Fréttir
Yfir Mýrdalsjökli.

Katla og Mýrdalsjökull

Virkni, túlkun og vöktun

31.8.2016

Frá miðjum júní hefur jarðskjálftavirkni í Kötluöskjunni aukist umfram bakgrunnsvirkni. Aukin virkni í Kötlu yfir sumarmánuðina er algeng og virðist tengjast fargbreytingum og hærri grunnvatnsstöðu. Samfara þessu eykst tíðni jökulhlaupa, og þeim fylgir aukin leiðni og möguleg gasmengun við ár. Þessi hlaup eiga uppruna sinn á jarðhitasvæðum í öskjunni sem sjást vel á yfirborði jökulsins sem jarðhitakatlar. 

Þessi árstíðabundna aukning í jarðskjálftavirkni virtist vera í rénun þegar jarðskjálftahrina hófst þann 29. ágúst og tveir skjálftar af stærð ~4,5 mældust í norðurhluta Kötluöskjunnar. Þessir skjálftar eru þeir stærstu sem mælst hafa í Kötlu frá árinu 1977. Í skjálftahrinu sem kom í kjölfarið, mældust yfir 100 jarðskjálftar, sá stærsti af stærðinni 3,3. Eftir þann skjálfta lauk hrinunni og skjálftavirknin á svæðinu minnkaði á ný.

Samfara skjálftavirkninni í sumar hefur mælst viðvarandi há rafleiðni og borist hafa þónokkrar tilkynningar um brennisteinslykt í grennd við Múlakvísl. Ekki varð þó vart við aukna rafleiðni í tengslum við skjálftahrinuna þann 29. ágúst, en gasmælingar sem framkvæmdar voru við uppsprettu Múlakvíslar sýna háan styrk af Bernnisteinsvetni (H2S) sem bendir til að talsvert jarðhitavatn sé í ánni. Styrkur H2S er það hár, að ekki er talið æskilegt að ferðamenn staldri lengi við bakka árinnar, sérstaklega við upptök hennar.

Engar vísbendingar eru um, að sú virkni sem mælst hefur í sumar í Kötluöskjunni sé merki um yfirvofandi gos í Kötlu. Á undanförnum áratugum hafa nokkuð oft komið tímabil mikillar virkni í Kötlu. Hins vegar verður að hafa í huga Katla er ein af virkustu eldstöðvum landsins og langt er frá síðasta staðfesta gosi sem var árið 1918 (þ.e. fyrir 98 árum), sem er sögulega mjög langt goshlé.

Veðurstofa Íslands fylgist mjög vel með virkni í Kötlu og er hún vöktuð allan sólahringinn með þéttu neti af GPS- og skjálftamælum. Viðvaranir verða gefnar út um leið og vísbendingar um yfirvofandi gos sjást á mælum Veðurstofunnar.



Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica