Fréttir
Samklipp af viðvörunum í febrúar. Sex rauðar viðvaranir í sama mánuðinum er svolítið yfirdrifið.

Metfjöldi viðvarana í febrúar

Samspil lægðabrautar og viðvaranasinfóníunnar í febrúar

4.3.2022

Alls gaf Veðurstofan út 137 viðvaranir vegna veðurs í febrúar. Aldrei hafa verið gefnar út jafn  margar viðvaranir í febrúar frá því að viðvaranakerfið var tekið upp fyrir fimm árum. Rauðar viðvaranir í mánuðinum voru sex, jafn margar og veturinn 2019-2020, en þá dreifðust rauðu viðvaranirnar yfir fleiri spásvæði.  Flestar viðvaranir í febrúar voru gefnar út fyrir Vestfirði og Suðurland.

Vidvaranir_februar_2022_LandidAllt

Samanburður á fjölda viðvarana í febrúar. Viðvaranakerfið var tekið í notkun veturinn 2017. Viðvaranir voru alls 128 í febrúar 2018, en viðvörunarstig þeirra var lægra en í ár. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri)

Vidvaranir_februar_2022_Landsvaedi

Fjöldi viðvarana í febrúar 2022 brotinn upp eftir landsvæðum. Flestar viðvaranir eru fyrir þau spásvæði sem tilheyra vesturhluta landsins. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri)

Viðvörunarkerfið byggir að hluta til á mati á þeim áhrifum sem veður eru talin hafa á samfélagið.  Viðvaranirnar túlka því möguleg áhrif veðursins sem gengur yfir landið  og fjöldi viðvarana og viðvörunarstig þeirra er því mælikvarði á áhrif veðursins í tilteknum mánuði, en ekki endilega hversu slæmt veðrið var, þó svo að mjög sterk tengsl séu þar á milli.

„Febrúar hefur auðvitað verið illviðrasamur, sex rauðar viðvaranir í sama mánuðinum er svolítið yfirdrifið“, segir Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurs á Veðurstofu Íslands. „Þetta gerist á nokkra ára fresti, að við fáum svona samliggjandi janúar og febrúar, eða desember, janúar og febrúar, þar sem við erum á þessari lægðarbraut þar sem djúpar lægðir myndast og þá ganga þær yfir okkur á færibandi, lægðirnar,“ segir Elín.

Í þau skipti sem rauðar viðvaranir voru gefnar út í febrúar myndaðist veðrið af sömu ástæðu þar sem kalt heimskautaloft vestur við Grænland og hlýtt og rakt loft frá Mexíkóflóa mætast. „Úr því verður alveg kjörið lægðarfóður. Þegar að þessi kerfi eru sest svona þá eru þau gjarnan svolítið þaulsetin þannig það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að þetta gerist í þessari röð,“ segir Elín.

Vidvaranir_2017_2022__LandidAllt

Fjöldi viðvarana fyrir hvern vetur. Veturinn 2019-2020 var í fyrsta sinn gefin út rauð viðvörun. Hún var gefin út 10. desember fyrir Strandir og Norðurland vestra. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri)

Aðstæður í veðrakerfinu sem eru kjörið fóður fyrir lægðir

Á veturna myndast hringrás heimskautalofts yfir norðurpólnum. Í háloftunum dreifist þetta kalda loft síðan um norðurhvelið með stórum bylgjum sem ganga í nokkrum sveigjum suður frá pólnum. Þegar bylgja með þessu kalda lofti á leið suður um Labrador haf, mætir það loft hlýjum loftmassa langt úr suðri.  Við þennan árekstur myndast lægðir sem oft dýpka hratt, og eftir því sem mismunurinn á hlýja loftinu úr suðri og því kalda úr norðri er meiri því dýpri og kröftugri geta lægðirnar orðið. Þær hreyfst síðan með háloftastraumum til norðausturs, þar sem Ísland verður fyrir þeim.

Februar2022_500hPa

Hreyfimynd sem sýnir hitastig (litir) og hæð 500 hPa þrýstiflatar (svartar línur) á norðurhveli. Ísland er nokkrun veginn fyrir miðju myndar. Fjólublátt og blátt sýnir kaldasta loftið á meðan rauðir sýna hlýrri loftmassa. Þegar hæðarlínurnar skera hitafletina frekar en að vera samsíða þeim verður hröð lægðamyndun. '

Februar2022_Laegdir

Hreyfimynd sem sýnir hreyfingu yfirborðslægða og ásamt úrkomu í mm. Lægðarmyndun skammt suður af Grænlandi sést vel, og eins hreyfing lægðanna til norðausturs  yfir Ísland.

Er þetta dæmi um áhrif loftslagsbreytinga?

Enn sem komið er, er erfitt að meta fótspor loftslagsbreytinga á ákveðin veður, eða jafnvel ákveðnar óveðrasyrpur. Tímabil óveðra líkt því sem hefur gengið yfir það sem af er ári hafa verið regluleg í gegnum tíðina, og munar þá mestu um legu landsins við meginskilin og öflug svæði lægðarmyndunar suður af landinu. Allar sviðsmyndir loftslagsbreytinga gera hinsvegar ráð fyrir aukningu aftaka veðurs, og afleiddar vár s.s. sjávarflóð og úrkomumagn aukast eftir því sem sjávarborð hækkar og úrkomumætti veðurkerfa eykst með hlýnandi andrúmslofti og meiri raka.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica