Fréttir
Svinadalur
Vatn fór yfir veginn í Svínadal í Dölum. (Skjáskot af myndbandi á Facebook/Ólöf Inga Guðbjörnsdóttir)

Mesta sólarhringsúrkoma sem mælst hefur á landsvísu í júlímánuði mældist í Grundarfirði

Samantekt á atburðum í vatnsveðrinu á Vesturlandi helgina 13.-14. júlí

18.7.2024

Um liðna helgi, 13.-14. júlí, var mikið vatnsveður á Vesturlandi. Gul viðvörun var í gildi vegna úrkomu og vinds á Faxaflóa og í Breiðafirði, og var að sama skapi varað við vatnavöxtum og skriðuhættu.

Spár rættust og varð það svo að mikil úrkoma var á Snæfellsnesi og Barðaströnd um liðna helgi. Mesta ákefðin var á laugardeginum og aðfaranótt sunnudags. Í Grundarfirði mældist mesta úrkoman, þ.e. 227 mm af regni sem er mesta úrkoma sem mæld hefur verið á einum sólarhring í Grundarfirði og jafnframt mesta sólarhringsúrkoma sem mæld hefur verið í júlímánuði á landsvísu. 

Áhugavert er að þó að úrkomumet hafi verið slegið var ekki mikið um skriðuföll á svæðinu umhverfis Grundarfjörð. Svo virðist sem að þetta svæði sé móttækilegra fyrir aftakaúrkomu en önnur, en samverkandi áhrif jarðfræðilegra- og landslagsaðstæðna gera það að verkum að skriðuhætta ógnar ekki byggð. Áður hefur verið aftakaúrkoma á Grundarfirði, t.d. í miklu vatnsveðri í september 2011, þá féllu engar skriður nærri bænum.

Í veðrinu um liðna helgi voru þó miklir vatnavextir og ein skriða féll sunnan við Grundarfjörð. Vatn flæddi yfir vegi beggja vegna bæjarins, úr farvegi Ytri-Búðarár sem er vestan við bæinn og Grundarár austan hans.

Miklir vatnavextir voru víðar á Vesturlandi. Á Skarðsströnd óx Staðarhólsá í Staðarhólsdal mikið. Í Gufudal voru vatnavextir eins og þeir gerast mestir að sögn heimamanna og óx Gufudalsvatn um 1,5 metra og vatn flæddi yfir tún. Aðrar ár sem uxu mikið eru Vatnsdalsá í Vatnsfirði á Barðaströnd og Haffjarðará á Snæfellsnesi.


Skriðuvakt Veðurstofunnar hefur fengið fregnir af skriðum á Skarðsströnd, Barðaströnd, Snæfellsnesi og í Hítardal. Hér sést skriðan í Hítardal á gervitunglamynd. (Mynd: Copernicus Sentinel)

Sjá nánar á bloggi skriðuvaktar Veðurstofu Íslands

Stadsetning_uppfaert_18_07_24-1

Staðsetning skriða sem fregnir hafa borist af.

Skrida-hafursfellEkki er útilokað að fleiri skriður hafi fallið í vatnsveðrinu og því er búist við því að fleiri tilkynningar berist þegar skyggni er orðið betra. Allar ábendingar um skriður eru vel þegnar en Veðurstofan heldur utan um skráningar á skriðuföllum í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Það er hægt að hafa samband í síma 522-6000 eða nota skráningarform á vef Veðurstofunnar sem finna má undir „Tilkynna snjóflóð“ bæði á snjóflóðaforsíðu og eins undir Ofanflóð (listi t.v.) en þetta vefform dugar jafnt til skráninga á skriðuföllum og snjóflóðum.




Ljósmynd af skriðu undir Hafursfelli á Snæfellsnesi sem Guðmundur Rúnar Svansson sendi skriðuvaktinni.



Skriður sem féllu við bæinn Skjaldvararfoss á Barðaströnd (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands)



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica