Fréttir
Grímsvötn (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Oddur Sigurðsson)

Lítið hlaup úr Grímsvötnum

Rennsli hefur náð hámarki í Gígjukvísl og fer hægt lækkandi. Engin merki um gosóróa í Grímsvötnum

16.10.2022

Uppfært 16.10. kl. 15:00

Rennsli í farvegi Gígjukvíslar náði hámarki í morgun og hefur vatnshæð við brúna á þjóðvegi 1 farið hægt lækkandi frá hádegi. Samhliða lækkandi vatnshæð hefur rafleiðni í ánni minnkað. Magn hlaupsvatns í ánni fer því minnkandi og ljóst að hlaupið er í rénun.

Nokkrir skjálftar mældust í Grímsvötnum í gærkvöldi og einn eftir miðnætti, en engin merki sjást um aukna skjálftavirkni eða gosóróa.

Webcam_V159_Gigjukvisl_S_20221016_1305

Úr vefmyndavél við Gígjukvísl sem sýnir vatnshæðin eins og hún var kl. 13:05 í dag.

Uppfært 14.10. kl. 11:45

Rennsli í farvegi Gígjukvíslar heldur áfram að aukast og hefur líklega ekki enn náð hámarki við brúna á þjóðvegi 1. Vefmyndavélar sýna að áin hefur breitt meira úr sér frá því í gær og af þeim að dæma er áin enn undir því sem telst til venjulegs sumarrennslis.

Íshellan hefur sigið um 15m á þeim stað þar sem mælitæki Jarðvísindastofnunar Háskólans eru staðsett og hefur að öllum líkindum náð botni Grímsvatna á þeim stað, en sigið getur haldið áfram á öðrum hluta íshellunar, nær Grímsfjalli, þar sem dýpi er meira. Ekki er enn farið að draga úr óróa vegna vatnsrennslis sem jarðskjálftamælir á Grímsfjalli nemur og því er rennsli út úr vötnunum líklega enn nálægt hámarki sem áætlað hefur verið í kringum 500 m3/s

Jarðskjálfti um 2 að stærð mældist í nótt rétt norðaustur af Grímsvötnum, en engin merki sjást um aukna skjálftavirkni eða gosóróa.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans munu halda áfram að vakta Grímsvötn náið næstu sólarhringana og verða birta upplýsingar eftir því hvernig atburðurinn þróast.

Gigjukvisl_10okt_14.okt

Myndaröðin sýnir breytingar á vatnsmagni í Gígjukvísl frá morgni 10. október og til kl. 8 í morgun.

 


Uppfært 13.10. kl. 13.45

Jökulhlaup úr Grímsvötnum heldur áfram og áætlað rennsli þaðan komið yfir 350 m3/s. Sig íshellunar þar sem mælitæki eru staðsett er nú um 11 m miðað við 7 m á sama tíma í gær. Áfram er gert ráð fyrir því að rennsli útúr Grímsvötnum nái hámarki seinnipartinn í dag eða næstu nótt og verði þá nærri 500 m3/s.

Frá því snemma í gærmorgun hafa sést merki um hlaupvatn í Gígjukvísl við þjóðveg 1, bæði á vefmyndavélum og vatnshæðamæli. Gera má ráð fyrir því að rennsli þar haldi áfram að vaxa og nái hámarki um það bil sólarhring seinna en hámarksrennsli út úr Grímsvötnum. Hámark þessa hlaups niðri við þjóðveg mun því jafnast á við venjulegt sumarrennsli í Gígjukvísl og mun ekki hafa nein áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

Engar markverðar breytingar hafa sést á skjálftavirkni í eldstöðinni í Grímsvötnum samhliða þessum atburði og engin gosórói mælist. Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans munu halda áfram að vakta Grímsvötn náið næstu sólarhringana og verða birta upplýsingar eftir því hvernig atburðurinn þróast.

Gigjukvisl_10okt_13.okt

Myndaröð úr vefmyndavél sem staðsett er á brúnni yfir Gígjukvísl á þjóðvegi 1. Myndirnar sýna breytingar í vatnsmagn frá því á mánudagsmorgun og til kl. 9 í morgun, fimmtudag.

20221012_grimsvatnahlaup_2022_scenario

Sjá má áætlaða hlaupleið vatnsins undir jöklinum á þessu korti. Gera má ráð fyrir að rennslið við brúna yfir Gígjukvísl verði minna en út úr vötnunum sjálfum vegna dempunar hlauptoppsins í lónum framan við Skeiðarárjökul. Hlaupfarvegur utan jökuls er merktur með svörtu. VHM159 er staðsetning á vatnshæðamæli við brúna yfir Gígjukvísl. (Kortagerð: Bogi Brynjar Björnsson)



Uppfært 12.10. kl. 11.30

Rennslið úr Grímsvötnum nálgast nú tæpa 300m3/s og hefur íshellan þar sem mælitæki eru staðsett sigið um 7m. Vöxturinn er hægari en reiknað var með í upphafi og miðað við þessa þróun er líklegast að hámarksrennsli út úr vötnunum verði seinnipart fimmtudags eða aðfaranótt föstudags. Reikna má með að það taki hlaupvatn um sólarhring að renna undir Skeiðarárjökul frá Grímsvötnum og niður í farveg Gígjukvíslar við þjóðveg 1. Áfram er reiknað með að hámarksrennsli út úr vötnunum verði um 500 m3/s. Líklegt er að rennslið við brúna yfir Gígjukvísl verði minna en út úr vötnunum sjálfum vegna dempunar hlauptoppsins í lónum framan við Skeiðarárjökul. Rennslið við brúna í þessu hlaupi mun því jafnast á við mikið sumarrennsli og ekki hafa nein áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

Lítil sem engin skjálftavirkni er í eldstöðinni og enginn gosórói mælist. Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður.


Færsla frá 10.10. 2022

Mælingar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands gefa til kynna að vatn er farið að streyma úr Grímsvötnum og von er á hlaupi í Gígjukvísl. Íshellan þar sem mælitæki eru staðsett hefur sigið um tæpa 3m á síðustu dögum, en lág vatnsstaða er í Grímsvötnum og því von á litlu hlaupi, eða tæplega fimmtungi á við síðasta hlaup.  Líklegast er að hlaupið komi fram í Gígjukvísl á morgun, þriðjudag, og standi yfir í nokkra daga. Talið er að ef vötnin tæmist alveg geti íshellan sigið um 10-15m í heildina.

Síðast hljóp úr Grímsvötnum í desember í fyrra og því er stutt frá síðasta hlaupi. Benda mælingar á vatnsstöðunni í Grímsvötnum til þess að hámarksrennsli hlaupsins núna verði lítið eða um 500 m3/s, en í fyrra náði rennslið mest tæpum 3.000 m3/s. Það hlaup hafði lítil sem engin áhrif á mannvirki s.s. vegi og brýr.

Sig_Skjamynd-2022-10-11-093524

Graf sem sýnir lækkun íshellunnar frá því í byrjun október í ár. (Smelltu á myndina til að sjá hana stærri).

Vel fylgst með virkni í eldstöðinni

Dæmi eru um að eldgos verði í Grímsvötnum eftir að vatn hleypur þaðan. Talið er að skyndilegur þrýstiléttir vegna lækkandi vatnsborðs hleypi af stað gosum. Síðast varð atburðarásin slík árið 2004 og þar áður 1934 og 1922. Mun oftar hefur þó hlaupið úr Grímsvötnum án þess að til eldgoss komi. Fluglitakóðinn fyrir Grímsvötn hefur þó verið færður yfir á gult vegna hlaupsins þar sem erfitt er að útiloka þann möguleika að eldgos hefjist í kjölfarið þó það teljist ólíklegt. Tvennt þarf að koma til; þrýstingsléttir þarf að vera nægur "gikkur" til vekja eldstöðina og þrýstingur í eldstöðinni þarf að vera nægur til að koma af stað eldgosi, en óvissa ríkir um báða þætti. Búast má við mestum þrýstingsléttingi í Grímsvötnum á miðvikudaginn þegar hlaupið nær hámarki og þar með auknum líkum á eldgosi sem fara hratt þverrandi eftir að hlaupi líkur.

Veðurstofan ásamt vísindamönnum Jarðvísindastofnunar Háskólans halda áfram að vakta Grímsvötn og munu birta upplýsingar eftir því hver þróun atburðarásarinnar verður. Í ljósi þessa er rétt að benda að samfara jökulhlaupi má búast við gasmengun sem verður mest næst jökuljaðrinum og við árfarveg Gígjukvíslar.

Nánar um eldstöðina Grímsvötn

Grímsvötn er virkasta megineldstöð Íslands, þar sem á virknitímabilum eins og verið hefur frá 1996, er algengt að 5-10 ár séu milli gosa. Um 20 gos hafa orðið í Grímsvötnum og nágrenni á síðustu 200 árum.  Síðasta gos í Grímsvötnum var árið  2011 og var það nokkuð stórt og kröftugt en annars hafa síðustu gos verið fremur lítil og staðið yfir í nokkra daga.  Meiri upplýsingar um eldstöðina er að finna í vefsjá íslenskra eldfjalla.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica