Fréttir

Niðurstöður gasmælinga í Holuhraunsgosinu birtar í tímaritinu Geosciences

22.1.2018

Í nýrri vísindarannsókn, sem fjallað er um í tímaritinu Geosciences, greinir frá því að meira brennisteinstvíildi (SO2) hafi komið upp í Holuhraunsgosinu 2014-2015 en í nokkru öðru hraungosi í heiminum síðan 1978, eða síðan gervitunglamælingar á gosmökkum hófust. Samanborið við losun af mannavöldum á Íslandi losnaði 16 sinnum meira magn af brennisteinstvíildi (alls 9,6 milljón tonna) og tvisvar sinnum meira af koltvísýringi (CO2, alls 5,1 milljón tonna) í Holuhraunsgosinu.

Gösin frá Holuhrauni innihéldu tiltölulega lítið af flúor og klór (0,06 milljón tonn af HF og 0,1 milljón tonn af HCl) sem minnkaði líklega umhverfisáhrif gossins, en flúor, sérstaklega, er eitrað efni sem hefur oft valdið tjóni á sauðfé í gosum á Íslandi, svo sem í Skaftáreldum 1783-1784 og Heklugosinu 1947-1948. Upplýsingar sem þessi rannsókn safnaði eru mikilvægar til að meta umhverfis- og heilsuáhrif af eldvirkni.

Rannsóknin var leidd af Melissu Pfeffer, eldfjallafræðingi á Veðurstofu Íslands, en þátttakendur voru frá 16 rannsóknarstofnunum í ýmsum löndum. Þar er mælt með því að fjölbreyttar aðferðir séu notaðar til að mæla gosský og að frekari aðferðir verði þróaðar til að bæta eftirlit með gosskýjum á Íslandi og á öðrum stöðum þar sem skilyrði eru erfið, bæði vegna vetrartíma þegar sólarljós er takmarkað og vegna mikils magns svifryks, en þetta hefur neikvæð áhrif á söfnun gagna.

Gös sem losnuðu í gosinu bárust frá kviku sem kom upp í gosinu, en einnig frá kviku sem ekki kom upp á yfirborðið og frá hrauninu eftir að það rann. Losun lofttegunda frá hrauninu hélt áfram í þrjá mánuði eftir að eldgosinu lauk. Hún reyndist vera í samræmi við djúpt kvikukerfi og einnig yfirborðslosun.

Lofttegundir sem mældust við yfirborð bárust með vindi og höfðu áhrif á fólk, jafnvel tugi kílómetra  í burtu, en endurspegluðu ekki alltaf aðstæður við gosstöðvarnar. Gös söfnuðust í dölum, sérstaklega að nóttu og þegar lítill vindur var. Það tók stundum tíma og töluverðan vind að hreinsa gastegundir burt af svæðum þar sem þær höfðu sest.

Minniháttar framleiðsla á gjósku og ösku myndaðist í gosinu og höfðu lítil áhrif á fjölda agna í loftinu vegna þess að fyrir gos var mikið svifryk á söndunum norðan Vatnajökuls. Rykið á svæðinu hitnaði af Holuhrauni, þyrlaðist upp og myndaði rykmökk sem var mjög staðbundinn yfir gosstöðvum.

Gosið var kraftmest í upphafi og náði gasmökkur þá mestri hæð, en hæðin var á bilinu 1-3 kílómetrar á meðan á gosi stóð. Gasmökkur var iðulega hærri í eftirmiðdaginn, sem gaf til kynna að stöðugleiki í andrúmslofti hafði áhrif á hæð gasmakkar. Gasmakkarhæð hefur mikil áhrif á það magn lofttegunda sem berst með vindi yfir íbúabyggð.

Nánari upplýsingar veitir Dr Melissa Anne Pfeffer, eldfjallafræðingur við Veðurstofu Íslands. melissa@vedur.is.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica