Fréttir
Haettusvaedi_VI_24juni_2024
Hættumatskort sem er í gildi frá 24. júní - 2. júlí 2024, að öllu óbreyttu.

Mikilvægt að halda áfram þróun á aðferðafræði við gerð hættumats vegna eldgosavár

Tæplega 60 hættumatskort hafa verið gefin út frá  nóvember 2023 til júní 2024

28.6.2024

Samkvæmt lögum annast Veðurstofan rauntímavöktun á náttúruvá og skal gefa út viðvaranir og spár um yfirvofandi hættu af völdum m.a. jarðskjálfta, eldgosa og jökulhlaupa. Veðurstofan hefur einnig það hlutverk að vera yfirvöldum til ráðgjafar varðandi forvarnir og viðbrögð við náttúruvá. Hluti af því er að meta reglulega og veita upplýsingar um hættu vegna eldfjallavár líkt og í atburðarrásinni á Reykjanesskaga síðustu ár.

Í lok október 2023 hófst skjálftahrina norður af Grindavík og stuttu síðar fóru gögn að sýna landris við Svartsengi. Skjálftavirknin á svæðinu náði hámarki 10. nóvember þegar fjöldinn allur af jarðskjálftum yfir M3 áttu sér stað á um 6 klukkustunda tímabili og um 15 km langur kvikugangur, með miðju nærri Hagafelli, myndaðist undir Sundhnúksgígaröðinni. Grindavík var rýmd að kvöldi 10. nóvember þegar ljóst var að kvikugangurinn náði undir bæinn. Í kjölfar þessara atburða var hætta metin fyrir mismunandi tímaskala:

1) nær-rauntíma hættumat – tekur yfir næstu daga og upp í viku, fylgir eftirlitsgögnum og er metið a.m.k. vikulega á hættumatskorti.

2) skammtíma hættumat – tekur yfir næstu vikur og upp í þrjá mánuði, fylgir eftirlitsgögnum og þekktri sögu svæðisins.

3) langtíma hættumat – tekur yfir þrjá mánuði upp í ár og jafnvel áratugi, fylgir þekktri jarðsögu svæðisins.

Veðurstofan hefur gefið út nær-rauntíma hættumatskort í tengslum við umbrotin í og norðan við Grindavík og í tengslum við eldgosin við Fagradalsfjall (árin 2021, 2022 og 2023). Þessi kort voru í eðli sínu ólík  vegna mismunandi nálægðar umbrotanna við byggð og mikilvæga innviði.

Langtíma hættumat hefur verið unnið fyrir Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns (Langtímahættumatsskýrslan) og er í vinnslu fyrir Reykjansskagann í heild.

Þróun kortanna

Frá 12.-17. nóvember voru hættumatskort sem Veðurstofan útbjó eingöngu send til Almannavarna. Á fyrsta kortinu var hætta metin fyrir svæði í næsta nágrenni Grindavíkur en sigdalurinn sem myndaðist 10. nóvember stjórnaði að mestu skilgreindum hættusvæðum. Líkum á eldgosavá var skipt í minni hættu, meðal hættu og aukna hættu. Þeir þættir sem voru metnir voru gosopnun, hraunflæði, gasmengun, hraunbombur og gjóskufall. Mat á líkum byggðist á mælingum úr eftirlitskerfi Veðurstofunnar, GNSS mælingum, gervitunglamyndum, skjálftavirkni og samtúlkun þeirra gagna á samráðsfundi vísindamanna. Þann 17. nóvember var stærra svæði metið, hættusvæði voru uppfærð og kort sem tók yfir umbrotasvæðið í heild var útbúið. Á því korti var hættu áfram skipt í þrennt en nú voru skilgreindir þrír hættuflokkar A, B og C. Þann 20. nóvember var hættusvæði víkkað enn frekar umhverfis kvikuganginn og kortið var í fyrsta sinn birt á vefsíðu Veðurstofu Íslands, www.vedur.is. Frá þeim tíma hafa öll hættumatskort af svæðinu verið aðgengileg á vedur.is.

Skilgreining hættusvæða

Í lok nóvember 2023 var íbúum Grindavíkur veittur óheftur aðgangur að bænum að degi til, en fram að þeim tíma var aðgengi mjög takmarkað. Sú ákvörðun kallaði á breytta framsetningu á kortunum sem höfðu verið gefin út hingað til. Í samvinnu við Almannavarnir var ákveðið að skipta svæðinu niður í fjögur svæði: Svartsengi, Bláa lónið og umhverfi voru á Svæði 1, en þar eru mikilvægir innviðir fyrir allan Reykjanesskagann og miðja landriss. Grindavík, Þórkötlustaðahverfi og umhverfi voru á Svæði 4, enda mikilvægt að meta hættu fyrir byggðina í Grindavík og umhverfi hennar. Tvö önnur svæði, Svæði 2 og Svæði 3, voru skilgreind til að ná yfir helsta jarðumbrotasvæðið en þau skilgreindust af legu kvikugangsins og því svæði sem sýndi hvað mesta virkni m.t.t. jarðskjálfta og metinnar opnunar jarðskorpunnar. Mörkin milli svæðanna tveggja voru við Stóra-Skógfell en Svæði 3 náði niður að norðurmörkum Svæðis 4. Frá upphafi umbrotahrinunnar hefur mesta virkni verið innan Svæðis 3. Samtímis var hættukvarðinn uppfærður úr þriggja stiga kvarða (minni hætta, meðal hætta, aukin hætta / hættuflokkar A, B, C) í fimm stiga kvarða þar sem hættu var skipt í litla, nokkra, töluverða, mikla og mjög mikla  og hefur hann verið óbreyttur síðan.

Skilgreining svæða hefur að mestu verið óbreytt frá 8. desember, en nýjum svæðum hefur verið bætt við. Í kjölfar goss á Sundhnúksgígaröðinni sem hófst 18. desember var svæðum 5 og 6 bætt við (Svæði 5 er norðaustan við Svæði 1 og Svæði 6 er austan við Svæði 2 og Svæði 3) svo hægt væri að skilgreina hættu af völdum hraunrennslis og gasmengunar á nærliggjandi svæðum. Svæði 7 var aftur bætt við útgefið kort þann 20. febrúar í kjölfar þess að ríkislögreglustjóri féll frá tilmælum um brottflutning úr Grindavík sem hafði verið í gildi frá 14. janúar. Nesvegur liggur að hluta innan Svæðis 7 en aukinni umferð var beint um veginn í kjölfar þess að hraun rann yfir Grindavíkurveg í gosi 8. febrúar. Þann 7. mars var Svæði 2 sameinað Svæði 3.

Picture4

Mynd 1: Fyrsta hættumatskortið sem var birt opinberlega á vef Veðurstofunnar fyrir umbrotasvæðið umhverfis Grindavík (birt 20. nóvember 2023). Kortið sýnir umbrotasvæðið í heild og áætlaða legu kvikugangsins sem myndaðist 10. nóvember. Þrjú hættusvæði voru skilgreind, A, B og C og á kortinu var útskýrt hvaða vá var aðsteðjandi innan hvers svæðis.

Skilgreining hættu og framkvæmd hættumats

Nær-rauntímahættumat tekur yfir daga og upp í viku. Það byggir á samtúlkun gagna sem að mestu leyti fer fram á samráðsfundi vísindafólks sem boðaður er af Veðurstofu Íslands og haldinn er eins oft og þurfa þykir. Hópur vísindafólks fer yfir öll tiltæk gögn, auk rauntímagagna (s.s. skjálftavirkni, aflögun, gasmælingar) og þekkingu á svæðinu, og leggur mat á líkur þess að hætta myndist eða muni hafa áhrif á skilgreindum svæðum. Þrátt fyrir góða þekkingu á svæðinu og mikið rauntímaeftirlit með virkni er þróun atburða í eldsumbrotum óþekkt og því er ákveðin óvissa tengd matinu. Til að tryggja gegnsæi og samfellu í mati á aðsteðjandi hættu innan mismunandi svæða fylgir Veðurstofan ákveðnu verkferli. Fyrir hvert svæði er lagt mat á sjö tegundir hættu: 1) jarðskjálftavirkni, 2) jarðfall ofan í sprungu, 3) sprunguhreyfingar, 4) gosopnun, 5) hraunflæði, 6) gjóska og 7) gasmengun (Tafla 1).

 

Tafla 1. Þær sjö hættur sem unnið er með í nær-rauntímahættumati, skilgreining og undirstaða.

Hætta Skilgreining hættu Undirstaða hættumats
Jarðskjálftavirkni Jarðskjálftar eða breytingar á jarðskjálftavirkni geta verið forboðar kvikuhlaupa og/eða eldgosa. Skjálftavirkni síðustu daga og breytingar hennar.
Jarðfall ofan í sprungu Sprungur geta leynst undir ótraustu yfirborði sem getur gefið sig án viðvörunar. Jarðskjálftavirkni og veður.
Sprunguhreyfingar Sprungur í jörðu geta stækkað og hreyfst, t.d. hreyfing á sigdal. Aflögunarmælingar sem gerðar eru með GPS kerfi og túlkun gervitunglamynda.
Gosopnun Gosop er svæði þar sem gosefni koma til yfirborðs. Oftast sést aukning í skjálftavirkni fyrir upphaf eldgoss, og þ.a.l. opnun nýs gosops, en gosop geta opnast án fyrirvara. Ný gosop geta opnast á meðan gos er í gangi. Við mat á líkum á opnun gosopa er stuðst við aðra virkni á svæðinu og mat sérfræðinga.
Hraunflæði Flutningur kviku frá gosopi eftir yfirborði. Hraun getur valdið miklu tjóni á innviðum. Hraði flæðis stjórnast af efnainnihaldi kvikunnar, hitastigi hennar, þrýstingi og því landslagi sem hraun rennur yfir. Undirstaða hættumats er nálægð við gosop, hvort virkt hraunrennsli er í gangi og hve langt er síðan hraun rann um svæði.
Gjóska Allt það efni sem flyst frá gosopi í gegnum andrúmsloft kallast gjóska. Gjóskufall hefur m.a. áhrif á skyggni og loftgæði en tegund eldgoss stjórnar magni gjósku sem myndast. Í hraungosum myndast takmarkað magn af gjósku og hún fellur að mestu til jarðar nærri gosupptökum (innan við 5 km). Nálægð við gosop,  tegund og kraftur eldgoss og veður.
Gasmengun Eldfjallagös losna úr kviku þegar hún kemur til yfirborðs og þau valda gasmengun. Mest magn losnar í upptakagíg en eldfjallagös losna einnig úr storknandi hraunbreiðu. Magn flæðis eldfjallagasa, nálægð við gosop, stærð kólnandi hraunbreiðu og veður.

 

Líkur á því að hætta myndist af völdum mismunandi váa eru metnar samkvæmt fimm stiga kvarðanum og hverjum líkindaflokki er gefið ákveðið vægi (litlar líkur hafa vægið 0, mjög miklar líkur vægið 5, sjá Mynd 2). Fyrir hvert svæði er hættufylki eins og sýnt er á Mynd 2 fyllt út. Að lokum eru heildarstig hvers svæðis reiknuð út úr hættumatsfylkinu og þau stjórna því í hvaða hættukvarða svæðið er á hverjum tíma (sjá Töflu 2). Séu heildarstig svæðis undir 0,9 er hættukvarði svæðisins metinn lítill og svæðið fær grænan lit á hættumatskorti. Séu heildarstig svæðis yfir 24 er hættukvarði talinn mjög mikill og svæðið er litað fjólublátt á hættmatskorti (sjá Töflu 2). Á hættumatskortum er einnig birtur listi yfir þær vár sem eru metnar töluverðar, miklar eða mjög miklar og að auki eru þær vár sem eru metnar miklar eða mjög miklar feitletraðar í listanum.

Mynd_21062024

Mynd 2: Dæmi um útfyllingu hættumatsfylkis. Svona hættumatsfylki eru fyllt út við mat á hættu innan hvers svæðis. Heildarstig hættumatsfylkis stjórna hættukvarða svæðisins (sjá Töflu 2). Sé hætta metin töluverð, mikil eða mjög mikil (innan bláa svæðisins) er hún sérstaklega nefnd í lista á viðkomandi hættumatskorti og þær hættur sem eru metnar miklar eða mjög miklar eru að auki feitletraðar.

Myndkvardi

Tafla 2: Tengsl heildarstiga hættumatsfylkis og hættukvarða. Heildarstig hættumatsfylkisins (Mynd 2) ræður hvaða hættuvarða og lit svæði fá á hættumatskorti.

Munur á hættumati og áhættumati

Kortin og skipting á svæðum eru fyrst og fremst miðuð út frá þörfum viðbragðsaðila og þeirra sem bera ábyrgð á mikilvægum innviðum og þjónustu á svæðinu (Pallister o.fl. 2019). Það má segja að með breytingunni sem var gerð á kortinu frá og með 8. desember 2023 hafi verið tekið meira tillit til þarfa hagsmunaaðila en áður var gert. Með þessum breytingum varð auðveldara að nýta hættumatið til að meta áhættu ákveðinna svæða í framhaldi. Oft er erfitt að átta sig á muni á milli hættu og áhættu en skilgreiningar Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar eru:

Hætta (hazard):

a) Ógnandi atburður (almennt hugtak)

b) Líkur á því að náttúruhamfarir eða atburður sem getur valdið tjóni, eigi sér stað innan tiltekins tíma og á tilteknu svæði.

Áhætta (risk):

Það tjón sem ákveðin hætta veldur á ákveðnu svæði yfir ákveðið viðmiðunartímabil.

Munurinn á hættumati annars vegar og áhættumati hins vegar er í megindráttum sá að hættumat skilgreinir hverskonar hætta getur steðjað að, hvað getur valdið þeirri hættu og hverjar séu líkur á að hún raungerist. Áhættumat skilgreinir hvaða afleiðingar hætta eða alvarlegir atburðir geta haft í för með sér og greinir hvaða mótvægisaðgerðir séu best til þess fallnar að draga úr líkum og afleiðingum hættunnar eða atburðanna. 

Það er því mikilvægt að átta sig á því að hættumat Veðurstofunnar fyrir umbrota svæðið sýnir mat á hættu sem er til staðar ásamt því að gefa til kynna líkur á að hætta geti skapast með litlum fyrirvara (Mynd 3). Áhætta innan hvers svæðis væri metin sem samspil hættu, veikleika (t.d. innviðir, fólk) og varna (t.d. rýming, varnargarðar) innan tiltekins svæðis. Í þessu samhengi þýðir töluverð hætta innan svæðis ekki endilega að áhættan sé einnig töluverð, ef hægt er að fara í mótvægisaðgerðir sem koma í veg fyrir tjón, bæði á fólki og innviðum vegna tiltekinnar hættu.

Hættumatskort Veðurstofu Íslands er uppfært a.m.k. vikulega og gildir viku fram í tímann nema ef annað er tekið fram eða breyting verður á atburðarás. Sólarhringsvakt Veðurstofu Íslands fylgist náði með allri virkni umbrotasvæðisins. 


Haettusvaedi_VI_24juni_2024

Mynd 3: Hættumatskort Veðurstofu Íslands sem gefið var út 24. Júni 2024. Kortið sýnir mat á hættu sem er til staðar og gefur til kynna líkur á að hætta geti skapast með litlum fyrirvara. Litur svæða endurspeglar heildarhættu innan þeirra. Sú hætta sem metin er hærri en önnur innan svæða, er feitletruð í listanum á kortinu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica