Fréttir
Hluti þátttakenda fór í feltferð að gosstöðvunum á Reykjanesi
Hluti þátttakenda fór í feltferð að gosstöðvunum á Reykjanesi. Mynd: Veðurstofa Íslands

Lokafundur EUROVOLC samstarfsverkefnisins

Ávinningur verkefnsins mikill þegar kemur að rannsóknum og vöktun eldstöðva

29.11.2021

Lokafundur EUROVOLC samstarfsverkefnisins fór fram dagana 16.-18. nóvember. Verkefnið, sem miðar að samstarfi og samtengingu evrópskra eldfjallaeftirlits- og rannsóknarstofnanna hóf göngu sína 1. febrúar 2018 og átti að standa yfir í 3 ár. Þegar ljóst var að kórónuveirufaraldurinn myndi hafa mikil áhrif á verkefnið sökum ferðabanns og/eða -takmarkana sótti verkefnisstjórn um 10 mánaða framlengingju sem samþykkt var af Evrópusambandinu í desember 2020 og verkefnið því framlengt til 30. nóvember 2021. Framlengingin var afar mikilvæg, sér í lagi fyrir framkvæmd sérstakra rannsóknarverkefna sem styrkt voru af EUROVOLC, en verkefnið bauð vísindamönnum að sækja um aðgang að innviðum evrópsku eldfjallarannsóknarstofnanna. Slíkar eldfjallaeftirlitsstöðvar eru meðal annars á Reunion-eyju í Indlandshafi og á Gualdeloupe og Montserrat eyjum í Karíbahafi. Umsækjendur gátu sótt um að framkvæma rannsóknir og fá aðgang að annars óaðgengilegum rannsóknarinnviðum og gögnum. Framlengingin varð til þess að af 39 samþykktum rannsóknarverkefnum féllu aðeins 3 niður.

Sottvarnir

Mæting var góð þrátt fyrir hertar aðgerðir sóttvarnaryfirvalda. Mynd: Hanna Blanck.

Verkefnið er Veðurstofunni mikilvægt

Í anda nýrra viðmiða í fundarhöldum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins var mæting á lokafundinn tvíþætt og sótti helmingur þátttakenda fundinn í gegnum fjarfundarbúnað en aðrir gerðu sér ferð til Íslands. Alls sóttu um 70 manns fundinn. Við upphaf fundarins ávarpaði Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands fundargesti og undirstrikaði mikilvægi verkefna og samstarfs á borð við EUROVOLC og annarra verkefna eins og EPOS (European Plate Observing System) sem Veðurstofan hefur tekið virkan þátt í. Slík innviðaverkefni gegna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu og eflingu innviða, auk þess að beina augum stjórnvalda að mikilvægi rannsókna af þessu tagi. Verkefni á borð við EUROVOLC hafa fjármagnað vöktun og rannsóknir á eldfjöllum um alla Evrópu og eru því gríðarlega mikilvæg fyrir alla virðiskeðjuna.

Ávinningur EUROVOLC, sem Evrópusambandið styrkti um 5 milljónir evra og hvers heildarumfang er 6 milljónir evra, mælist í auknum afurðum af ýmsum gerðum eldfjallagagna og -afurða, þróun aðferðafræði og hugbúnaðar, stöðlun og samþættingu bestu starfsvenja (e. standard of best practice) og aukins samstarfs vísindamanna ólíkra stofnanna á sviði eldfjallarannsókna og -vöktunar um alla Evrópu.

Framtíðarsýn eldfjallasamfélagsins rædd á fundinum

Að þessu sinni var áhersla fundarins á þau fjögur þemu sem verkefnið byggðist upp á, fremur en að einblínt væri á vinnu stakra verkþátta. Heildstæð niðurstaða verkefnisins innan þemanna:  (1) ,,Community building“, (2) ,,Volcano-atmosphere interaction“, (3) ,,Sub-surface processes“ og (4) ,,Volcanic crisis preparedness and risk management“ var kynnt og framtíðarhorfur ræddar. Þar sem verkefninu lýkur formlega þann 30. nóvember var fundurinn í senn uppskeruhátíð í bland við umfjöllun um framtíðarsýn eldfjallasamfélagsins. Á fundinum voru ennfremur flutt stutt erindi um eldfjallatengda atburði víðsvegar um Evrópu þetta árið, s.s. um eldgos og óróa í Fagradalsfjalli, Etnu og  Vulcano á Ítalíu og La Palma á Kanaríeyjum.

KristinogGiuseppe

Kristín S. Vogfjörð (VÍ) og Giuseppe Puglisi (INGV) sameinuðu krafta sína þegar styrkumsóknin var skrifuð til Evrópusambandasins. Mynd: Hanna Blanck.

Formlegum fundi lauk á umræðum um næstu skref eldfjallasamfélagsins og var það einróma álit hópsins að afurðum verkefnisins yrði best komið innan rafrænna þjónusta EPOS samtakanna. Lokaorð fundarins áttu Giuseppe Puglisi, INGV (Instituto nazionale di geofisica e vulcanologia); Patrick Allard, stjórnarformaður alþjóðlega eldfjallarannsóknarsamfélagsins IAVCEI (International Association of Volcanology and Chemistry of the Earth's Interior), og Kristín S. Vogfjörð, Veðurstofu Íslands, sem leitt hefur verkefnið frá upphafi.

Kroppud-mynd

Hluti þátttakenda fór í feltferð að gosstöðvunum á Reykjanesi. Þeir þátttakendur sem sáu sér fært að heimsækja okkur á Íslandi fögnuðu saman í kvöldverði og botninn var sleginn með frábærri ferð til gosstöðvanna á Fagradalsfjalli undir leiðsögn Freysteins Sigmundssonar (HÍ), Ármanns Höskuldssonar (HÍ) og Söru Barsotti (VÍ). Hanna Blanck (VÍ) var til taks til að svara spurningum um jarðskjálfta og Bergrún Óladóttir um gjósku. Á fjallinu fundum við Björn Oddsson (Almannavarnir) sem fór yfir áskoranirnar sem hans deild tókst á við þegar eldgos verður að helsta aðdráttarafli túrismans í miðjum heimsfaraldri. Mynd: Ríkey Júlíusdóttir



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica