. Varnarfleygurinn hefur sýnt gildi sitt með ótvíræðum hætti nokkrum sinnum og komið í veg fyrir tjón á byggingunni með því að bægja frá flóðum sem ella hefðu lent á henni. Þrátt fyrir þetta þarf að huga að öryggi þegar unnið er utan stöðvarhússins þar sem fleygurinn veitir mjög staðbundna vörn.

Tæknilegar greinargerðir Veðurstofunnar um hættumatið eru aðgengilegar á vef Veðurstofunnar, 07008 um Seljalandshverfi m.m. og 07011 fyrir Innri-Kirkjubólshlíð.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica