Fréttir
Eldgos08042024BO
Virknin í gígnum eins og hún var 8. apríl.

Mánuður liðinn frá upphafi fjórða eldgossins á Sundhnúksgígaröðinni

Næst lengsta gosið á Reykjanesskaga síðan 2021

16.4.2024

Í dag er liðinn einn mánuður frá upphafi eldgossins sem nú er í gangi á Sundhnúksgígaröðinni. Eldgosið, sem hófst að kvöldi 16. mars, er það fjórða frá því að kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023.

Fyrirvari þessa eldgoss var stuttur, en smáskjálftahrina hófst um kl. 19:30 og ákafi hennar jókst um kl. 19:40 og GPS mælar sýndu í kjölfarið aflögunarmerki sem benti til þess að kvikuhlaup væri hafið í Sundhnúksgígaröðinni. Gossprungan sem opnaðist kl. 20:23 var tæplega 3 km löng og náði frá Stóra-Skógfelli að Sundhnúk.    

Í upphafi gossins flæddi hraun mestmegnis til suðurs og suðausturs, meðfram varnargörðum í átt að Suðurstrandarvegi, og til norðvesturs í átt að Grindavíkurvegi. Um það bil fjórum klukkustundum eftir að gos hófst rann hraun yfir Grindavíkurveg skammt norðan við Svartsengi. Hraði hrauntungunnar, sem fór til suðurs meðfram varnargörðum, eins og hann var metinn úr eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar var um 1 km á klst.

LHG_BO_2140_2

Gosmökkurinn berst yfir Svartsengi. Mynd tekin í fyrsta eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar yfir gosstöðvarnar 16. mars. (Ljósmynd: Almannavarnir/Björn Oddsson)

Óttast var að ef krafturinn í gosinu héldist óbreyttur væri hætta á að hraun næði til sjávar rétt austan Þórkötlustaðahverfisins í Grindavík. Ef hraun næði til sjávar gæti það valdið staðbundinni hættu vegna sprenginga og gasmengunar, fyrst og fremst saltsýra (HCl). Hrauntungan stöðvaðist hins vegar um 250 m frá Suðurstrandarvegi og hefur engin framrás verið þar síðan.

Hraunjadar_Sudurstrond_17032023_1300

Grannt var fylgst með framrás hraunsins í átt að Suðurstrandavegi vegna þess möguleika að hraun renni yfir Suðurstrandarveg og jafnvel til sjávar. Ljósmynd tekin 17. mars.

Eftir því sem leið á nóttina dró úr virkninni á gossprungunni og virknin færðist yfir á þrjá staði á gossprungunni. Þessi þróun í upphafi gossins svipaði mjög til fyrri gosa á Sundhnúksgígaröðinni en síðan skar þetta gos sig úr þegar leið á vegna þess að mun hægar dró úr gosinu. Á ellefta degi gossins voru enn þrír gígar virkir, en svo slökknaði í gígunum hverjum á fætur öðrum, þangað til 5. apríl að einn stóð virkur eftir sem gýs enn. Sá gígur er skammt austan við Sundhnúk, syðst á gossprungunni sem opnaðist að kvöldi 16. mars.

Gos12042024

Mynd sem tekin var á miðvikudaginn, 10. apríl, sem sýnir virka gíginn eins og hann sést frá Sundhnúk. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Jón Bjarni Friðriksson)

Næst lengsta gosið á Reykjanesskaga síðan 2021

Eldgosið nú hefur staðið lengst allra eldgosanna á Sundhnúksgígaröðinni í þessari hrinu eldgosa og næstlengst þeirra gosa sem hafa orðið á Reykjanesskaga síðan 2021. Einungis fyrsta eldgosið í Fagradalsfjalli sem hófst í mars 2021 er lengra, en það stóð yfir í um 6 mánuði. Eldgosið Merardölum í ágúst 2022 yfir í 18 daga, en gosið við Litla-Hrút í júlí 2023 í 26 daga. Fyrri eldgosin þrjú á Sundhnúksgígaröðinni voru skammlíf en meðfylgjandi tafla sýnir ítarlegri upplýsingar um þau.

Eldgos Dags.

Lengd

(dagar)

Flatarmál

(km2)

Rúmmál

(milljón m3)

Sundhnúksgígar I 18. - 21. des  ~2,5 3,4 12,8±0,7
Hagafell 14. - 16. jan ~ 2 0,71 2,5±0,2
Sundhnúksgígar II 8. - 9. feb ~ 1 4,03 11,4±1,8
Sundhnúksgígar III 16. mars - óvíst >30

6,14

(8. april)

31,3±2,4

(8. april)

Tölur um flatarmál og rúmmál eru fengnar úr loftmyndaflugum sem sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands sjá um.

Lava_time_series

Hreyfimyndin sýnir þær fjórar hraunbreiður sem myndast hafa síðan í desember 2023. Það er í eldgosunum 18. - 21. desember 2023, 14.-16. janúar 2024, 8.-9. febrúar 2024 og því sem nú hefur staðið frá 16. mars. Hraunbreiðan sem myndast hefur í yfirstandandi gosi þekur um 6,14 km2 m.v. mælingar sem framkvæmdar voru 8. apríl.

Kvikustreymi_1

Eftir því sem leið á gosið sást að landris hafði hægt verulega á sér og nánast stöðvast, sem gaf til kynna að jafnvægi væri á innstreymi kviku í kvikuhólfið og útstreymi kviku upp á yfirborð, eins og myndin hér að ofan sýnir. 

Kvikustreymi_2

Í byrjun apríl fór landris að aukast aftur og er nú um það bil jafn stór hluti kvikunnar að flæða upp á yfirborð og er að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi með tilheyrandi auknum kvikuþrýstingi.

Ný staða að sjá skýrt merki um landris í Svartsengi á sama tíma og gýs á Sundhnúksgígaröðinni

Áður hefur atburðarrásinni á Sundhnúksgígaröðinni verið líkt við atburðarrásina sem varð í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi. Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang en voru mismikil að umfangi. Eldgosin urðu hins vegar ekki með því reglulega millibilli sem við höfum séð á Sundhnúksgígaröðinni og í raun er það mjög óvenjulegt hversu takföst virknin hefur verið hingað til, að gosið hefur með hér um bil mánaðar millibili frá 18. desember 2023.

Frá desember 2023 var óvenju takföst röð atburða á Sundhnúksgígaröðinni, með endurteknum kvikuhlaupum og eldgosum í kjölfarið. Sá taktur var rofinn með kvikuhlaupinu 2. mars, sem endaði ekki með eldgosi, og svo nú með þessu gosi sem varað hefur lengur en fyrri gos. Stóra spurningin er hins vegar sú hvenær kvikusöfnun undir Svartsengi hættir og þar með endurtekin kvikuhlaup og eldgos á svæðinu.

Ekki er hægt að draga einhverjar ályktanir um framhald jarðhræringanna út frá lengd þessa eldgoss. Engar vísbendingar eru um að það sé að draga úr kvikuflæði frá dýpi sem keyrir áfram þá atburðarás sem hefur verið í gangi síðustu mánuði. Einnig er mikilvægt að horfa til þess að á árunum 2020 til 2022 voru fjögur tímabil, með mislöngum hléum, þar sem kvikusöfnun mældist undir Svartsengi. Tæpir 17 mánuðir liðu síðan áður en kvikusöfnun, sem stendur enn yfir, hófst að nýju í lok október 2023.  

Sú staða sem er uppi núna er ný, þar sem eldgos er í gangi á Sundhnúksgígaröðinni og land rís í Svartsengi á sama tíma. Það mikilvægasta í stöðunni nú er hið sama og áður, að vakta svæðið og bregðast rétt við þeim breytingum sem verða í virkninni hverju sinni til að koma í veg fyrir frekara tjón og að fólk sé í hættu vegna umbrotanna.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica