Fréttir

Losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu hefur aukist seinasta áratug

Hægt hefur á aukningunni síðustu ár að hluta til vegna aðgerða stjórnvalda.

5.4.2022

Í gær, 4. apríl, kom út skýrsla vinnuhóps 3 í sjöttu matskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Skýrsla vinnuhóps 3 fjallar um mótvægisaðgerðir vegna  loftslagsbreytinga.  Í þeim hluta skýrslunnar sem kemur nú út er lagt mat á stöðu þekkingar á mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga og horft sérstaklega til vísinda og tækni, auk umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra þátta sem varða samdrátt í losun og bindingu kolefnis. Hér að neðan eru tekin saman nokkur af helstu atriðum skýrslunnar í samvinnu við fulltrúa Íslands á samþykktarþingi vinnuhópsins.

  • Losun gróðurhúsalofttegunda  á heimsvísu hefur aukist seinasta áratug en hægt hefur á aukningunni síðustu ár að hluta til vegna aðgerða stjórnvalda

Losun gróðurhúsalofttegunda  á heimsvísu hefur haldið áfram að aukast seinasta áratug  í öllum flokkum losunar og hefur aldrei verið eins há. Síðasta áratug hefur þó dregið úr aukningunni m.a. vegna aðgerða stjórnvalda. Í skýrslunni kemur fram, að ef horft er á samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda sem hlutfall af orkunotkun og sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, hefur samdrátturinn ekki dugað til að vega upp á móti vaxandi umsvifum á heimsvísu í iðnaði, orkuöflun, samgöngum, byggingum, landbúnaði og breytingum á landnotkun svo sem vegna þéttbýlismyndunar. Einnig er ljóst að losun frá borgum sem hlutfall af heild hefur aukist. 

Framlög ríkja duga ekki til að ná markmiðum Parísarsáttmálans

  • Stefnur ríkja sem eiga aðild að Parísarsáttmálanum benda til samdráttar í losun á heimsvísu, en framlög ríkjanna (e. NDC) til ársins 2030 duga ekki til. Framlögin ná ekki að takmarka hlýnun við 1,5 °C og eigi að takast að halda hlýnun jarðar innan við 2 °C þarf árangur mótvægisaðgerða að aukast verulega.

Þær losunarspár sem miða við að við náum að takmarka hlýnun við 1,5 °C, eða eru líklegar til að takmarka hlýnun við 2 °C gera ráð fyrir að  heimslosun nái hámarki fyrir árið 2025 og að hraður og djúpur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fylgi næstu tvo áratuga á eftir. Verði núverandi landsframlög ríkja (NDC) ekki aukin enn frekar er því spáð að losun gróðurhúsalofttegunda muni aukast, sem leiða mun  til hlýnunar milli 2,4°C og 3,5°C fyrir 2100.

  • Til takmarka hlýnun við 1,5°C eða auka líkur á að það takist að takmarka hlýnun  við 2°C, þarf að draga mikið úr losun allra gróðurhúsalofttegunda alls staðar og í öllum geirum samfélagsins.

SPM4-einfold-NY

IPCC_AR6_WGIII_PressConferenceSlidesMYND
Gert er ráð fyrir að hnattræn losun gróðurhúsalofttegunda nái hámarki 2025, en í þeim leiðum sem takmarka hlýnun við 1,5 °C er gert ráð fyrir samdrætti í losun um 43% fyrir 2030 og samdrætti metans sér í lagi um 34% fyrir 2030. En þær leiðir sem takmarkast við hlýnun um 2°C gera ráð fyrir samdrætti í losun um 27% fyrir 2030.

  • Ef takast á að ná nettó núlllosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og á landsvísu, verður að fjarlægja koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Magn þess koldíoxíðs sem þarf að fjarlægja fer  þó eftir því hversu vel gengur að draga úr losun

Þær losunarspár sem miða við að hlýnun jarðar takmarkist við 1,5 °C, eða eru líklegar til að takmarka hlýnun við 2 °C gera ráð fyrir að  heimslosun nái hámarki á milli áranna 2020 og í seinasta lagi fyrir árið 2025 og að hraður og djúpur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda fylgi næstu tvo áratuga á eftir. Ef aðgerðir stjórnvalda verða ekki hertar umfram þær sem hafa verið innleiddar fyrir árið 2020 er útlit fyrir að losun gróðurhúsalofttegunda aukist eftir 2025 sem leiða mun til þess að hlýnun aukist um ca. 3,2 °C (2,2-3,5) árið 2100.


Hitastigið mun ná stöðugleika þegar nettó núlllosun CO2 er náð. Byggt a mynd frá blaðamannafundi IPCC.

Til að takmarka hlýnun við 1,5°C í samræmi við markmið Parísarsamningsins, þarf að ná nettó losun koldíoxíðs (CO2) á heimsvísu niður í núll sem næst árinu 2050 og minnka losun annarra gróðurhúsalofttegunda mikið. Hámark hlýnunar fer eftir uppsafnaðri CO2 losun fram að því að nettó núlli er náð og áhrifa annarra gróðurhúsalofttegunda en CO2 á sama tíma. 

Til  takmarka hlýnun við 1,5°C eða auka líkur á að það takist að takmarka hlýnun  við 2°C,  þarf m.a. að:

Umbreyta orkukerfum þar sem dregið er úr notkun jarðefnaeldsneytis með orkuskiptum með áherslu á aukna rafvæðingu og rafeldsneyti, aukinni skilvirkni orkunotkunar og samdrætti í eftirspurn;

Draga úr losun frá iðnaði með aukinni skilvirkni í notkun efna og orku, aukinni hringrásarhugsun, rafvæðingu og notkun lágkolefna efna og orku.  Lögð er áhersla á að föngun og binding kolefnis er nauðsynleg til að ná tilætluðum árangri;

Draga úr losun vegna bygginga með aukinni notkun loftslagsvænna byggingarefna og samdrætti í notkun efna og orku á öllum stigum lífsferlis bygginga;

Draga úr losun frá samgöngum með breytingum á samgönguhegðan, rafvæðingu samgangna á landi, og notkun græns rafeldsneytis, svo sem vetnis og afleiða þess auk tilbúins eldsneytis og lífeldsneytis í þungaflutningum á landi sem og í samgöngum á sjó og í lofti. Rafvæðing styttri samgangna á sjó og í lofti er möguleg, en rafvæðing hafna og flugvalla er mikilvæg;

Draga úr losun frá landbúnaði og landnotkun með samdrætti vegna framleiðslu sem og breytinga á neysluhegðan og samdrætti í sóun matvæla, skógrækt og endurheimt vistkerfa;

Notkun föngunar og förgunar koldíoxíðs.  Að auki við að safna og farga koldíoxíði frá iðnaði verður að fjarlægja koldíoxíð úr andrúmsloftinu ef takast á að ná nettó núlllosun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Magn þess koldíoxíðs sem þarf að fjarlægja fer þó eftir því hversu vel gengur að draga úr losun.

Nauðsynlegt að hraða mótvægisaðgerðum

  • Hægt er að ná umtalsverðum samdrætti með núverandi tækni ásamt kerfisbreytingu og breytingum í hegðun, en áframhaldandi tækniþróun er mikilvæg.  Sértök áhersla er lögð á rafvæðingu samgangna á landi, og notkun líf-, raf- og tilbúins eldsneytis í þungaflutningum á sjó og í lofti, rafvæðingu iðnaðar og aukinni notkun lágkolefnis efna og orku auk föngunar og förgunar koltvísýrings.

Nauðsynlegt er að hraða mótvægisaðgerðum til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis til að stuðla að því að þróunarmarkmið náist en framgangur margra heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna hefur sterka tengingu við það hvernig til tekst að draga úr hlýnun. Í öllum geirum og á öllum svæðum er það fjármagn sem veitt er til mótvægisaðgerða ekki nægilegt til að ná markmiðum um samdrátt í losun og aukinni kolefnisbindingu en breiðast er bilið í þróunarlöndum. Í skýrslunni er talað um að alþjóðasamstarf sé nauðsynlegt til að metnaðarfull markmið til að draga úr loftslagsbreytingum náist.

Í mati nefndarinnar er lagt mat á stöðu þekkingar á mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga og horft sérstaklega til vísinda og tækni. Hægt er að ná umtalsverðum samdrætti með núverandi tækni ásamt kerfisbreytingu og breytingum í hegðun, en áframhaldandi tækniþróun er mikilvæg.  Sértök áhersla er lögð á rafvæðingu samgangna á landi, og notkun líf-, raf- og tilbúins eldsneytis í þungaflutningum á sjó og í lofti, rafvæðingu iðnaðar og aukinni notkun lágkolefnis efna og orku auk föngunar og förgunar koltvísýrings.

Í skýrslu milliríkjanefndarinnar er tekið fram að mörg stjórntæki hins opinbera, svo sem reglugerðir og hagræn stjórntæki (t.d. kolefnisgjöld) hafa nú þegar leitt til samdráttar í losun. Aukið umfang og notkun þessarra stjórntækja geta ýtt undir enn frekari samdrátt í losun.  Samræmdar aðgerðir og aðgerðapakkar hafa reynst skilvirkari en einstaka aðgerðir og samlegðaráhrif eru á milli notkunar á hagrænum stjórntækjum og reglugerðum.

Mikilvægt er að beita bæði regluverki og hagrænum stjórntækjum, svo sem kolefnisgjöldum, til að hvetja til mótvægisaðgerða við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis. Mótvægisaðgerðir og stefnumörkun þeirra er áhrifaríkust þegar hún liggur þvert á aðra stefnumörkun. Skilvirk stefnumörkun og innleiðing byggir á þátttöku og samvinnu fjölbreyttra aðila svo sem borga, almennings, fyrirtækja og fjármálageirans.

  • Kostnaður við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu mun lítillega draga úr hagvexti en þegar fjölbreyttur ávinningur mótvægisaðgerða er tekinn til greina er líklegt að efnahagslegur ávinningur verði af aðgerðum.

Kostnaður við að nýta ýmiss konar lágkolefnistækni hefur lækkað síðan árið 2010 og hraðað hefur á innleiðingu slíkrar tækni. Nýsköpunarstefna sumra ríkja hefur stutt við alþjóðlega  upptöku nýrrar tækni og lækkun kostnaðar. Þörf er alls staðar á auknu flæði fjármagns til að ná markmiðum ríkja.  Mest er þörfin í þróunarlöndum. Parísarsáttmálinn hvetur til aukins metnaðar þjóða þó svo að enn vanti uppá tækniþróun- og innleiðingu og flæði fjármagns.

  • Tengsl eru á milli mótvægisaðgerða og aðgerða til aðlögunar að loftslagsbreytingum.  Sumar aðgerðir skila bæði árangri fyrir samdrátt í losun og aðlögun, þá sérstaklega aðgerðir sem tengjast byggðu umhverfi og landnotkun. 

Í þessari skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðannar sem fjallar fyrst og fremst um mótvægisaðgerðir og þá þætti sem varða samdrátt í losun og bindingu kolefnis, þá er einnig talað um það í skýrslunni að tengsl séu á milli mótvægisaðgerða og aðgerða til aðlögunar að loftslagsbreytingum. Sumar aðgerðir skila bæði árangri fyrir samdrátt í losun og aðlögun, þá sérstaklega aðgerðir sem tengjast byggðu umhverfi og landnotkun. 

Með aðlögun að loftslagsbreytingum er átt við aðgerðir til þess að undirbúa okkur fyrir bæði núverandi áhrifum loftslagsbreytinga og þeim sem spáð er fyrir um áhrif  í framtíðinni.  Aðlögunaraðgerðir fela í sér þá vinnu sem fer í að undirbúa samfélög, fólk, kerfi og náttúru undir áhrif loftslagsbreytinga með það að leiðarljósi að lágmarka tjón vegna afleiðinga þeirra, sé þess kostur, í að nýta tækifæri sem breytingarnar hafa í för með sér. Með öðrum orðum þá eru aðlögunaraðgerðir aðgerðir sem auka loftslagsþol samfélaga og gera okkur undurbúin fyrir breyttan heim. Mikilvægt er að líta á áhrif mótvægiaðgerða á loftslagsþol og sömuleiðis áhrif aðlögunaraðgerða á kolefnisspor eða bindingu kolefnis. Best er þegar við náum samlegðaráhrifum og aðgerðirnar stuðla bæði að auknu loftslagsþoli samfélags og minnka magn kolefnis í andrúmsloft á sama tíma.

Hér má finna umfjöllun um skýrslu milliríkjanefndarinnar þar sem nánar er fjallað um þá þætti sem snúa að aðlögun að áhrifum loftslagsbreytinga.

Í skýrslunni er einnig talað um að samlegðaráhrif séu á milli mótvægisaðgerða og sjálfbærrar þróunar, en mikilvægt er að meta og vinna gegn mögulegum neikvæðum áhrifum mótvægisaðgerða á náttúru og umhverfi t.d. á lífræðilegan fjölbreytileika og samfélag t.d. á þá tekjulægri í samfélaginu.

Mótvægisaðgerðir munu hafa afleiðingar á jöfnuð svo sem vegna áhrifa á uppbyggingu hagkerfa og atvinnu.  Áhersla á réttlát umskipti, jöfnuð og breiða þátttöku hagsmunaaðila í ákvarðanatöku getur byggt upp traust og dýpkað og aukið stuðning við kerfislægar umbreytingar.

Val mótvægisaðgerða og þróun mun hafa afleiðingar svo sem  breytingar á atvinnu- og hagskipan. Áhersla á jöfnuð og breið þátttaka hagsmunaaðila í ákvarðanatöku getur byggt upp traust og dýpkað og aukið stuðning á kerfislægum umbreytingum. Séu mótvægisaðgerðir felldar inn í víðara þróunarsamhengi geta þær aukið hraða, dýpt og breidd samdráttar í losun.

Hlekkur á umfjöllun um skýrsluna á vefsíðu IPCC

Nánar um IPCC

Á vegum Sameinuðu þjóðanna starfar vísindanefnd sem fjallar um loftslagsbreytingar. Á ensku heitir nefndin Intergovernmental Panel on Climate Change, sem er skammstafað IPCC, en á íslensku er nefndin kölluð Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Úttektir nefndarinnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til þess að sporna við þessum breytingum.

Úttektir milliríkjanefndarinnar eru gerðar á opinn og gagnsæjan hátt. IPCC stundar hvorki rannsóknir né eftirlit með veðurfari, heldur eru samantektir nefndarinnar að megninu til byggðar á faglegri ritrýni og á greinum sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum.

Úttektir nefndarinnar eru unnar af þremur mismunandi vinnuhópum. Vinnuhópur 1 (WG1) fjallar um jarð- og náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á veðurfari og loftslagsbreytingum. Vinnuhópur 2 (WG2) leggur mat á tjónnæmi (e. vulnerability) félags-, efnahags- og náttúrulegra kerfa, neikvæðar og jákvæðar afleiðingar loftslagsbreytinga og möguleika á aðlögun. Vinnuhópur 3 (WG3) leggur mat á leiðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á aðrar leiðir til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar.

Milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2007.

Nálgast má umfjöllun um fyrri skýrslur IPCC á síðum skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica