Fréttir
jökulhlaup-dólómítafjöllum
Marmolada jökull í ítölsku Ölpunum eftir jökulhlaupið þann 3. júlí 2022. Pierry Teyssot / AFP

Mannskaði í óvenjulegu jökulhlaupi í Dólómítafjöllum á Ítalíu

6.7.2022

Sunnudaginn 3. júlí féll jökulhlaup úr Marmolada jökli í Dólómítafjöllum í ítölsku Ölpunum. Hlaupið, sem í fréttum er ýmist nefnt snjóflóð, skriðufall eða vatnsflóð, virðist hafa átt upptök þar sem leysingarvatn safnaðist fyrir undir jöklinum. Vatnið gerði það að verkum að jökullinn varð óstöðugur og leiddi til þess að fremsti hluti sporðsins brast og steyptist niður bratta hlíðina ásamt vatninu, sem og grjóti og aur sem hlaupið hreif með sér. Af myndböndum að dæma var stór hluti hlaupsins vatn, þannig að eðlilegast er að líta svo á að um jökulhlaup hafi verið að ræða. Vinsæl gönguleið liggur um hlíðina neðan við jöklulinn og fórust a.m.k. sjö göngumenn í hlaupinu og þrettán er enn saknað. Nokkrir ferðalangar til viðbótar, sem staddir voru nærri farvegi hlaupsins, sluppu naumlega.

Hlaup úr jaðarlónum eða lónum sem stíflast upp við jökulbotn í bröttum fjöllum, geta verið mjög hættuleg. Mannskætt hlaup úr Tête Rousse jökli í frönsku Ölpunum árið 1892 féll á þorpið Saint-Gervais-les-Bains og fórust þar 175 manns. Í fréttum um jökulhlaupið í Dólómítafjöllum á Ítalíu hefur verið nefnt að aukin leysing vegna hlýrra loftslags sé mikilvægur þáttur í aðdraganda hlaupsins. Aukin hlýindi í fjöllum eru talin leiða til vaxandi óstöðugleika sífrera og jökla í miklum bratta og er þess að vænta að skriðuföll og hlaup séu að verða algengari af þessum sökum víða um heim.

Hætta getur stafað af ískriðum úr jöklum í bröttu fjalllendi án þess að vatn komi þar við sögu og eru mörg dæmi um það í Ölpunum, Himalayafjöllum og víðar að hluti sporða verði óstöðugur og losni frá meginjöklinum sem eins konar skriða. Slík skriðuföll eru stundum nefnd „jökulíshlaup“ á íslensku. Nokkuð stórt hlaup af þessum toga féll úr jökli norðan í fjallstindi milli Lambatinds og Gagnheiðarhnjúks á Fáskrúðsfirði árið 1927. Það féll langa leið og stíflaði Dalsá og barst aur og íshröngl niður fyrir bæinn Dali sem er um fjóra km neðan hlaupstaðarins. Hlaup þetta olli engu tjóni. Ekki er vitað um mörg önnur dæmi hlaupa af þessum toga hér á landi enda ekki margir jöklar í svo miklum bratta að jökulíshlaupa sé að vænta.

Eldgos undir jökli geta valdið vatnssöfnun við jökulbotn og leitt til óstöðugleika í jöklinum og mjög hættulegra hlaupa sem eru blanda af vatni, ís, gosefnum og lausum jarðefnum úr farvegi hlaupsins. Frægust slíkra hlaupa hér á landi eru hlaup úr Öræfajökli í tengslum við eldgosin 1362 og 1727, en þá greina sögulegar heimildir frá því að stór hluti jökulsins hafi steypst niður á láglendið við fjallsræturnar og eru ummerki um þessar hamfarir greinileg á mörgum stöðum undir Öræfajökli.

Í tengslum við loftslagsbreytingar af mannavöldum hefur á síðari árum athygli beinst að vaxandi hættu af völdum jökulhlaupa úr jarðarlónum við hörfandi jökulsporða í Himalayafjöllum. Þúsundir slíkra lóna hafa verið kortlögð og þau geta valdið hlaupum sem berast tugi og jafnvel yfir hundrað km niður þrönga dali þar sem þorp og bæir standa í dalbotninum. Árið 2013 varð mannskætt slys í þorpinum Kedarnath á Indlandi af völdum slíks hlaups þar sem yfir 6000 manns fórust. Jökulhlaup í Himalayafjöllum hafa einnig valdið miklu tjóni á margs konar innviðum, m.a. vatnsaflsvirkjunum, vegum og brúm. Áframhaldandi hörfun jökla samfara auknum hlýindum mun vafalaust auka hættu af völdum jökulhlaupa af þessum toga í Himalayafjöllum og víðar. Við Íslendingar þurfum að fylgjast vel með breytingum á jökulhlaupahættu hér á landi af þessum sökum vegna þess að jökullón myndast nú víða á nýjum stöðum og aðstæður breytast við jökuljaðra vegna hörfunar jökla.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica