Fréttir

Lítið jökulhlaup úr Hafrafellslóni við Langjökul

13.7.2021

Jaðarlón hefur myndast eftir aldamótin síðustu við vestanverðan Langjökul, undir Hafrafelli. Í lónið safnast leysingarvatn úr jöklinum að sumarlagi og þar áttu jökulhlaup upptök sín árin 2014, 2017 og 2020. Hlaupin bárust í farveg Svartár, sem síðan fellur í Geitá og Hvítá, norðaustan Húsafellsskógar.

Heimamenn urðu varir við hlaup í Svartá mánudaginn 12. júlí og litur kom á Hvítá samdægurs. Vatnshæðarmælir við Kljáfoss sýndi að rennsli jókst úr 75 m3/s kl. 9 að morgni í 100 m3/s kl. 03:30 að morgni 13. júlí. Eftir það hefur rennslið farið minnkandi á ný.

Hlaupvatnið hefur að öllum líkindum komið úr Hafrafellslóninu, sem síðast hljóp 17.-18. ágúst 2020. Í því hlaupi mældist rennsli öllu meira, um 260 m3/s við hámarkið. Hlaupið sem nú er í rénun virðist hins vegar dragast meira á langinn auk þess sem það reis hægar.

Hiti mældist 24°C á Húsafelli sl. laugardag (10.7.) og hafa þau hlýindi eflaust leitt til umtalsverðrar leysingar á jöklinum og afrennslis í lónið. Búast má við að myndun ísganganna í hlaupinu í fyrra hafi minnkað fyrirstöðu gagnvart útrennsli úr lóninu.

Aðstæður á vettvangi verða kannaðar í dag (13.7.). Hér er um minni háttar hlaup að ræða og skemmdir engar svo vitað sé. Hafrafellslónið verður áfram vaktað með reglubundinni skoðun gervitunglamynda og viðvaranir gefnar út ef ástæða er til.

  SENTINEL-2-tunglmynd-af-Langjokli-2021

SENTINEL-2 tunglmynd af Langjökli, tekin 3. júlí 2021. Leysing er hafin á jöklinum og blágrænn jökulís kemur í ljós þar sem vetrarsnjór hefur bráðnað. Hafrafellslónið er tekið að safna í sig leysingarvatni.

 

Rennsli-Hvitar-i-Borgarfirdi

Rennsli Hvítár í Borgarfirði við Kljáfoss 10.-13. júlí 2021. Hlaupvatn nær mælinum um kl. 9 að morgni 12. júlí og hlaupið nær hámarki kl. 03:30 að morgni 13. júlí.




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica