Fréttir

Metfjöldi viðvarana að sumarlagi

8.9.2022

Frá því að nýtt viðvörunarkerfi var tekið í notkun á Veðurstofu Íslands hafa aldrei verið gefnar út jafn margar viðvaranir að sumarlagi og í ár eða 50 talsins. Af þeim voru flestar gefnar út vegna vindhraða eða 32. Viðvaranir vegna mikillar rigningar voru 15 en þrjár viðvaranir voru gefnar út vegna snjókomu. Sumarið fór vel af stað og voru einungis 5 viðvaranir gefnar út í júní og voru þær allar vegna vinds.

Júlí mánuður var aftur á móti viðburðaríkari eða umhleypingarsamari með 27 útgefnum viðvörunum, 19 vegna vinds en 8 vegna rigningar eða snjókomu. Veðrið var heldur rólegra í ágúst en þá voru 18 viðvaranir gefnar út, meirihluti þeirra eða 10 voru vegna rigningar. Engin viðvörun var gefin út fyrir höfuðborgarsvæðið í sumar, en annars dreifðust þær nokkuð jafnt milli spásvæða. Flestar viðvaranir voru gefnar út fyrir Suðurland (7), en fæstar fyrir Breiðafjörð (2).


Sumarauki, en tími haustlægðanna er að renna upp

Haustið fer vel af stað með dálitlum sumarauka, en það segir þó ekkert til með framhaldið og því rétt að byrja að ganga frá sumarhúsgögnum, trampolínum og öðru því sem getur fokið áður en fyrstu haustlægðirnar mæta.


Gular viðvaranir vegna vinds gefnar út 16. júní í sumar fyrir þrjú spásvæði, Suðurland, Suðausturland og Austfirði. Flestar viðvaranir í sumar voru gefnar út fyrir Suðurland.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica