Áframhaldandi virkni við Upptyppinga
Skjálftavirknin við Upptyppinga, norðan Vatnajökuls, heldur áfram. Ein öflugasta hrinan stóð yfir frá því klukkan hálf fjögur í fyrrinótt, aðfaranótt 31. júlí og fram eftir degi. Önnur hrina hófst svo klukkan hálf fjögur í nótt, en sú hrina var að mestu leyti yfirstaðin kl. 6. Alls hafa mælst yfir 130 skjálftar í þessum tveimur hrinum.
Skjálftavirkni hófst við Upptyppinga í lok febrúarmánaðar og hefur haldið áfram, með hléum, fram til þessa. Frá því í lok maí hefur verið dagleg virkni á svæðinu. Alls hafa mælst um 2300 skjálftar á stærðarbilinu -0,5 til 2,2. Virknin er bundin við afmarkað svæði, en færist með tímanum til innan þess svæðis.
Skjálftarnir eru allir á 15 til 20 kílómetra dýpi, ef frá eru taldi örfáir grunnir skjálftar sem urðu vikuna 24. til 30. júní og nú á seinustu dögum.
Skjálftarnir við Upptyppinga eru líklegast tengdir kvikuhreyfingum.
Skjálftavirknin er á talsverðu dýpi og að öllum líkindum nær kvikan ekki að brjóta sér leið upp á yfirborð. Með áframhaldandi og ákveðnari virkni aukast þó líkur á að eldgos geti hafist. Það skal þó tekið fram að mörg dæmi eru um skjálftavirkni tengda kvikuhreyfingum, án þess að gos hafi orðið í kjölfarið.
Starfsmenn Veðurstofunnar munu áfram fylgjast náið með virkninni.