Fréttir
Nordress
Sigrún Karlsdóttir, náttúruvárstjóri á Veðurstofu Íslands, stýrði vinnustofu Nordress.

Nordress vinnustofa um áhættumat og áhættuviðmið

14.12.2016

Þverfræðilegur hópur 50 vísindamanna sótti um síðustu mánaðarmót vinnustofu hjá Veðurstofu Íslands um áhættumat og áhættuviðmið. Vinnustofan var styrkt af norræna verkefninu NORDRESS, rannsóknarverkefni á vegum NordForsk  um rannsóknir á því hvernig auka má öryggi samfélaga gagnvart náttúruhamförum. Fjöldi vísindamanna og stofnana á Norðurlöndum vinnur að þessu verkefni til ársins 2020. Áhersla er lögð á náttúruvá og viðnámsþrótt eða seiglu samfélaga svo þau geti sem best búið sig undir og rétt sig við eftir áföll.

Meginmarkmið vinnustofunnar var að skapa vettvang þar sem skipst er á reynslu, þekkingu og hugmyndum um áhættumat og áhættuviðmið með sérstöku tilliti til flóða og sjávarflóða, og koma í farveg samskiptum á milli Norðurlanda og nágrannalanda.

Nordress

Þátttakendur í Nordress vinnustofunni á Veðurstofunni.

Fyrirlesarar frá Hollandi, Bretlandi, Danmörku, Noregi og Íslandi héldu fyrirlestra um Sendai framework for Actions  2015–2030 áhættumat, áhættuviðmið með áherslu á vatns- og sjávarflóð, og hvernig tekið er mið af spám um loftslagsbreytingar. Einnig var fjallað um hagnýta áhættustýringu fyrir flóknar aðstæður þar sem getur verið erfitt að framkvæma formlegt áhættumat. Til viðbótar við fyrirlestrana var hópvinna.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica