Fréttir
Skjáskot
Snjóflóðamat, skjáskot

Mat á snjóflóðaaðstæðum til fjalla

6.2.2017

Í kjölfar slyss sem varð í Esju um helgina hefur verið fjallað um mat Veðurstofunnar á snjóflóðaaðstæðum til fjalla. Spurt er af hverju Veðurstofan meti ekki aðstæður og spái fyrir um snjóflóðahættu á fleiri stöðum en nú er gert, t.d. fyrir nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem flestir búa og margir eru á ferð í fjalllendi.

Veðurstofan hefur það hlutverk að vakta snjóflóðaaðstæður fyrir byggð og fyrirskipa rýmingu húsnæðis ef tilefni er til. Snjóathugunarmenn starfa í þeim tilgangi á hennar vegum á svæðum þar sem hætta í byggð er talin umtalsverð. Þetta eru norðan- og sunnanverðir Vestfirðir, Mið-Norðurland, Austfirðir og einnig Vík í Mýrdal og Ólafsvík.

Harpa Grímsdóttir

Harpa Grímsdóttir, hópstjóri ofanflóðavöktunar.

Fyrir nokkrum árum hóf snjóflóðavakt Veðurstofunnar að gefa út mat á aðstæðum til fjalla á þeim stöðum þar sem snjóathugunarmenn starfa og mest er tiltækt af gögnum, en það er á norðanverðum Vestfjörðum, utanverðurðum Tröllaskaga og Austfjörðum. Þetta var gert í tilraunaskyni í tengslum við þróunarverkefni sem þá var unnið að á Veðurstofunni og nær einungis til þessara þriggja svæða á landinu. Veðurstofan leggur enn sem komið er ekki svæðisbundið mat á snjóaðstæður til fjalla fyrir ferðafólk annars staðar á landinu. Á sama tíma var farið að deila gögnum um snjóflóð og snjóaðstæður fyrir allt landið um leið og þau berast til snjóflóðavaktarinnar.

Mati á snjóflóðaaðstæðum hefur verið vel tekið og fjallafólk notar það töluvert. Í skoðun er að þróa matið áfram og bæta við upplýsingum um nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þar starfar enn sem komið er ekki snjóathugunarmaður og þarf að bæta úr því áður en af þessu verður. Rétt er að taka fram að almenningur er hvattur til þess að skila inn upplýsingum um snjóflóð og snjóalög til Veðurstofunnar til þess að hægt sé að deila þeim til sem flestra.

Ljóst er að formlegar snjóflóðaspár eða mat á aðstæðum til fjalla geta ekki útilokað snjóflóðaslys. Það stafar m.a. af því að slíkar spár eru ekki nákvæmar en ná yfir stór svæði og breytileiki innan hvers svæðis getur verið mikill. Því er nauðsynlegt að undirstrika að þar sem saman fer brattlendi og snjór getur alltaf verið hætta á snjóflóðum, jafnvel þegar snjóflóðahætta er ekki víðtæk eða veik lög í snjóþekjunni sem koma fram í athugunum. Mikilvægt er að þeir sem ferðast um fjalllendi að vetrarlagi hafi þekkingu á þeim hættum sem því fylgir, meti aðstæður þar sem ferðast er, sýni aðgæslu í leiðavali og séu rétt útbúnir, meðal annars með ýla, skóflu og snjóflóðaleitarstöng.

Mat á snjóflóðahættu er birt  á vef Veðurstofunnar og uppfært reglulega eftir þörfum.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica